08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

121. mál, skipun læknishéraða

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því, sem þó ætti að vera óþarft, að það er lærdómsríkt, að við heyrum, að tveir í núverandi meiri hl. eru frv. andvígir. Það er ljóst, að þeir bera fram brtt. sínar til þess þar með að reyna að spilla fyrir málinu, enda er það vitað mál, að þeir menn, sem nú gera sér leik að því að senda mál á milli deilda að ástæðulitlu, eru að stefna frv. í beina hættu, sérstaklega ef ágreiningur er um málin. En það var aðallega út af því, að hv. frsm. gaf skýringuna á því, af hverju gildistakan ætti að vera miðuð við 1. janúar, og mér skildist það vera miðað við skýrslugjafir og annað slíkt. Ég verð að telja það, ef frv. er réttmætt á annað borð, þannig að það veiti fólkinu betri þjónustu heldur en verið hefur, og án þess er ástæðulaust að samþykkja frv., þá er það með öllu haldlaust að vitna í það, að einhverjar skýrslur verði hægari í samningu með því að draga gildistöku frv. í marga mánuði. Hv. frsm. hefur með því að gefa þessa skýringu hér fært öruggar sannanir fyrir því, að þessar brtt. á að fella bæði við þetta frv. og frv., sem rætt var næst á undan.