22.02.1954
Neðri deild: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

144. mál, orkuver Vestfjarða

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. um nýtt orkuver á Vestfjörðum flutti hv. þm. Barð. og ég á þinginu 1951. Það var að öllu meginefni samhljóða því frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 371. Nú flytjum við allir þm. Vestfirðinga í Nd. frv. og höfum gert á því þær breytingar frá því það var flutt seinast í Ed., sem raforkumálastjóri þá í viðræðu við n., sem fjallaði um málið, lagði til. Það er í fyrsta lagi sú breyting, að ríkisstj. er heimilað að fela rafmagnsveitum ríkisins að virkja Dynjandisá í Arnarfirði til raforkuvinnslu í allt að 7 þús. hestafla orkuveri. Það var till. raforkumálastjórans þá, að orðalagið væri á þennan hátt, en ekki bundið við 7 þús. hestöfl ákveðið. Og enn fremur að ríkisstj. væri heimilað að fela rafmagnsveitunum að leggja aðalorkuveitu eða háspennulinur um Vestfjarðasvæðið, þ. e. a. s. vestur á bóginn til kauptúnanna Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar og norður á bóginn til Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar, Bolungavíkur, Súðavíkur og svo til Hnífsdals og Ísafjarðar.

Í 2. gr. er ríkisstj. heimilað að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs eða ábyrgjast lán, sem rafmagnsveitur ríkisins tækju, allt að 60 millj. kr., eða, eins og raforkumálastjóri lagði til, þegar málið var til meðferðar í Ed. á sínum tíma, jafngildi þeirrar upphæðar í erlendri mynt. Það vildi hann að bættist þá við, og sú breyting hefur hér verið tekin upp í frv. að ábendingu raforkumálastjórans. Enn fremur er heimilað að taka lán úr raforkumálasjóði, samkv. ákvæðum 35. gr. raforkulaganna, allt að 20 millj. kr., þó aldrei meira en 1/3 hluta af stofnkostnaði mannvirkjanna. Upphæðin 60 millj. kr. er tekin upp í þetta frv. eftir síðustu upplýsingum frá raforkumálastjóra, þar eð útreikningar, sem að vísu er ekki alveg búið að ganga frá, benda nú til þess, að kostnaður við virkjun Dynjandisár í allt að 7 þús. hestafla orkuveri fari ekki fram úr 50–60 millj. kr. Það eru upplýsingar, sem eru fengnar nú nokkrum dögum áður en frv. var lagt fram. Áður höfðu menn staðið í þeirri meiningu, að virkjunarkostnaður yrði verulegum upphæðum meiri, jafnvel 80–90 millj. kr.

Í 3. gr. eru varnaglar, sem settir hafa verið inn í flest þau frv. um ný orkuver, sem Alþ. hefur afgr. á hinum síðari árum, sem sé um það, að framkvæmdir samkv. 1. gr. frv. megi ekki hefjast, nema fyrir liggi nákvæmar kostnaðaráætlanir um virkjunarframkvæmdir samkv. ákvæðum raforkulaganna. Þessir varnaglar ættu alls ekki að verða að meini þessu máli, því að svo oft er búið að áætla það og útreikna og endurreikna á ný, og verið er nú að ganga frá útreikningum um kostnað og virkjunartilhögun í einstökum atriðum enn einu sinni og því verki nálega að verða lokið, enda hafði raforkumálastjóri gert ráð fyrir því, að þessum nýju seinustu áætlunum yrði lokið ekki síðar en vorið 1953, en það hefur orðið svolítið á eftir tímanum, en er nú sem sé verið að ganga frá því.

4. gr. fjallar um það, að ríkissjóður skuli gera ráðstafanir til að tryggja sér vatnsréttindin í Dynjandisá, ef ekki sé búið að ganga frá því máli að fullu nú. Það var flm. ekki kunnugt um. Eins og kemur fram í grg. með frv., þá eignaðist Páll Torfason og menn, sem gengu í félag með honum árið 1912, vatnsréttindi í vatnsföllunum fyrir botni Arnarfjarðar, og voru þau vatnsréttindi síðan í eign þess félags og síðar í eign Fornjóts Torfasonar, sem nú mun vera nýlega látinn, og er því sennilegt, að vatnsréttindin séu í eign dánarbús hans.

