30.10.1953
Neðri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

79. mál, skipun læknishéraða

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég er samþykkur hv. þm. A-Húnv. um það, að nauðsynlegt er, að þetta frv. gangi fram. Það hefur verið hér á þingi áður og samþ. hér í hv. d. í ein tvö skipti, en alltaf dagað uppi. En nú er kunnugt um það, að í haust var að tilhlutan landlæknis afhent ríkisstj. frv. um breyt. á þessum sömu lögum, sem var allvíðtæk og komið í eina heild öllum breytingum, sem búið var að gera á lögunum undanfarin ár, og það er allt saman samræmt. Og þar er einmitt þetta mál, sem þingið er núna með, tekið upp í frv. Nú er enginn við af hæstv. ráðh., eins og svo oft áður, en það er hægt að ná í heilbrmrh. og víta, hvort það er í því frv., sem hjá honum liggur. Ég vil gjarnan vita það nú strax, hvernig það mál stendur, hvort stjórnin ætli sér að liggja á frv. eða hvort það kemur fram. Ég skal bíða á meðan. (Gripið fram í.) Ég ætla að sjá til. Vill einhver ná í þá? Ja, ég sé, að það ætlar að ganga illa að hafa upp á ráðherranum. (Gripið fram í.) Ja, þá vildi ég mælast til við hæstv. forseta, að hann athugi nú hjá hæstv. heilbrmrh., hvernig þessum málum liði og hvort maður mætti eiga von á því, að stjórnin flytti þetta frv. eða ekki. Það vildi ég fá að vita núna næstu daga.