02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

121. mál, skipun læknishéraða

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Við hv. 10. landsk. (GÍG) flytjum á þskj. 552 brtt. við þetta frv. Við fluttum sams konar till. og þessa á síðasta þingi, og mun flestum hv. þdm. vera kunnugt um efni hennar og þau rök, sem við færðum þá fram fyrir samþykkt hennar. Hún var þá flutt í sambandi við það frv., sem þá lá fyrir í hv. d. um nýskipun læknishéraða, en í því frv. voru þá innifalin bæði þau frv. um þessi efni, sem nú eru á dagskrá hv. deildar.

Þessi till. okkar háttv. 10. landsk. um að mynda læknishérað í Kópavogi fékk í fyrra meirihlutafylgi hér í hv. d. Ef ég man rétt, mun hún hafa fallið með jöfnum atkv. eins og frv. sjálft, sem þá var á ferðinni hér. Efni þessarar brtt. hefur verið rætt við þau heilbrigðisyfirvöld, sem hún snertir, bæði við landlækni og borgarlækninn í Reykjavík, en nú er þessum málum svo skipað, að borgarlæknirinn í Reykjavík er um leið héraðslæknir í Kópavogshreppi að mestu leyti, en nokkur hluti hreppsins tilheyrir þó Álafosslæknishéraði.

Þau rök, sem við færðum í fyrra fyrir samþykkt þessarar till., voru í fyrsta lagi þau, að Kópavogshreppur er þegar orðinn mjög fjölmenn byggð. Það er óhætt að segja, að á þessu ári muni íbúatalan komast á fjórða þúsund. En það er ekki öll sagan sögð með því. Þar eru nú um 200 hús í byggingu, sem ætla má að verði lokið innan tveggja, a. m. k. innan þriggja ára, og þar með þegar flutt er í þau, bætast við allt að 15 hundruð íbúar, en þar við bætist, að fyrirsjáanlegt er, að á þessu ári verður ekki hjá því komizt vegna mikillar eftirspurnar að veita verulegan fjölda af nýjum leyfum til bygginga, á að gizka 100–150, miðað við það, sem gert hefur verið undanfarin ár, en það tryggir áframhaldandi mjög öra fólksfjölgun á næstu árum. Af þessu öllu verður það ljóst, að óhætt er a. m. k. að reikna með 5 þús. íbúum á næstu árum. Þessi hreppur er líka auk þessa mjög víðlendur, honum tilheyra nokkuð margir bæir upp með veginum á Hellisheiði, og það eru einmitt þeir, sem hingað til hafa tilheyrt Álafosslæknishéraði.

En veigamesta ástæðan til þess jafnvel, að menn vilja fá héraðslækni í Kópavogi, er sú, að það er mikil þörf á því, og liggur það fyrir, að gerðar séu ráðstafanir vegna heilbrigðismála almennt. Í Reykjavíkurbæ hefur einmitt verið gert stórt átak í þeim efnum á undanförnum árum undir forustu og stjórn núverandi borgarlæknis, en þó mun honum sem öðrum, sem um þessi mál hafa hugsað og til þekkja, vera ljóst, að það væri þýðingarlítið að gera margar og miklar ráðstafanir í Reykjavíkurbæ til þess að tryggja almennt heilbrigði, ef ekki væru gerðar tilsvarandi ráðstafanir í mjög fjölmennum byggðum, sem eru að rísa upp og eru til í næsta nágrenni bæjarins. En það verður að segja, að þó að borgarlækni sé þetta ljóst, þá hefur þó ekki verið hægt að gera slíkar heilbrigðisráðstafanir sem æskilegt hefði verið í þessum byggðum, og er þar fyrsta ástæðan sú, að borgarlæknisembættið í Reykjavík, eins og það er nú, er mjög umfangsmikið og erfitt og krefst þess, að heilbrigðisyfirvöld séu til, sem alltaf hafi vakandi auga og stjórn á þessum málum. Mér er því óhætt að fullyrða, að það er beinlínis ósk borgarlæknisins í Reykjavík, sem hingað til hefur gegnt héraðslæknisstörfum í Kópavogi, að breyting verði gerð á þessu á þann hátt, sem lagt er til í brtt. okkar.

