03.12.1953
Efri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Mér fannst verða heldur litið um svör hjá hv. minni hl. n., 4. þm. Reykv., við þeim spurningum, sem ég bar fyrir fram upp við hann. Skal ég víkja nokkuð að því síðar, en snúa mér í bili að þeim rökum, sem hann færði fram fyrir því, að nú ætti að afnema söluskattinn.

Það var þá í fyrsta lagi, að tilgangurinn með söluskattinum, þegar hann var settur á í fyrstu, hefði verið sá að greiða uppbætur á útfluttar afurðir og niður aðrar vörur til að lækka dýrtið. En svo vildi hann halda því fram, að þegar gengislækkunin var gerð, hefði þessi upprunalegi tilgangur söluskattsins verið fallinu úr gildi. Nú er það í fyrsta lagi við þetta að athuga, að miklum hluta — eða yfir helming — söluskattsins, þegar maður einangrar það, er varið til að greiða niður vörur í landinu til að lækka dýrtíðina. Það mun vera nokkuð yfir helming þess, sem söluskatturinn gefur í tekjur, sem varið er til þess, sem er í mjög svipuðum tilgangi gert eins og upprunalega var. Að vísu segir hv. þm., sem má til sanns vegar færa að nokkru, að tilgangurinn með þessu hafi verið sá að komast hjá að lækka gengið. Ég ætla nú ekki að taka upp umræður um gengismálið á ný, en ég hygg, að halda megi því fram með fullum rökum, að ekki hafi verið komizt hjá að lækka gengið, þegar það var gert, og að reynslan hafi síðan sýnt, að þær ráðstafanir voru ekki nægilega miklar, og ef miðað er við raunverulegt gengi, ef maður getur komizt þannig að orði, þá hygg ég, að söluskatturinn haldi þessum upprunalega tilgangi sínum. Það, að vörur eru greiddar niður, er til þess gert að komast hjá því að lækka gengið enn á ný, því að það er vitanlegt, að innlendur kostnaður við alla framleiðslu er orðinn það mikill, að það er þess vegna sem útflutningsatvinnuvegirnir eru í vandræðum, enda er það ef til vill ekki svo mikil furða, þegar þess er gætt, að þó að fullt tillit sé tekið til gengismunar, þá mun hvergi vera dýrara að framleiða nokkurn hlut en á Íslandi, og er það auðvitað vegna þess, að kaup er hér hærra en í nokkru af nágrannalöndunum, a.m.k. hér í Evrópu. Söluskatturinn hækkar að vísu nokkuð vöruverð, það er rétt, en það vegur þó miklu meira, hvað greitt er niður af nauðsynjavörum, því að söluskatturinn kemur auðvitað á allar vörur, óþarfar sem þarfar.

Að söluskatturinn sé ranglátasti skattur, sem á þjóðina er lagður, kann að vera rétt að nokkru leyti og einkum ef þetta væri eini tollurinn og eina gjaldið, sem greitt er af vöru, en það er langt frá, að svo sé. Það eru margir áratugir síðan fyrst voru lagðir á tollar hér á landi. Það fylgdi fljótt á eftir því, að landið fékk sjálfstæða fjármálastjórn. Þá var byrjað á því að tolla ýmsar þær vörur, sem nú eru taldar til nauðsynja, t.d. eins og sykur og kaffi. Við vorum rétt áðan að samþykkja ákvæði í frv. um að fella með öllu niður aðflutningsgjöld af ýmsum nauðsynjavörum. Þess vegna er það, að ég hygg, að söluskatturinn gefi ekki eins mikið af mörgum vörum elns og alls konar tollar á þeim. Þetta verður að hafa í huga, þegar dæmt er um, hvað söluskatturinn sé ranglátur eða réttlátur.

Aðalröksemd hv. minni hl. fyrir því, að það ætti að fella frv., var þó það, að það væri milliþn. að rannsaka skattakerfi og tollakerfi landsins og ætti að gera tillögur um það, og þess vegna fannst honum, að það mætti fella niður söluskattinn, því að þessi nefnd hlyti að koma með tillögur um það, hvernig úr því ætti að bæta, — hann vildi sem sagt skjóta þessu máli frá sér og mínum spurningum og til þessarar nefndar. Mér er það nú óskiljanlegt, að sú nefnd geti fundið upp nokkra þá tekjustofna, sem einstaklingar þjóðarinnar þurfa ekki að greiða. Ég hygg, að henni sé nokkuð mikið ætlað, ef hún á að benda á eitthvað annað. Það gæti þá helzt verið að leggja Grænland undir Ísland og arðræna íbúana þar. Ef Íslendingar eiga ekki að greiða það, sem ríkissjóður þarf á að halda, þá er engin önnur leið til heldur en ef hægt er að skattleggja einhverjar aðrar þjóðir. En svo er það, að það eru engar minnstu líkur til þess, að milliþn. í skattamálum skili áliti um þessi atriði svo tímanlega, að það verði hægt að taka tillit til þess í afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár, og þetta frv. er nú ekki um annað en að framlengja söluskattinn næsta ár. Ég skal ekkert fullyrða um það, nema nefndin geti komið með einhverjar tillögur ú næsta ári, sem geri söluskattinn óþarfan. En hitt fullyrði ég, að hún gerir það ekki áður en þarf að ganga frá fjárlögum næsta árs, svo að þessi meginröksemd hv. minni hl. fellur algerlega um sjálfa sig, og mér er ekki kunnugt um, að núverandi ríkisstjórn hafi lofað öðru í þessu efni en því, að á þessu þingi skuli lögin um tekju- og eignarskatt verða endurskoðuð. Ég hef alls ekki skilið það svo, að ríkisstj. hafi lofað neinn um það, að öll tollalöggjöf landsins skuli verða endurskoðuð á þessu þingi. Og ég ætla, að til þess veiti ekki af næsta ári eða tímanum fram að næsta hausti, þegar þing kemur væntanlega saman aftur. Það er því ekki til neins að slá svona fram.

