07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

181. mál, orkuver og orkuveitur

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hv. iðnn. hefur haft þetta mál til meðferðar, hún hefur rætt það við raforkumálastjóra og gerir till. um, að gerð sé ein breyt. á frv., eins og kemur fram á þskj. 668. Þetta mál var einnig rætt við flm. frv., sem voru sammála því, að þessi brtt. yrði samþykkt. Brtt. er um það að taka upp í frv. heimild til þess að virkja Múlaá í Geiradalshreppi í allt að 500 hestafla orkuveri til vinnslu raforku handa nálægum hreppum og að hækka um 3 millj. kr. a-liðinn, en b-liðinn um 1 millj. kr. Það. er upplýst í málinu, að jafnvel þó að horfið verði að því að virkja Dynjanda, þá komi austurhluti Barðastrandarsýslu ekki til þess að geta fengið þaðan raforku, heldur verður hann að fá hana að öðrum leiðum. Það hefur einnig verið rannsakað, hvort ekki væri ódýrara að leggja háspennulínu yfir Tröllatunguheiði og taka frá virkjunum í Steingrímsfirði, en niðurstöðutölur hafa sýnt, að það muni a. m. k. vera jafndýrt, ef ekki dýrara, að fara þá leið, og þykir þá eðlilegra, að virkjuð sé sú á, sem hér um ræðir, þar sem viðkomandi virkjun gæti þá framleitt nægilegt rafmagn fyrir þessa hreppa, og þyrfti þá ekki að kaupa rafmagnið frá öðrum, en stofnkostnaðurinn ekki meiri en að flytja það að frá öðrum stöðum. Auk þess eru líkindi til þess, að frá þessu orkuveri geti einnig orðið leitt rafmagn a. m. k. til vestustu bæjanna í Saurbænum í Dalasýslu, en einmitt í þessu frv. er heimild til þess að virkja Haukadalsá í Dalasýslu, sem þó gæti ekki veitt rafmagn til þess hrepps.

N. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég þegar hef lýst á þskj. 668.