27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð í sambandi við ræðu hv. 5. landsk. þm. Hann taldi, að í nokkurt óefni væri stefnt með þeirri till., sem ég hafði flutt hér ásamt hv. 9. landsk. um að veita bæjum utan Reykjavíkur jafnan rétt til útboðs á tryggingum eins og Reykjavík hefur haft, og er þó þessi hv. þm. fulltrúi eins slíks bæjarfélags. Ég verð að segja það, að þessi afstaða hans kemur mér ákaflega undarlega fyrir sjónir, ekki síður en það, sem hann sagði um þessi efni, þegar hann tók þau hér til umræðu. Hann minntist í upphafi síns máls á það, að Reykjavík hefði nokkra sérstöðu í brunatryggingarmálum og hefði alltaf haft. Þetta hafa að vísu fleiri ræðumenn sagt hér, en hins vegar hefur jafnan verið horfið frá því að veita frekari skýringu á því, í hverju þessi sérstaða Reykjavíkur liggur. Ég hef ekki getað heyrt það, að nokkur þm. hafi bent á það, að neitt væri í raun og veru því til fyrirstöðu, að aðrir kaupstaðir landsins gætu gert útboð á sínum tryggingum, ef þeir hefðu lagalega heimild til þess, og að þeir mundu geta fengið sæmileg tilboð frá tryggingarfélögunum. Og ótrúlegt er, það vil ég segja, að Brunabótafélag Íslands falli úr sögunni og brotni niður og þurfi að hætta sinni starfsemi, ef það býður svo bæjarfélögunum á eftir eins góð tryggingarkjör eða jafnvel betri, eins og þessi hv. þm. vildi vera láta, þó að bæjar- og sveitarfélögin fái nú rétt til þess að bjóða út sínar tryggingar og leita eftir því, hvort annars staðar er hægt að fá betri kjör en hjá Brunabótafélagi Íslands. Ég hygg, að einmitt þetta atriði sýni það einna bezt, að þeir, sem af einhverjum sérstökum ástæðum er sérstaklega annt um Brunabótafélag Íslands og í rauninni jafnvel enn þá annarra um Brunabótafélagið heldur en nokkurn tíma sína umbjóðendur, –að þeir einmitt óttast það, að bæjarfélögin fái rétt til þess að bjóða út brunatryggingar sínar og eigi kost á því að taka lægstu tilboðum, að þeir óttast það að veita þeim þessi réttindi, einmitt með það í huga, að þá geti Brunabótafélag Íslands ekki haldið tryggingunum áfram. Einmitt þessi afstaða sannar það, að þeir reikna fyllilega með því, að Brunabótafélagið muni ekki bjóða á frjálsum grundvelli jafngóð kjör og önnur tryggingarfélög mundu bjóða.

Þessi hv. þm. sagði, að orsakirnar til hærri brunaiðgjalda bæjar- og sveitarfélaga heldur en iðgjöldin hafa verið hér í Reykjavík lægju auðvitað fyrst og fremst í því, að hér væri um betri brunavarnir að ræða heldur en annars staðar á landinu, og þetta væri því ofur skiljanlegur hlutur, og bæjar- og sveitarfélögin úti á landi, sem ættu þarna við lakari aðstöðu að búa, gætu þar af leiðandi aldrei fengið þessi góðu kjör, sem Reykjavík getur fengið, sem hefur miklu betri brunavarnir. Í þessu efni hefði ég gaman af að spyrja hv. þm. um það, hvernig hann vill rökstyðja það, að brunaiðgjöldin í Kópavogshreppi, hérna í nærsvæði við Reykjavík, þar sem brunavarnirnar í Reykjavík eru gildandi og gilda, eru fimm sinnum hærri, þar eru iðgjöld Brunabótafélagsins nú fimm sinnum hærri en fyrirliggjandi tilboð í Reykjavík nema ekki er þar því til að dreifa, að brunavarnirnar séu eitthvað lakari en hér í Reykjavík, heldur kemur fram í þessu dæmi, sem í rauninni allir vissu, að Brunabótafélagið tekur þarna miklum mun hærri iðgjöld af húseigendum í Kópavogshreppi heldur en þeir húseigendur gætu fengið, ef þeir ættu kost á því að bjóða út sínar brunatryggingar.

