27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Emil Jónsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér fyrst lagt fram, þá fjallaði það eingöngu um brunatryggingar í Rvík, og efni frv. var í stuttu máli það í aðalatriðum að heimila Reykjavíkurbæ að taka í sínar hendur nokkurn hluta þessarar starfsemi, fyrst og fremst það, sem þeir kalla í grg. rekstur brunatrygginganna inn á við. þ. e. að annast útreikning og innheimtu iðgjalda, bókhald, sjá um breytingar á brunabótaverði húsa og ýmislegt þess háttar, og enn fremur voru í frv. þessu, sem hér er lagt fram, ákvæði, sem heimiluðu bæjarsjóði Rvíkur að taka á sig nokkurn hluta áhættunnar, ef svo vildi verkast, og endurtryggja þannig ekki nema nokkurn hluta þess, sem iðgjaldagreiðendur eða fasteignaeigendur í bænum tryggðu.

Við þetta hafði ég ekkert að athuga. Mér finnst það eðlilegt, að Reykjavíkurbær fái þessa heimild. Hann hefur að ýmsu leyti sérstöðu gagnvart öðrum bæjum á landinu, og hann hefur haft sérstöðu að því er snertir tryggingarnar, þar sem hann hingað til einn allra bæja hefur verið laus undan skyldutryggingu Brunabótafélags Íslands.

Við 2. umr. er svo samþ. brtt. frá hv. 11. landsk. þm. og hv. 9. landsk. þm., sem fer í allt aðra átt, sem fer inn á að losa bæjarfélögin og sveitarfélögin á landinu undan þeirri skyldutryggingu, sem þau hafa átt við að búa hjá Brunabótafélagi Íslands. Þetta er allt annað mál og hinu svo gersamlega óviðkomandi, að jafnvel fyndist mér, að um þetta þyrfti tvenns konar lagasetningu. En rökin fyrir þessari brtt. hv. 11. og 9. landsk. þm. eru þau, að kvartanir hafi borizt frá ýmsum bæjar- og sveitarfélögum víðs vegar um landið undan of háum og að þeirra dómi óeðlilega háum iðgjöldum hjá Brunabótafélagi Íslands. Það er að vísu rétt, að iðgjöld á fasteignum bæjar- og sveitarfélaga víða úti um land eru miklu hærri en brunabótaiðgjöldin eru í Rvík. En það hefur vissulega sínar orsakir. Það er vegna þess, að áhættan, sem tryggingunni fylgir, er víða miklu meiri í bæjarfélögunum úti um land heldur en hún er hér í Reykjavík með þeim fullkomnu slökkvitækjum og brunavörnum, sem hér eru til. Leiðin til þess að lækka brunabótaiðgjaldið úti á landi er vissulega ekki einasta sú að segja upp þeirri skyldu, sem Brunabótafélag Íslands hefur þarna til tryggingar, heldur að fá endurbætt brunavarnir og slökkvitæki þau, sem á stöðunum eru. Sú leið hefur verið farin, þar sem ég þekki til. Þar hefur ekki verið krafizt neinnar uppsagnar hjá Brunabótafélagi Íslands, heldur hefur verið farin samningaleið við Brunahótafélag Íslands um endurskipulagningu á slökkvitækjum og brunavörnum kaupstaðarins og með þeim árangri, að þar hefur verið komizt niður í svo að segja sömu iðgjöld í a. m. k. sumum húsaflokkum eins og nú gilda í Rvík. En til þess að ná þessum úrbótum fram þarf vissulega fé, mikið fé oft og tíðum, og það fé hefur Brunabótafélag Íslands í mörgum tilfellum útvegað og gert bæjarfélögunum kleift að endurbæta sín slökkvitæki og sín brunavarnakerfi til þess að komast niður með iðgjöldin í sambærilegar upphæðir. og nú gilda í Rvík.