5. gr. lýtur að því, að kostnaður sá, sem hlutafélagið Orkuver Vestfjarða tók á sig á sínum tíma við rannsóknir og áætlanir vegna virkjunar vatnsfallanna fyrir botni Arnarfjarðar á árunum 1942–44, skuli á sínum tíma verða tekinn með í heildarkostnað orkuvers Vestfjarða og endurgreiðast sveitarfélögunum, sem lögðu þessar upphæðir fram. Það er ekkert sagt um, hvenær þetta skuli gerast, en í frv., sem flutt var í Ed. 1951, var gert ráð fyrir því, að það yrði gert þegar í stað. Mér finnst engu máli skipta héðan af, þótt sveitarfélögin eigi þetta fé inni hjá ríkinu, þangað til búið væri að koma þessu orkuveri upp, og væri það vitanlega samningsatriði milli aðila.

Frv. fylgir ýtarleg grg., þar sem öll saga þessa máls er rakin, en það er saga 40 ára tímabils, frá því að fyrst var byrjað að hefja undirbúning að virkjun Dynjandisár og vatnsfallanna í Arnarfjarðarbotni. Þá var ætlunin að virkja þarna orku til stóriðju á Vestfjörðum, og danskur og norskur sérfræðingur, sem um málið fjölluðu, töldu, að það væri tæknilega fært að leiða fjórar ár á þessu svæði saman í einn farveg og virkja þar afl, sem gæfi um 30 þús. hestöfl fimm mánuði ársins, þ. e. á. s. yfir vetrarmánuðina, en rúmlega 50 þús. hestöfl sjö mánuði af árinu.

Það má svo segja, að ekkert hafi verið gert í því að athuga möguleika til samvirkjunar fyrir Vestfirði í þessum vatnsföllum, fyrr en sveitarfélögin á Vestfjörðum bundust samtökum árið 1942 um að reyna að hrinda málinu af stað. Þau lögðu fram fé miðað við íbúatölu, Ísafjarðarkaupstaður og allir kauptúnahrepparnir allt vestur til Patreksfjarðar, og kusu þessu fyrirtæki stjórn, réðu sérfræðing til rannsóknanna, Finnboga R. Þorvaldsson verkfræðing, nú prófessor, og voru rannsóknirnar framkvæmdar í þrjú sumur. Þegar grundvöllur hafði þannig verið lagður að þessu máli, töldu þm. Vestfjarða málið vera komið á slíkan rekspöl, að það væri affarasælast að afhenda ríkinu málið til framkvæmda. Og þá er það, að þáverandi samgmrh., Emil Jónsson, felur vegamálastjórninni og raforkumálastjórninni að búa til áætlanir um virkjunina. Vegamálaskrifstofan afhenti það Höjgaard & Schultz, sem þá hafði hér raforkuframkvæmdir og ýmsa aðra mannvirkjagerð með höndum, og nú var rannsóknum haldið áfram og kostnaðaráætlun gerð. Niðurstaðan af þessari kostnaðaráætlun varð sú, að það mundi kosta um 26 millj. kr. að byggja orkuver við Dynjandisá og leiða háspennulínur til allra kauptúnanna á Vestfjörðum og til Ísafjarðarkaupstaðar og auk þess að byggja 10 spennubreytistöðvar við kerfið; en svo var ætlunin, að sveitarfélögin sjálf byggðu lágspennukerfin innanbæjar og spennubreytistöðvar þar eftir þörfum.

