29.03.1954
Neðri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

144. mál, orkuver Vestfjarða

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Fjhn. hefur athugað þetta frv. og gefið út nál. á þskj. 518. N. sendi málið til raforkumálastjóra og fékk umsögn hans um það. Var umsögn hans á þá leið, að hann taldi ekkert athugavert við það, að þetta frv. yrði samþ., þ. e. a. s. þessi heimild veitt, sem þar er farið fram á, en lagði til, að smábreytingar yrðu gerðar á frv., og höfum við tekið að mestu til greina till. hans um það efni og berum því fram þrjár brtt. við frv. á þskj. 518.

Fyrsta brtt. er við 1. gr. frv. og er um það, að heimildin nái til að virkja Dynjandisá eða Mjólká í Arnarfirði. Þetta taldi raforkumálastjóri að væri rétt að setja inn í frv., þannig að hægt væri, þegar rannsóknum væri lokið, að velja það af þessum tveimur vatnsföllum, sem hentara þætti.

Þá er gerð hér till. um breyt. á 4. gr. frv. Sú gr. fjallar um vatnsréttindi í Dynjandisá, og er þar mælt svo fyrir, að ríkisstj. geri þegar ráðstafanir til að tryggja sér þau réttindi, en eftir ábendingu frá raforkumálastjóra leggur n. til, að þetta verði sett í heimildarform, — ríkisstj. verði heimilað að festa kaup á vatnsréttindum í ánum fyrir botni Arnarfjarðar, ef viðunandi kjör fást. Raforkumálastjóri benti á, að það gæti verið heppilegra við samninga um þetta mál, að ríkisstj. hefði ekki ákveðin fyrirmæli um að kaupa þessi réttindi.

Þá er og nokkur breyting, sem við leggjum til að gerð verði á 5. gr. frv., og er það einnig um það, að þar verði sett inn heimild um að endurgreiða kostnað, sem sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa greitt vegna undirbúnings Vestfjarðavirkjunar, en ekki bein fyrirmæli um greiðslu á þessum kostnaði. Það lágu ekki fyrir hjá n. neinar upplýsingar um það, hve mikill þessi kostnaður væri, og þykir okkur réttara að breyta frv. í þetta form. Tveir nm., hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og hv. þm. A-Húnv. (JPálm), geta þess í nál., að þeir leggi áherzlu á, að undirbúningur þeirrar virkjunar, sem frv. fjallar um, verði ekki látinn tefja þær sérvirkjanir, sem hafa verið undirbúnar á Vestfjörðum. Út af þessari aths. þeirra vil ég taka það fram, að ég tel, að það sé ekki hægt fyrir þn. að hafa áhrif á það, í hvaða röð framkvæmdirnar verða, enda ekki til þess ætlazt af þn., að hún geri það, þar hljóta sérfræðingar, sem um þessi mál fjalla og hafa framkvæmdirnar með höndum, að gera sínar till., og er þetta svo ákveðið, eins og lög gera ráð fyrir, af þeim ráðh., sem fer með raforkumál. Það er ekki á annarra manna færi að dæma um það en sérfróðra manna um þessi efni, hvar hagstæðust virkjunarskilyrði eru á hverjum stað á landinu, og geta þeir því ekki, sem skipa fjhn., að mínu áliti lagt til, að neinar samþykktir verði gerðar um það atriði, enda er það ekki heldur þannig, að þessir tveir hv. nm. hafi flutt um það neinar ákveðnar till., heldur aðeins skilst mér, að þetta sé ábending frá þeim eða nokkurs konar fyrirvari, um leið og þeir mæla með frv.