07.12.1953
Efri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

63. mál, síldarleit

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hafði talað við einn mann í hv. sjútvn. um breytingu, sem ég tel nauðsynlegt að sé gerð á þessu frv., en það var í þá átt, að framlag einstakra síldarverksmiðja yrði takmarkað við eitthvert hámark, ef síldarbrestur yrði. Ástæðan til þess, að ég fór fram á það, er sú, að mér er kunnugt um það, að sú litla síldarverksmiðja, sem er á Seyðisfirði, tók þátt í að láta fara fram síldarleit í fyrra eða hittiðfyrra. Það var veiðileysisár, en þegar reikningurinn kom, þá nam hann hvorki meira né minna en 10 kr. á hvert mál, sem verksmiðjan hafði fengið, eða 63 þús. kr. Hún hafði fengið 6300 mál. Þetta var náttúrlega langt fyrir ofan það, sem forstjórar síldarverksmiðjunnar höfðu búizt við, og langt fyrir ofan það, sem reiknað var með.

Ég tel því nauðsynlegt, þegar á að fara að gera að skyldu þátttöku þarna, — þó að ég viti, að þá dreifist kostnaðurinn á fleiri, — að taka fram, að framlag til síldarleitar skuli ekki nema meiru en einhverri ákveðinni upphæð.

Eftir því, sem ég veit bezt, mun síldarleitin hafa kostað eitthvað um 400 þús. kr. á sumri. Í aflaárum, eins og þau voru áður en síldarleysisárin komu, voru þetta ekki nema nokkrir aurar á tunnu, og jafnvel í aflaárum, þar sem veiðist — við skulum segja — 200 þúsund mál eða tunnur, þá verður þetta ekki nema 2 kr. á tunnu eða mál, og mætti við una. En ég álít nauðsynlegt að setja einhvern varnagla við því, að meira framlags yrði ekki krafizt, ef algerður síldarbrestur yrði. Við skulum reikna með, að 10 eða 20 þúsund mál eða tunnur veiddust; þá yrði afkoman svo léleg, að sú síldarverksmiðja eða þeir saltendur, sem væru svo heppnir að fá þá síld, gætu alls ekki staðið undir kostnaðinum.

Ég vil því leyfa mér að biðja hv. sjútvn. d. um að taka þetta mál aftur til meðferðar fyrir 3. umr. og athuga, hvort hún sér sér ekki fært að koma með till. eitthvað í þá átt, sem ég hef nefnt. Að öðrum kosti mun ég leyfa mér við 3. umr. að bera fram þess háttar brtt.