07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

63. mál, síldarleit

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég geri nú fastlega ráð fyrir því, að brtt. hv. sjútvn. verði samþykkt, þar sem öll n. stendur að henni óskipt. En þar sem ég er nú annar flm. að þessu frv., vildi ég aðeins láta það koma fram, að ég er á móti þessari brtt.

Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir því, að þegar reiknaður yrði út kostnaðurinn af síldarleitinni, þá mættust á ein tunna af uppsaltaðri herpinótasíld og eitt mál af bræðslusíld. Í brtt. n. er gert ráð fyrir því að haga þessum hlutföllum þannig, að á móti hverri uppsaltaðri síldartunnu komi 1½ mál af bræðslusíld. Ég held að það sé ekki rétt að gera þessa breytingu, vegna þess að það er óhjákvæmilegt, að síldarverksmiðjurnar koma til með að hafa miklu meira hagræði af síldarleitinni heldur en saltendurnir. Það er augljóst mál, að sú síld, sem veiðist næst landi, fer í söltun, en sú síld, sem veiðist á djúpmiðunum, fer að mestu leyti til bræðslu. Það eru því einmitt beinir hagsmunir verksmiðjanna, að síldarleitin nái sem lengst út, en af því hlýtur að leiða aukinn kostnað, og jafnframt hlýtur að koma fram krafa um það að hafa í síldarleitinni nokkuð stórar flugvélar, sem hljóta að kosta verulega mikið fé. En ef eingöngu væri leitað á grunnmiðum, þá væri að sjálfsögðu hægt að komast af með miklu kostnaðarminni flugvélar og þar af leiðandi minni leitarkostnað.