07.12.1953
Efri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

63. mál, síldarleit

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. um síldarleit úr lofti er komið til þessarar hv. d. frá hv. Nd., þar sem það var flutt sem þmfrv. og samþ. með nokkrum breytingum frá því, sem það var upphaflega úr garði gert.

Hér er í rauninni ekki um neitt nýmæli að ræða að því er síldarleit snertir, hún er orðinn nokkuð fastur liður í tilraunum landsmanna til þess að ná til síldarinnar og efla síldveiðarnar og er búin að vera það í mörg ár undanfarið. En hitt er annað mál, að með þessu frv. er breytt dálítið fyrirkomulagi á yfirstjórn leitarinnar og lagt til, að það sé lagaleg skylda að halda uppi síldarleit fyrir Norður- og Austurlandi vor- og sumarmánuðina, eftir því sem nánar verður ákveðið, eins og þar segir, af síldarleitarnefnd og síldarleitarstjóra, það eru þau nýju „element“, sem eiga að stjórna þessu verki framvegis. Undanfarið hefur það verið svo, að yfirstjórn síldarleitarinnar hefur verið að mestu leyti í höndum stjórnar síldarverksmiðja ríkisins.

Ég veit nú ekki, hvað ber til, að hér er breytt til um og lagt til, að það sé sett ný yfirstjórn á þessi mál. Að vísu er það ef til vill einfaldara, að það sé sérstök n., sem um þetta fjallar, og sérstakur síldarleitarstjóri, en mér vitanlega hafa nú ekki verið neinar stórfelldar kvartanir yfir því á undanförnum árum, hvernig síldarleitinni væri stjórnað. Yfirleitt hefur síldarleitin í heild sinni þótt skila góðum árangri og oft skilað ágætum árangri, og er náttúrlega sjálfsagt að halda henni við.

Þá er ætlazt til, að kostnaðinum við leitina sé jafnað að nokkru leyti niður á þrjár stofnanir ríkisins til að byrja með, en svo á þetta að ná samkvæmt frv. líka til annarra, t. d. síldarverksmiðja, sem ekki eru í eign ríkisins, og er þeim þá gert skylt að taka þátt í þessu í hlutfalli við það vinnslumagn, sem þeim berst á hverjum tíma.

Sjútvn. þessarar hv. d. hefur fjallað um þetta mál, kynnt sér það og sér ekki ástæðu til að standa í vegi fyrir því, að það nái fram að ganga í þeirri mynd, sem það nú er hingað komið eftir 3. umr. í Nd., og leggur til, að það verði samþ. óbreytt.