27.11.1953
Efri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

8. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur legið alllengi hjá fjhn. óafgreitt. Ástæðan til þess, hvað afgreiðslan hefur dregizt, er ekki sú, að fjhn. hefði ekki haft nógan tíma til þess, og málið er ekki svo flókið eða vandasamt, að hún út af fyrir sig hefði ekki fyrir löngu getað tekið afstöðu til þess efnislega, heldur er ástæðan sú, að n. hafði vitneskju um það, að tollskráin var í sérstakri athugun hjá þar til skipuðum mönnum, og var lengi búizt við því, að frv. um endurskoðaða tollskrá mundi verða lagt fyrir þingið, og verður kannske gert, en nú þykir sýnt, að það verði a.m.k. ekki gert fyrir áramót. En ef svo færi, að engin ný lög yrðu sett um tollskrána fyrir áramót og þetta frv. ekki samþ., þá mundi falla niður frá 1. jan. sú tekjuöflun, sem 1. gr. frv. fjallar um, og einnig sú ívilnun í greiðslum, sem 2. gr. fjallar um, og sú eftirgjöf á tollum, sem 3. gr. fjallar um. En þetta allt hefur gilt undanfarin ár, og frv. er ekki annað en endurnýjun á því, sem gilt hefur. Ef það félli niður, þá mundi það auðvitað valda óþægindum og röskunum, sem eru ófyrirséðar afleiðingar af, t.d. ákvæðin í 3. gr. Það mundi ýmsum finnast koma töluvert í bága við samningana upp úr vinnudeilunni í fyrra, ef þau ákvæði féllu nú niður og þyrfti að fara að innheimta þá tolla, sem þar um ræðir, samkv. sjálfri tollskránni.

Af þessum ástæðum er það, að fjhn. sá ekki fært að draga lengur að afgreiða þetta mál og hefur nú gert það og leggur til, að það verði samþykkt. Þó hefur einn hv. nm., 4. þm. Reykv., tjáð sig andvígan 1. gr. frv. og hefur áskilið sér rétt til að bera fram brtt., sem ekki hafa þó verið lagðar fram enn. Og annar nm., hv. þm. Seyðf., var fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið, og tók því ekki þátt í afgreiðslunni, en ég geri ráð fyrir, að hann sé okkur hinum töluvert mikið sammála um þetta mál. En þó að n. leggi það til í aðalatriðum, að frv. sé samþ. og þar með endurnýjuð eða framlengd þau ákvæði, sem gilt hafa um þessi efni, þá tók hún eftir því, að það er ofur lítill smiðagalli á frv., sem hún leggur til að lagfærður sé.

Undir tölulið 1 í 3. gr., staflið e, er svo ákveðið, að heimilt sé að fella niður aðflutningsgjald af sykri, sem telst til nr. 1–6 í 17. kafla tollskrár. En svo kemur annar töluliður þessarar sömu greinar, sem hljóðar svo, að ríkisstj. sé heimilt að lækka um helming aðflutningsgjald af sykri, sem telst til nr. 1–6 í 17. kafla tollskrár. N. virðist þetta vera eins konar hortittur, því að það er auðvitað alveg óþarft að fara að hafa sérstakan tölulið um það, að lækka megi aðflutningsgjöld af sykri um helming, á eftir ákvæði um. það, að fella megi þessi aðflutningsgjöld alveg niður, og það mun hafa verið gert undanfarið. Þau hafa verið felld alveg niður, og mun alls ekki vera meiningin að nota þá heimild, sem í 2. lið felst, að lækka þessi gjöld um helming.

N. leggur því til, að 2. töluliður 3. gr. sé felldur niður og í staðinn fyrir 1. tölulið komi bara stafliðirnir, sem tiltaka, af hvaða vörum aðflutningsgjald megi fella niður, og ber fram brtt. um það í nái. sínu á þskj. 198.