22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

171. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 479, er flutt af fjhn. eftir beiðni félmrn.

Í l. nr. 36 frá 1952, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, er sérstakur kafli um lánadeild smáíbúðarhúsa. Í frv. þessu er lagt til, í 1. og 2. gr. þess, að lánsstofnun þessi nefnist lánadeild smáíbúða. Í l. segir, að lán til hverrar smáíbúðar, sem eigi að vera tryggð með 2. veðrétti í eignunum, megi ekki vera meira en 30 þús. kr. og að ekki megi hvíla hærri upphæð á 1. veðrétti smáíbúðar, sem lán er veitt til, en 60 þús. kr., eða samtals hæst 90 þús. á 1. og 2. veðrétti. Í frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að lagafyrirmælinu verði þannig breytt, að lán, sem hvíla á 1. og 2. veðrétti íbúðar, sem lán er veitt til, megi ekki fara yfir 100 þús. kr. samtals, en ákvæði l. um hámark lána úr lánadeildinni og um lánstíma og vexti eiga að haldast óbreytt. Að öðru leyti vil ég vísa til þeirrar grg., sem fylgir frv., og leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.