09.02.1954
Efri deild: 42. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

63. mál, síldarleit

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það þótti réttara að betur athuguðu máli að færa nokkuð til betra máls það frv., er hér ræðir um og er upphaflega á þskj. 207. Eru því fluttar frá sjútvn. í heild sinni brtt. á þskj. 310, sem í raun réttri eru ekki annars eðlis en þess að færa til betra máls efni frv. Þá eru brtt. á þskj. 311 við brtt. á þskj. 310, þ. e. a. s. við 3. tölulið, eins og þar segir. Það er takmörkun á kostnaðinum, sem innheimta skal hjá síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjum, og sú takmörkun er undir a-lið, en undir staflið b er bætt við á eftir 3. málsgr. brtt. nýrri málsgr., svo hljóðandi sem þar segir, og er að efni til um það, að ef ekki hrökkva greiðslur frá síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjum til þess að standa undir 2/3 síldarleitarkostnaðar, skuli ríkissjóður greiða það, sem á vantar.

Ég ætla ekki um þetta að hafa meira mál. Það er upphaflega risið upp í Nd., þetta frv., og ég geri ráð fyrir, að eftir afgreiðsluna í þessari hv. d. muni það þurfa þangað að fara aftur. En ég hef þá lýst þeim brtt., sem ýmist sjútvn. eða meiri hl. hennar stendur að í þessu máli, og læt þar við sitja í bili.