Það er auðvitað hægt að bera sig borginmannlega og segja: Ef ég væri fjármálaráðherra, þá mundi ég gera ýmsar tillögur og sjá um, að ríkissjóður bæri sig, þó að söluskatturinn væri felldur niður — og nefna svo ekkert, hvaða tillögur það mundu vera. Ég get bara ekki viðurkennt það sjónarmið, að þm. leggi til að fella niður stóran tekjulið og segi: Ja, ef ég væri fjármálaráðherra, þá mundi ég koma með tillögur um það, hvernig úr því ætti að bæta, en ég er ekki fjármálaráðherra, og mér kemur ekkert við, hvernig það er haft. — Hv. þm. nefndi þó tvö atriði aðeins. Annað var það að hækka áfengi. Það mætti ef til vill gera það. Þó þykir nú mörgum, sem það kaupa, það vera orðið nokkuð dýrt, og ég gæti haldið, eins og þingmaður komst að orði fyrir mörgum árum, að drykkjuskapurinn kæmist kannske í „afturför“, ef það væri gert að miklum mun. Það gerir út af fyrir sig ekkert til, en ég hygg, að mikil hækkun áfengis yrði aldrei mikil tekjulind fyrir ríkissjóð. Ég hygg, að þá minnkuðu mjög kaupin í Áfengisverzlun ríkisins, ef áfengið yrði hækkað til stórra muna. En það er ekki víst, að drykkjuskapur minnkaði að sama skapi. Menn kunna sem sé ýmsar leiðir nú á dögum til þess að veita sér áfengi án þess að kaupa það í áfengisverzluninni. Ætli það yrði ekki farið að brugga, ef þetta yrði gert að verulegu ráði — að hækka áfengið? Fréttir hafa komið um það a.m.k., að frændur okkar, Norðmenn, hafi lækkað áfengið, vegna þess að brugg var orðið svo mikið, að salan minnkaði í áfengisverzlun þeirra, en drykkjuskapur minnkaði ekki að sama skapi a.m.k., heldur jókst bruggið og önnur ólögleg meðferð áfengis. Ég hef ekki trú á þessu úrræði, að það mundi a.m.k: nægja til að bæta fyrir söluskattinn.

Og þá minntist hann á mæðiveikina. Það er rétt, að það er vonandi, að útgjöld ríkisins af sauðfjárpestunum fari nú að taka enda, en bæði hefur nú ekki verið varið til þeirra eins miklu fé og söluskattinum nemur, og í öðru lagi eru önnur verkefni komin, sem munu kosta meira heldur en sauðfjársjúkdómavarnirnar hafa kostað. Ég minni á samning stjórnarflokkanna um rafmagnsmálin. Ég hugsa, að þær framkvæmdir taki algerlega eins háa upphæð og sauðfjárveikivarnirnar hafa tekið.

Um brtt. hv. þm. vil ég ekki mikið segja og get í raun og veru ekkert um þær sagt fyrir hönd n., því að þær hafa ekki verið ræddar í nefndinni og ekki legið þar fyrir. Hefði þó hv. þm. vel getað borið þær upp í n., þar sem hann á þar sjálfur sæti.

Mér fyndist mjög gott, ef ríkissjóður þyldi það, að hægt væri að veita bæjar- og sveitarfélögum þá hlutdeild í söluskattinum, sem stungið er upp á í brtt., en ég sé ekki, með tilliti til afgreiðslu fjárlaga á þessu þingi, að slíkt sé hægt. Þar af leiðandi þykir mér ákaflega ólíklegt, að n. fallist á þessar brtt., vil þó ekkert um það fullyrða. Vilji hv. þm. fá um það álit nefndarinnar, þá mundi ég ráða honum til að taka þessar brtt. aftur til 3. umr., og mundi ég þá sem form. n. bera þær undir n. á milli umræðnanna.