19.03.1954
Neðri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrir 30 árum voru sett lög um brunatryggingar í Rvík. Efni þeirra var það að bæjarstjórn Reykjavíkur skyldi heimilt að semja við eitt eða fleiri vátryggingarfélög um brunatryggingu allra húseigna í bænum, og þá um leið, að öllum húseigendum væri skylt að tryggja húseignir sínar gegn eldsvoða samkvæmt slíkum samningi.

Að undanförnu hafa slíkir vátryggingarsamningar verið, að undangengnum útboðum, gerðir til fimm ára í senn. Nú er gildandi vátryggingarsamningur senn útrunninn, og það hafa farið fram ýmsar athuganir hjá Reykjavíkurbæ á því, hver háttur skyldi hafður á þessum málum á næstunni. Niðurstaðan hefur orðið sú, að hagkvæmt væri, að bærinn sjálfur tæki brunatryggingarnar í sínar hendur að vissu leyti, þ. e. a. s., að hann annist útreikning og innheimtu iðgjalda, bókhald, sjái um breytingar á brunabótaverði húsa o. s. frv.

Með þessum hætti er hægt að sameina innheimtu brunabótaiðgjaldanna við innheimtu fasteignagjalda, og við það á að sparast töluvert fé. Fyrir húseigendur ætti þetta einnig að vera hagkvæmara, þar sem þeir geta þá greitt fasteignagjöldin, vatnsskatt og brunabótaiðgjöldin um leið og á einum og sama stað. Hins vegar leitar bærinn þá að sjálfsögðu endurtrygginga annaðhvort að fullu eða að verulegu leyti hjá vátryggingarfélögum.

Efni þessa frv. og breytingar frá gildandi lögum er einmitt þetta, sem ég nú hef rakið, að bæjarstjórninni skuli heimilt að gera þessa breytingu á. Í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir, að haft sé samráð við félagssamtök fasteignaeigenda, og fjallar 2. gr. um það efni. Ef sá háttur yrði á hafður, að bærinn leitaði ekki 100% endurtrygginga, heldur hefði að einhverju leyti eigin áhættu, þá er gert ráð fyrir, að stofnaður verði tryggingarsjóður, eins og getið er í 3. málsgr. 1. gr., og þá lögákveðið, hvernig verja skuli fé þess sjóðs, ef einhver ágóði verður af starfseminni. Með 3. málsgr. 1. gr. er ákveðið, að tekjur, sem bæjarstjórn kynni að hafa af starfseminni, skuli leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og tryggingarstarfsemi og lækkunar á iðgjöldum húseigenda eftir ákvörðun bæjarstjórnar.

Í 2. gr. er, eins og ég gat um, gert ráð fyrir meira samstarfi við félagssamtök fasteignaeigenda, og er það annars vegar ákveðið, að áður en samningur er gerður um brunatryggingar, skuli leita álits félagsins og enn fremur skuli fulltrúa frá félaginu heimilt að fylgjast með ráðstöfun á þessum tryggingarsjóði.

Í bæjarráði Reykjavíkur var nú nýlega samþykkt einróma að fara fram á, að Alþingi gerði þessar breytingar, sem hér um ræðir, á brunatryggingalögunum. Jafnframt fór bæjarráðið þess á leit við alla þm. Reykjavíkurbæjar og landskjörna þingmenn, sem hér eru kosnir, að þeir flyttu þetta frv., og hafa þeir allir orðið við þeirri ósk bæjarráðsins og eru því allir flm. að frv.

Ég vil svo leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn. Ég vil um leið beina þeirri ósk til hv. nefndar, að hún hraði sem mest afgreiðslu þessa máls, því að um næstu mánaðamót þarf nýr brunatryggingasamningur fyrir húseignir í Rvík að hafa verið gerður, og er því nauðsynlegt, að þetta frv. fái sem fljótasta afgreiðslu í Alþingi.