02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

79. mál, skipun læknishéraða

Páll Zóphóníasson:

Ég vil bara, herra forseti, leiða athygli d. að því, að ég tel þetta frv. mikið til óþarft. Á milli Blönduóss og Höfðakaupstaðar eru 23 km eftir upphlöðnum akvegi og meðfram sjó, og ef það á að ganga inn á þá braut að búa til ný læknishéruð svo nálægt hvort öðru, þar sem þó ekki eru fleiri menn saman komnir heldur en þarna er um að ræða og byggðin hinum megin við Skagafjörð út á Skagaströnd mjög strjál, úr því að kemur út fyrir Ásbúðir, — 3 bæir bara þar fyrir utan, og ekki nema tiltölulega stutt út að Ásbúðum, þá tel ég vera stefnt í vitleysu með læknishéruðin og það, sem hér eigi að gera, sé, að við hinn væntanlega og fyrirhugaða spítala, sem er að koma á Blönduós, eigi að koma tveir læknar, — þar eigi að koma tveir læknar. þar eigi alltaf að vera tveir læknar og þeir eigi að hafa Austur-Húnavatnssýslu alla. Það eru, sem ég segi, einir 23 km þarna á milli, og að fara að setja þar nýjan lækni tel ég fjarstæðu. Hitt er allt annað mál, þó að það vilji setjast þar að maður og praktísera. Þeir mega setjast að hvar sem þeir vilja á landinu sjálfsagt; svona mikið til. Á móti því hef ég ekki neitt, og það er gott að fá þá sem víðast, svo að fólkið hafi sem stytzt til lækna. En að ríkið ætli sér að hafa lækna með 23 km millibili um landið, það held ég sé mjög mikil ofrausn.