Þegar svo farið var að athuga þessar áætlanir allar saman og uppdrætti, þá virtist eiginlega undirbúningi málsins vera lokið, en þá lagði raforkumálastjóri til, að ekki væri ráðizt í virkjunina að sinni. Hann benti á, að fyrstu rekstrarár orkuvera væru yfirleitt fjárhagslega erfið, þar sem fólkið væri ekki búið að venjast raforkunotkun í ýmsum myndum. Hann taldi, að lágspennukerfin í kauptúnunum væru mjög léleg, þau þyrfti að endurbyggja, til þess að þau væru fær um að taka við raforku frá heildarorkuveri, og það væri þess vegna að byggja fyrir framtíðina að endurbyggja lágspennukerfin í öllum kauptúnunum með það fyrir augum, að hægt væri að tengja þau síðar við heildarkerfið. Raforkumálastjórinn lagði enn fremur til, að byggðar yrðu dieselrafstöðvar í öllum kauptúnunum, til þess að fólk vendist við að nota raforku, ekki aðeins til ljósa, heldur líka til suðu og smáiðnaðar og yfirleitt til þess iðnaðar, sem væri verið að byggja upp á þessu svæði. Og þetta var gert. Sveitarfélögin réðust í þetta, byggðu myndarlegar dieselrafstöðvar, og var seinasta kauptúnið búið að ljúka þessu árið 1951, og þá hafði líka verið endurbyggt lágspennukerfið í öllum kauptúnunum á Vestfjörðum. Ísafjörður hafði áður endurbyggt sitt lágspennukerfi og komið upp vatnsorkuveri í botni Skutulsfjarðar, hafði virkjað þar rúmlega þúsund hestöfl, stöð, sem er nokkru minni en gamla Elliðaárstöðin hér inn frá, og bærinn og Eyrarhreppur höfðu fengið góða og ódýra raforku frá því orkuveri allt frá því 1937. En sýnt var, að þar var ekki hægt að virkja meiri orku, vegna þess að vatnið var fullnotað, og Ísafjörður sá þannig fram á stóraukna þörf fyrir raforku fyrir bæjarbúa og Eyrarhreppsbúa.

Allur meginhluti svæðisins, sem samvirkjun fyrir Vestfirði á að sjá fyrir raforku, er því nú búinn að gera þær undirbúningsráðstafanir, sem raforkumálastjóri á sínum tíma, þegar áætlunin lá fyrir 1946 um heildarvirkjunina, taldi heppilegt undirbúningsskref: að vinna up orkunotkunina í öllum kauptúnunum og í Ísafjarðarbæ. Síðan hafa íbúarnir á þessu svæði fengið reynslu af raforkuframleiðslu með vatnsafli, þ. e. a. s. í Ísafjarðarbæ og Eyrarhreppi, og raforkuframleiðslu með dieselrafstöðvum. Reynslan um verðlagið er svo sú samkv. staðfestum gjaldskrám, að á Ísafirði er raforkuverðið sambærilegt við raforku frá Sogsvirkjuninni. Til lýsingar almennt er verðið kr. 1.60 á Ísafirði, kr. 1.75 í Reykjavík. Til suðunotkunar á heimilum gegnum sérmæli 38 aura kwst. á Ísafirði, 44 aura í Reykjavík, Stórar vélar á 35 aura kwst. á Ísafirði og 26–44 aura í Reykjavík. Til daghitunar 20 aura kwst. á Ísafirði og 17 aura í Reykjavík. Það virðist þess vegna vera, þegar á heildina er litið, mjög sambærilegt verð, sem Ísfirðingar njóta, vegna þess að þeir byggðu sína vatnsaflsstöð 1937 með viðbótarvirkjun 1946. Á þeim tímum hafði okkur líka verið mjög ráðlagt af sérfræðingum að ráðast ekki í þessar virkjanir, halda miklu lengur áfram rannsóknum og undirbúningi, en það er áreiðanlegt, að það hefur sparað Ísfirðingum mörg hundruð þúsunda, kannske milljónir, að þeir komu þá upp sinni aflstöð árið 1937, og hafa notið hennar síðan, þó að þar kæmi, eins og við var búizt, að orkan var ekki nóg, og þá urðum við að neyðast til að byggja dieselrafstöð í viðbót, sem hefur orðið til þess, að raforkuverðið hefur þurft að hækka. Maður fagnar hverjum þeim vetri, sem ekki þarf að setja dieselstöðina í gang til hjálpar, og hefur sem betur fer, aðallega vegna veðráttu, farið svo bæði í vetur og s. l. vetur, að vatnsaflstöðin hefur dugað. Hins vegar er verðið, þar sem dieselrafstöðvarnar hafa komizt upp, eins og ráðlagt var, orðið geysilega hátt. Verðið til ljósa er yfirleitt frá þessum dieselstöðvum, sem byggðar voru, frá tveimur krónum og upp í þrjár krónur kwst. og aðrir taxtar eftir því. Auk þess er svo herbergjagjald, og ekki nóg með það, heldur hafa sveitarfélögin þrátt fyrir þessa gífurlega háu raforkutaxta orðið að taka á sveitarsjóðina stórkostlegan halla. T. d. er upplýst um Bolungavík, að hallinn hafi á árinu 1951 orðið kr. 71392.58, og lögreglustjórinn þar segir þá í ræðu, að búast megi við, að hann verði ekki undir 111 þús. kr. árið 1952, eða um 200 þús. kr. halli á dieselrafstöð Hólshrepps á tveimur árum. En það leiðinlegasta við þetta er það, að verðið hafa þessar sveitarafveitur frá dieselstöðvunum orðið að setja svo hátt, að fiskiðnaðarfyrirtækin hafa ekki séð sér fært að kaupa orku frá þeim og hafa haldið áfram með sínar litlu mótorstöðvar, sem þau áður höfðu til orkuframleiðslu fyrir sig. Verðið er svo hátt, að þetta hefur ekki orðið lausn á þörf fiskiðnaðarins fyrir raforku, og verður það mál ekki leyst, fyrr en Vestfirðir fá vatnsaflsstöð.

