04.12.1953
Efri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er nú fullsterkt að orði kveðið, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ég hefði beint þeim tilmælum til hans að taka þessar till., sem hann flytur við frv., aftur til 3. umr. Ég tók það fram, þegar frv. var hér til 2. umr., að ég gæti ekkert um þessar till. sagt frá n. hendi, af þeirri einföldu ástæðu, að þeim var fyrst útbýtt á þeim fundi og n. hafði þar af leiðandi ekki tekið þær neitt til athugunar. Ég benti aðeins á, ef hv. flm. till. vildi fá umsögn n., þá væri rétta aðferðin að taka till. aftur til 3. umr. N. tók og till. til athugunar á nefndarfundi, þar sem hv. þm. var sjálfur viðstaddur. Þá kom fram, að n. sá sér ekki fært að mæla með þessum till., og skal því hér með lýst yfir í hv. d. Einhverjir af nm. að minnsta kosti og kannske nm. allir líta að vísu svo á, að sveitarfélögum veitti út af fyrir sig ekki af nýjum tekjustofni, sem svaraði til þess, sem farið er fram á í þessum till., en af sömu ástæðum og þetta frv. er fram borið og með því mælt af meiri hlutanum er það, að n. sér sér þó ekki fært að mæla með því, að 1/4 af söluskattinum sé tekinn og varið í annað en að renna í ríkissjóðinn; og m.a. kom það fram á nefndarfundinum, að sá nm., sem jafnframt á sæti í fjvn., upplýsti í áheyrn hv. 4. þm. Reykv., að það mundi algerlega trufla þá afgreiðslu fjárlaga, sem nú er fyrirhuguð.

Ég skal viðurkenna, að það mælir að nokkru með þessum till., að sveitarfélög eiga að láta það sitja fyrir samkvæmt till. að greiða vanskilaskuldir til ríkissjóðs, þ.e.a.s., ríkisstj. getur haldið því eftir af greiðslunni, sem þau eru í vanskilum um. En það er þó of mikið gert úr þessari ástæðu, því að skuldir sveitarfélaga og bæjarfélaga eru ekki nema hluti af þeim ábyrgðum, sem fallið hafa á ríkissjóð og hann er enn í ábyrgð fyrir, heldur eru þar ýmsir aðilar, svo að það mundi alls ekki koma jafnmikið aftur sem innheimt fé í hluta ríkissjóðs, þó að till. væru samþykktar eins og hv. 4. þm. Reykv. gerir ráð fyrir. — Ég tel þýðingarlaust að orðlengja þetta frekar, en niðurstaðan er þessi, að fjhn., eða meiri hl. hennar, sér sér ekki fært að mæla með þeim brtt., sem fyrir liggja.