07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

63. mál, síldarleit

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ak., hv. þm. Siglf., hv. 2. þm. Eyf. og ég erum flm. að þessu frv. Er frv. var borið fram hér í hv. þd. var ég eftir atvikum sammála öðrum hv. flm. um það, að rétt væri, að sami háttur væri á hafður og undanfarin ár um skiptingu á kostnaði þeim, er síldarverksmiðjurnar og síldarútvegsnefnd greiða, sem sé, að þessi sameiginlegi kostnaður væri ákveðinn sá sami á saltsíldartunnu og mál bræðslusíldar. Ég hef komizt að annarri raun, síðan frv. var borið fram, því að það er vitað, að hráefni í eina uppsaltaða tunnu hefur verðmæti á við hráefni í 2½ mál bræðslusíldar.

Sá rökstuðningur, sem hv. þm. Ak. hafði hér í frammi, að það væri sanngjarnt að láta vera sama gjald fyrir eitt mál bræðslusíldar og eina tunnu saltsíldar, með því að hann taldi, að leitin kæmi meira að notum fyrir síldarverksmiðjurnar heldur en saltendur, er ekki réttur. Reynslan hefur orðið allt önnur á undanförnum árum. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, aðeins nefna hér reynslu tveggja síðustu ára.

1952 er saltsíld norðanlands rúmar 46 þús. tunnur, en bræðslusíldin aðeins 27 þús. mál. Og þá var leitað mest á djúpmiðum. 1953 var saltsíld norðanlands nærri 173 þús. tunnur, en bræðslusíldin aðeins 119 þús. mál. Bæði þessi ár hefur farið fram síldarleit, og virðist hún því miður ekki hafa komið að því liði fyrir síldarbræðslurnar sem hv. þm. Ak. vill vera láta. Hins vegar er öllum ljóst, sem eitthvað þekkja til þessara mála, að síldveiðin þessi tvö ár hefði orðið sama og engin, ef síldarleit hefði ekki verið höfð um hönd. Og ég vona, að allir hv. alþm. séu sömu skoðunar um það og við flm., að það sé nauðsynlegt að stuðla að því, að hún geti haldið áfram á næstu árum.