Síðan 1946 hefur svo raforkumálaskrifstofan haldið áfram vatnsmælingum og áætlunum orkuvers við Dynjandisá og miðað allar athuganir sínar við hana eina. Niðurstaðan varð sú, að Höjgaard & Schultz og þeir, sem með honum athuguðu málið 1945 og 1946, töldu, að það væri alveg óþarft að vera að hugsa um Dynjandisá og Mjólká saman. Það væri miklu meiri orka en Vestfirðingar hefðu þörf fyrir um ófyrirsjáanlega framtíð. Dynjandisá ein gæti gefið 5150 kw., eða um 7 þús. hestöfl. En athuganir, sem miðaðar eru við orkunotkun á Sogsvirkjunarsvæði, þar sem menn eru búnir að hafa raforku til afnota einna lengst og atvinnuháttum er líkt hagað og á Vestfjörðum, a. m. k. er ekki minni orkunotkun til iðnaðar en búast má við þar, bendir til þess, að 7 þús. íbúar, sem eru á því orkuveitusvæði, sem hér er um að ræða, mundu þurfa rúmlega 3 þús. kw. til heimilisnota og lýsingar, smáiðnaðar og stærri véla og verkstæða og þar með talinn fiskiðnaðurinn á Vestfjörðum, eins og mannvirkjum er þar hagað nú. Ég endurtek, rúmlega 3 þús. kw., en orkuveita frá Dynjandisá mundi gefa 5150 kw. Auk þess er svo vatnsaflsstöðin á Ísafirði með yfir þúsund hestöfl, svo að það væri þarna um að ræða vatnsorkuver þegar í stað, þegar orkuver við Dynjandisá væri komið upp, með yfir sex þús. kw. orku, en orkunotkunin nú áætluð rúmlega þrjú þúsund. Það eitt er því víst, að það, sem hefur tafið málið til þessa, er ekki það, að vantað hafi nógu orkumikil vatnsföll á Vestfjörðum til þess að virkja, þó að því hafi lengi verið borið við. Það er enginn vafi á því, að norski verkfræðingurinn, sem 1916 gekk frá sinum áætlunum og áætlar að það sé hægt, með því að veita vatnsföllunum í Arnarfjarðarbotni saman, að fá þar 50 þús. hestöfl, það er og enginn vafi á því, að sú áætlun er á fullum rökum reist og að það er hægt að virkja á þann hátt, ef menn teldu nokkra þörf fyrir þá orku á Vestfjörðum á næstu áratugum.

Ég hef hér vikið að því, að íbúatalan, sem um væri að ræða að fengi raforku frá sameiginlegu orkuveri við Dynjandisá, sé um 7 þúsund manns, þ. e. a. s. í kauptúnunum Patreksfirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Bolungavík, Hnífsdal og Súðavík og Ísafjarðarkaupstað 6400 manns, en í sveitunum ca. 600 manns. Er talið, að það væru um 120–130 sveitabýli, sem kæmust örugglega í samband við þessa heildarraforkuveitu, ef Dynjandisá væri virkjuð.