Það liggur engin trygging fyrir í augnablikinu um, að þó að skyldutryggingin hjá Brunabótafélaginu verði afnumin, þá lækki brunabótaiðgjöldin úti á landsbyggðinni. Mér þætti gaman, ef hv. 11. landsk. þm. gæti sannfært mig um það, að uppsögnin hjá Brunabótafélaginu þýddi, að iðgjöldin að öllu óbreyttu mundu lækka. Iðgjöldin lækka ekki af þessum sökum, heldur mætti segja mér, að sumt benti til þess, að þau mundu hækka, því að vitanlega hefur eitt félag, sem hefur allar tryggingarnar á sömu hendi, meiri möguleika til að halda tryggingunni niðri heldur en þegar mörg félög keppa um trygginguna og fá kannske hvert þeirra ekki nema 1/5 hluta hennar. Nei, ég tel, að þetta sé ekki leiðin. Leiðin er sú, að kaupstaðir og kauptún úti á landinu útvegi sér fé, sem þau telja sig þurfa, til þess að koma brunavörnum sínum í það horf, að það gefi möguleika til iðgjaldalækkunarinnar. Þetta hefur verið gert í einstaka tilfellum og hefur gefizt vel, svo vel, eins og ég sagði, að í þeim tryggingarflokknum, a. m. k. á þeim stað, þar sem ég þekki bezt til, sem tekur yfir fullkomlega vel byggð hús úr steinsteypu, með steinloftum, eru iðgjöldin komin niður í eða niður fyrir það, sem gildir í Reykjavík.

Það hefur komið fram hér till. frá hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Dal. á þskj. 532, þar sem gert var ráð fyrir, að húseigendum í Rvík væri heimilað hverjum og einum út af fyrir sig að tryggja sínar húseignir þar, sem þá langaði til að tryggja, eða þar, sem þeir héldu sínum hag bezt komið með því að tryggja. Þessa till. vildi hv. 11. landsk. þm. ekki samþ. í gær, ef ég man rétt. Vegna hvers? Ég geri ráð fyrir því, að hann telji eins og ég, að sameiginlegt útboð trygginganna í einu lagi gefi heildinni, fasteignaeigendunum í heild, betri möguleika til að ná heildarsamningum heldur en þegar hver og einn vátryggir fyrir sig og tryggingin skiptist á margar hendur með þá margfaldri „administration“ og margföldum kostnaði á við það, sem hún þyrfti að vera, ef hún væri á einni hendi. Nákvæmlega sama tel ég vera, ef bæirnir allir og sveitarfélögin kringum land tryggja í einu lagi og semja sameiginlega við eitt félag, eins og þau gera núna, Brunabótafélag Íslands, í staðinn fyrir það, að það ætti að skipta þeim niður á fimm eða sex eða jafnvel fleiri tryggingarfélög, sem hver þyrftu að hafa svo sína umboðsmenn og sína innheimtu í öllum kaupstöðum og sveitarfélögum landsins.

Það má segja kannske, að það sé þýðingarlítið að ræða þetta nú, þar sem búið er að samþykkja till. hv. 11. landsk. og hv. 9. landsk. þm., sem fjallaði um þetta, í gær, en ég vildi ekki láta hjá líða, að þetta sjónarmið mitt kæmi fram, vegna þess að ég tók eftir því, að hv. 11. landsk. sagði áðan, að hér hefðu engin mótmæli komið fram gegn þeirri skoðun, sem hann hefur haldið fram í þessu máli. Ég vil bara undirstrika það, að ég er á allt annarri skoðun, tel hans till. ótrygga, illa undirbúna og engar líkur til þess, að hún gefi iðgjaldagreiðendum í kaupstöðunum neitt betri kjör heldur en þeir hafa nú í sambandi við skyldutrygginguna í Brunabótafélagi Íslands.

Um afstöðu mína til þessa frv., eins og það liggur fyrir nú, vil ég þess vegna segja það, að ég er með því, að Reykjavíkurbæ verði heimilað að taka þátt í tryggingunum, eins og lagt var til í frv. eins og það lá fyrir í upphafi. Ég er andvígur þeirri breytingu, sem hér var samþ. við 2. umr. í gær, en ég mun sennilega greiða atkv. með frv. þó, eins og það liggur fyrir, af því að ég tel, að Reykjavík þurfi og megi gjarnan fá það samþ., sem að henni snýr, í trausti þess, að það, sem hér hefur verið aflagað, verði á síðara stigi í meðferð málsins lagað.