02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

196. mál, innheimta meðlaga

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er mjög svipaðs eðlis og það frv., sem var rætt hér næst á undan, einnig flutt að ósk minni eða dómsmrn.

Ísland er aðili að samningum, sem gerðir voru 1931 milli Norðurlandaríkjanna um innheimtu meðlaga, og nú nýlega hafa verið gerðar nokkrar breytingar á þeim samningum. Breytingarnar eru ekki veigamiklar og varða, að undantekinni einni, hrein framkvæmdaratriði. En sú breyting er þess eðlis, að í stað þess, að áður var það skilyrði þess, að krefjast mætti fullnægju á meðlagsúrskurði, ef meðlagsskylda gagnvart óskilgetnu barni eða móður þess er ákveðin í dómi eða úrskurði í ríki, þar sem meðlagsskyldur átti ekki ríkisborgararétt eða heimilisfang, að hann hefði mætt í málinu eða stefnan eða úrskurðurinn hefði í tæka tíð orðið honum kunn, meðan hann dvaldi í ríkinu, er nú látið nægja, að stefnan eða úrskurðurinn hafi í tæka tíð orðið honum kunn.

Þessi breyting er til bóta fyrir framgang meðlagsmála, og sýnist ekki nema sanngjarnt, að hún sé samþykkt.