Auk þess sem raforkumálaskrifstofan hefur hvað eftir annað gert áætlanir um byggingu orkuvers bæði við Dynjandisá og Mjólká, þá hafa líka verið gerðar mælingar fyrir háspennulínunni í öll kauptúnin á Vestfjörðum og til Ísafjarðarkaupstaðar. Sú háspennulína virðist vera um 137 km á lengd, og liggur hún til beggja handa frá orkuverinu. Orkuverið liggur nokkuð miðsvæðis, og er það talið mjög heppileg aðstaða. Yfir Arnarfjörðinn þarf á tveimur stöðum að leggja sæstreng og sömuleiðis yfir Dýrafjörð, og er kapallengdin meðreiknuð í heildarlengdinni á háspennulínunni 137 km.

Fyrir nokkru er líka búið að rannsaka öll helztu vatnasvæðin á Vestfjörðum. Stærsta vatnasvæðið, 93 km2, liggur á Vestfjarðahálendinu upp af Vatnsfirði, og gætu menn látið sér detta í hug, að það væri þá sjálfsagðast að nota það vatnasvæði eða afrennsli þess til virkjunar. En virkjunaraðstaða er talin óheppileg þar, þar sem ekki væri hægt að virkja fyrr en fyrir neðan Vatnsdalsvatn, en þar er fallhæðin mjög lítil, í kringum 10 m. Næststærsta vatnasvæðið er svo fyrir botni Arnarfjarðar. Það er 56 km og gefur þá virkjunarmöguleika, sem ég hef hér gert grein fyrir, — gæti, ef ánum væri öllum veitt saman, sennilega gefið allt upp í 30–50 þús. hestafla orku. Þriðja stærsta vatnasvæðið er svo suður af Drangajökli, við svokölluð Skúfnavötn, en afrennsli þeirra heitir Þverá og rennur til sjávar hjá bænum Nauteyri á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp. Þar hefur raforkumálastjórnin látið gera mælingar síðan árið 1942, eða nú um ellefu ára skeið, og komizt að þeirri niðurstöðu, að þar megi örugglega virkja um 15 þús. kw., þ. e. a. s. yfirfljótanlega orku fyrir alla Vestfirði, en telur það til ókosta, að þá virkjun yrði að taka í einum áfanga, það væri ekki hægt að virkja þar út af fyrir sig svona 5000 kw., eins og orkuþörf Vestfjarða bendir nú til. Og annar höfuðókostur við þessa virkjun er sá, að Skúfnavötnin og Þverá liggja á enda virkjunarsvæðisins. Þaðan yrði til einnar handar að leggja alla háspennulínuna, sem yrði þá ekki undir 150–160 km. Þetta leiðir til þess, að þrátt fyrir það að um næga vatnsorku sé að ræða og um þrjá möguleika a. m. k. að velja, þá hefur raforkumálaskrifstofan núna, eftir allar athuganirnar á undanförnum árum og áratugum, staðnæmzt aftur við Dynjandisá.

Fyrir nokkrum árum voru menn mjög að ræða um það, hvort það væri ekki alveg frágangssök að ráðast í Dynjandisvirkjun, hvort það yrði ekki bara að leysa þetta á Vestfjörðum með olíumótorum. Og ég hygg nú, að raforkumálastjóri hafi jafnvel verið trúaður á það sjálfur, að það kynni að verða framtíðarlausnin, þó að hann 1946 benti á, að þetta gæti verið gott undirbúningsskref fyrir aðalvirkjunina, aðallega til þess að vinna upp orkunotkunina, eins og ég áðan sagði. En nú eru menn búnir að fá reynsluna af þessu, og það er alveg greinilegt, að fiskiðnaðurinn á Vestfjörðum yrði að taka á sig slíka bagga sem fiskiðnaðurinn annars staðar slyppi við, að honum væri ekki við vært. Hann gæti varla þrifizt með því orkuverði, sem þá yrði að vera á Vestfjörðum, nema því aðeins að það yrði að einhverju leyti tekið á herðar landsmanna annars staðar að lækka það með niðurgreiðslum.