Um landlækni er það að segja, að honum er það einnig ljóst og hann játar fullkomlega þörfina á því að breyta til í þessum efnum, og ber vott um það till. hans um þetta efni, sem kemur fram í því frv. til læknaskipunarlaga, sem er hér til meðferðar í hv. deild, þar sem landlæknir leggur til, að stofnað verði Kópavogslæknishérað, en hans till. er að vísu sú, að það nái yfir allt núverandi Álafosshérað. Landlæknir tekur fram í greinargerð sinni við frv., að það mundi verða mjög myndarlegt hérað þegar í upphafi, með yfir 4 þús. íbúa, og að það næði upp í Hvalfjarðarbotn og Þingvallasveit, svo að það er líklegt, að ef þessum embættismanni yrðu falin umfangsmikil störf við stjórn heilbrigðismála í sínu heimahéraði og aðalhéraði, þar sem hann ætti setu í Kópavogi, þá hefði hann áreiðanlega nóg að gera, enda segir landlæknir, að til þess að gegna þessu embætti mundi þurfa röskleikamann á góðum aldri. Það er mín skoðun, að þessi till. landlæknis, þó að ég kynni að geta fallizt á hana, væri ekki nema hrein bráðabirgðaráðstöfun, því að svo viðlent og fjölmennt læknishérað með svo geysilega örri fólksfjölgun íbúa í Kópavogi yrði fljótlega allt of umfangsmikið og fjölmennt fyrir einn embættismann. Sú ráðstöfun yrði vitanlega til bóta í byrjun, en hæpið, að hún yrði viðhlítandi til nokkurs langframa. Ég er því alveg sannfærður um, að fyrr eða síðar og fyrr en síðar verður horfið að því ráði, sem felst í brtt. okkar hv. 10. landsk., að gera læknishérað úr Kópavogshreppi eins og hann er nú, enda er það út af fyrir sig í samræmi við þá meginreglu, sem frv. til læknaskipunarlaga, sem nú hefur verið flutt af heilbr.- og félmn., gerir ráð fyrir, og eru raunar meginrökin fyrir þeirri skipun læknishéraða, sem þar er lögð til, en þau eru þau, að það sé heppilegast, að takmörk læknishéraða fylgi takmörkum hreppa vegna manntals og skýrslugerðar og annars slíks.

Ég fylgdist nú ekki alveg nákvæmlega með því, sem hv. frsm. meiri hl. n. hafði að segja um þessi mál og þar á meðal þessa brtt., en ég kom inn, þar sem hann var að segja, að honum virtist sú skipun, sem lögð er til með brtt. á þskj. 552, ekki vera aðkallandi. Það má vel vera, að þetta mál sé ekki það mál af hinum ýmsu vandamálum snertandi Kópavogshrepp, sem hægt sé að segja að sé mest aðkallandi, en það er hins vegar of mikið fullyrt að segja, að það sé ekki aðkallandi. Það er aðkallandi, af því að þeim störfum, sem héraðslæknir þyrfti að gegna, hefur ekki verið gegnt svo sem skyldi, það er játað, og það er erfitt að gera ráð fyrir því, að á þeim málum verði tekið með þeim myndarskap og röggsemi, sem þyrfti að gera, ef engin nýskipun er á þeim gerð. En ég get hins vegar ekki séð, að þetta mál sé minna aðkallandi en nýskipun á Egilsstaðalæknishéraði, og ef það mál er svo aðkallandi, að það má ekki bíða til næsta þings eftir nýrri skipun á læknishéruðunum yfirleitt, eins og hv. minni hl. færði nú rök að, þá sé ég ekki, að það sé síður ástæða til að samþ. þá brtt. okkar hv. 10. landsk. á þskj. 552.

Þetta var mín afstaða til þessara mála í fyrra og hún er enn óbreytt. Það má vel segja og færa ýmis rök að því, að það sé ekki svo aðkallandi neins staðar að gera nýja skipan á þessum málum, að það megi ekki bíða til næsta þings, ef þá væru líkur til, að þessi mál væru hugsuð og afgr. hér á Alþ. í heild. Það get ég vel fallizt á að því er Kópavog snertir, en þá er bezt, að þau bíði öll og verði þá öll tekin til athugunar í sambandi við nýja skipun læknishéraðanna.