Ég vil því a. m. k. halda því fram, og ég hygg, að flestir eða allir meðflm. mínir að þessu frv. séu þeirrar skoðunar, að margar olíustöðvar leysi ekki málið, reynslan sýni það. Orkan verði allt of dýr og öryggið ekki nægilegt, þar sem milljónaverðmæti væru þá tengd því í hverju kauptúni, að orkan brygðist aldrei.

En þá er um tvær leiðir að velja, þegar maður heldur sér eingöngu við vatnsorkuna. Það er að byggja smávatnsaflsstöðvar hingað og þangað um Vestfirði eða að byggja eitt orkuver og eina samveitu fyrir allt svæðið. Það væri víða á Vestfjörðum hægt að bæta úr orkuþörfinni með litlum vatnsaflsvirkjunum, en á öðrum stöðum væri það ekki hægt, og þá yrðu þeir staðir að búa áfram við raforku framleidda með olíu. Það væri strax höfuðókostur við að leysa málið með smávatnsaflsvirkjunum. Eini kosturinn við málið í sambandi við smávatnsaflsstöðvarnar væri sá, að það væri viðráðanlegra fjárhagslega í byrjun, en viðbúið væri, að orkan yrði tiltölulega dýrari frá slíkum dreifðum orkuverum. Það vill líka svo vel til, að raforkumálastjórinn hefur mjög skilmerkilega fært rök fyrir því, að samvirkjun hafi yfirburðakosti fram yfir aðrar leiðir, og telur hann kostina vera þessa:

1) Með samvirkjun fá allir staðirnir á Vestfjörðum vatnsorku, því að sérvirkjanir virðast ekki koma til greina alls staðar. Það er ekki hægt að leysa þetta fyrir allt svæðið með vatnsafli nema með samvirkjun.

2) Það er auðveldara að virkja til viðbótar, ef heildarþörfin vex, þegar um samvirkjun er að ræða.

3) Ef sérstök orkuþörf verður á einhverjum stað, t. d. vegna iðjurekstrar, er auðvelt að beina þangað orku frá samvirkjuninni. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði, t. d. ef upp risi iðja, sem gæti nýtt sumarorku. Tenging við aðra landshluta gæti einnig komið til greina með tímanum, ef um samveitu er að ræða fyrir alla Vestfirði.

4) Tæknileg þjónusta yrði betri, og það yrði völ á tæknifróðari mönnum til samvirkjunar heldur en til sérvirkjunar og lítilla vatnsaflsstöðva.

Það er því engum vafa bundið, að raforkumálastjórinn telur, að öll sterkustu rökin mæli með samvirkjun fyrir Vestfirði. Og þegar búið er að þaulathuga allar leiðir, telur hann, að virkjunin í Dynjandisá eða í vatnsföllunum fyrir botni Arnarfjarðar sé hagfelldust, og hafa þó hinar leiðirnar, um virkjun Þverár og Vatnsdalsár, verið gaumgæfilega athugaðar.

Vatnsmælingar, sem eru grundvallarundirstaða, áður en ráðizt er í byggingu orkuvera, hafa farið fram um mjög langt árabil í þeim ám, sem hér er um að ræða, eins og gefur að skilja, þar sem athuganirnar að því er snertir Dynjandisá hefjast árið 1912, eða fyrir meir en 40 árum.

Síðan 1946, að samgmrh. þáverandi, Emil Jónsson, lét gera áætlanir um þessar virkjanir, hafa verið byggð og endurbyggð orkuver í öðrum landshlutum, góðu heilli. Til þessa er búið að verja hundruðum milljóna, og á meðan hefur ekkert gerzt í raforkumálum Vestfjarða annað en bygging dieselrafstöðvanna, sem nú eru orðnar átta talsins, og endurbygging á lágspennukerfunum í öllum kauptúnum Vestfjarða. Fólkið heima fyrir er búið að brjótast í því að láta undirbúa Vestfjarðavirkjun, það er búið að framkvæma það, sem bent var á af sérfræðingum að væri gott undirbúningsskref, til þess að það væri viðbúið að taka á móti heildarorkunni frá stórvirkjun við Dynjandisá. Ríkið hefur látið halda athugunum og rannsóknum áfram, og nú virðist í raun og veru ekki vera hægt að hugsa sér það, að málið sé dregið lengur á langinn. Nú situr að völdum ríkisstj., sem hefur ákveðið að leggja of fjár í mikið átak í raforkumálum, útvega a. m. k. 100 millj. kr. fjárupphæð, sem eigi að fara til raforkuframkvæmda, og efla raforkusjóð Íslands að fé á ári hverju, og sér þess nú þegar vott á fjárl. Það virðist því vera alveg óhugsandi, að það verði ekki nú einmitt það fyrsta, sem hæstv. ríkisstj. gerir, að hrinda af stað byggingu heildarorkuvers fyrir Vestfirði og Austfjarðabyggðir, en þetta eru þeir landshlutar, sem hafa nú beðið meðan verið var að byggja upp stórorkuverin hér fyrir Suðvesturlandið og norðanlands. Hvort tveggja var þó endurbygging og mikil orkuver komin þar fyrir.

Ég vil því í lok máls míns mælast til þess, að hv. alþm. kynni sér vel og rækilega þetta mál. Ég tel, að það hafi nú verið lagt allskilmerkilega fyrir með þeirri ýtarlegu grg., sem frv. fylgir, og vænti ég þess, að það gangi fljótt í gegnum nefndir og fái afgreiðslu hið bráðasta.

N., sem athugaði frv. um nýtt orkuver á Vestfjörðum 1952 í Ed., segir, með leyfi hæstv. forseta:

N. er ljóst, að raforkumál Vestfjarða verða ekki leyst til hlítar nema með ákveðinni stórvirkjun, og kemur þá m. a. til greina virkjun í Dynjandisá. Með þeim fyrirvara, sem gerður er í frv. (þ. e. um það, að ekki megi hefjast handa fyrr en nákvæmar kostnaðaráætlanir liggi fyrir, og sá varnagli er nú í frv. líka), þykir rétt að heimila þá virkjun eins og aðrar virkjanir, sem heimilaðar hafa verið á undanförnum árum. Hins vegar hefur þótt rétt að fella niður úr frv. ýmis ákvæði, sem fara í bága við hin almennu ákvæði um ný orkuver.“ Það hefur rækilega verið hreinsað í burt í þessu frv. og á því ekki að standa í vegi.

N. í Ed. lagði til 1951, að frv., með þessum áorðnum breytingum, yrði samþykkt. Enn sjálfsagðara er það nú að samþykkja frv., því að síðan þetta gerðist er búið að samþykkja mörg frv. með sams konar orðalagi og uppbyggingu og þetta, og framkvæmdirnar í raforkumálum Íslands hafa skilað okkur langt áleiðis síðan 1951. Það má vera öllum ljóst, að fólksstraumurinn frá Vestfjörðum á undanförnum árum er að nokkru afleiðing þess, að það hefur ekki verið búið eins vel að Vestfirðingum og atvinnulífi þeirra að því er raforku snertir og að öðrum landshlutum. Það má því fyllilega búast við því, að ef menn verða vonlausir um, að Vestfirðingar og vestfirzkt atvinnulíf fái raforku jafnörugga og ódýra og fáanleg er í þjónustu atvinnulífsins annars staðar, þá verði þetta til þess að leggja Vestfjarðakjálkann í auðn. En hann hefur þó skilað drjúgum verðmætum í þjóðarbúið í sambandi við það aflamagn, sem borizt hefur að landi á Vestfjörðum að undanförnu, og er von, að ekki taki fyrir það, þó að nú horfi að vísu óvænlega fyrir vélbátaútgerðinni á Vestfjörðum, en togaramiðin eru þá úti fyrir Vestfjörðum, og eðlilegast væri, að þau væru nýtt frá Vestfjarðahöfnum.

Ég býst við því, að meðflm. mínir tali einnig fyrir þessu máli og geri grein fyrir nauðsyn þess frá þeirra sjónarmiði, því að okkur er vissulega mikið í mun, að þessi heimildarlög, sem hér er farið fram á, fáist samþykkt nú á þessu þingi.