Hv. 5. landsk. þm. vitnaði í þann stað, þar sem hann þekkti bezt til um tryggingariðgjöld, og ég tel alveg víst, að þar eigi hann við Hafnarfjarðarkaupstað, og þar hefði, eftir því sem orð hans lágu til, verið hægt að ná mikið til sömu iðgjöldum hjá Brunabótafélagi Íslands eins og Reykjavík hefði haft með sínum frjálsu útboðum. Ég hafði hér áður í umr. lesið upp skýrslu, sem ég hef aflað mér, um iðgjaldagreiðslur af húsum í Hafnarfirði ásamt mörgum öðrum kaupstöðum landsins og um þau iðgjöld, sem nú eru boðin fram til handa húseigendum í Reykjavík. Af algengustu íbúðarhúsunum, sem eru steinhús með innréttingu, en þau eru alveg yfirgnæfandi, eru iðgjöldin í Reykjavík eftir hinu nýja útboði 0.37‰, en í Hafnarfjarðarkaupstað 1.50‰. Er þetta rangt? Mér var gefið þetta upp, að iðgjöldin í Hafnarfirði eru fyllilega fjórum sinnum hærri en þau iðgjöld, sem húseigendur í Reykjavík eiga kost á. Mér sýnist því, að upplýsingar hv. þm. einmitt um brunatryggingariðgjöldin á þeim stað, þar sem hann þekkir bezt til, séu heldur einkennilegar og stangist mjög við staðreyndirnar.

Hv. þm. nefndi það, að í einstaka flokkum húsa munar ekki ýkja miklu. Það er rétt, að það eru til flokkar húsa, þar sem þetta munar ekki verulega miklu miðað við þau iðgjöld, sem á undanförnum árum hafa verið í Reykjavík, einkum í einum flokki húsa, sem er í rauninni afar áhrifalítill í þessu efni, en það eru hús, sem eru einvörðungu byggð úr steini og engu öðru efni. En í þennan flokk er mér sagt að sárafá íbúðarhús komi. Þar voru iðgjöldin í Reykjavík 0.56‰, en í Hafnarfirði 0.60‰. Þar munaði tiltölulega litlu. En eftir því tilboði, sem nú liggur fyrir um Reykjavík, þá yrðu iðgjöldin í þessum flokki líka 0.30‰, eða nákvæmlega helmingi lægri en þau eru hjá Brunabótafélaginu í Hafnarfirði. Á þessu og öðrum upplýsingum, sem hér hafa komið fram í þessu máli, er það sjáanlegt hverjum manni, sem vill þetta sjá, að brunaiðgjöldin í kaupstöðum og kauptúnum úti á landi eru ekki í neinu samræmi við það, sem orðið er nú í Reykjavík. Yfirleitt munar þetta þannig, að iðgjöldin í kaupstöðum úti á landi eru um fimm sinnum hærri en þau verða hér í Reykjavík eftir því tilboði, sem nú liggur fyrir.

Hv. þm. benti á það, að hin rétta leið væri ekki sú að samþ. frv. í þeim búningi, sem það liggur hér fyrir nú, heldur væri hitt hagkvæmari leið fyrir bæjar- og sveitarfélög úti á landi, að snúa sér til Brunabótafélagsins og semja við það, að manni skildist, um lántöku í því skyni, að hægt yrði að bæta nokkuð úr brunavörnum á þessum stöðum. En ég býst við því, að þessi hv. þm. geri sér það ljóst, að þó að gott sé nú að í fá lán til framkvæmda, þá skiptir hitt þó miklu meira máli, ef maður borgar meira en sem lántökunni nemur í mismun á iðgjöldum jafnvel á hverju ári, eins og dæmi munu vera til um nú. Og það er þessi aukagreiðsla til Brunabótafélagsins fram yfir það, sem fullar ástæður er til þess að búast við að hægt yrði að fá með frjálsu útboði, sem ég fyrir mitt leyti vil ekki una við að skylda bæjar- og sveitarfélög úti á landi til þess að standa undir.

Síðast benti þessi hv. þm. á það, að eins og ég hefði hér við fyrri afgreiðslu þessa máls verið á móti þeirri till., sem hér kom fram frá framsóknarmönnum um það að gefa tryggingarnar algerlega frjálsar, þannig að hver einstakur húseigandi gæti tryggt þar, sem hann vildi brunatryggja sín hús, vegna þess að ég mundi hafa verið á þeirri skoðun, að hagkvæmara væri að bjóða út allar hústryggingar í sama kaupstað á einni hendi, svo að þannig yrði hægt að fá hin hagstæðustu tryggingarkjör, eins ætti ég líka að draga þá ályktun af brunatryggingunum almennt, að hagstæðara væri fyrir öll bæjar- og sveitarfélög landsins að vera í einu og sama tryggingarfélagi með sínar tryggingar, því að þannig mundu þau fá betri kjör en ef jafnvel hvert þeirra um sig færi að semja ýmist við þetta eða hitt vátryggingarfélagið. Þetta kann nú að líta svona út við fyrstu athugun. En hver sá, sem athugar þetta eitthvað nánar, sér, að hér er dæmið ekki réttilega upp sett. Bæjar- og sveitarfélögin úti á landi hafa sannarlega ekki þann rétt að koma öll í einu til Brunabótafélags Íslands og annarra tryggingarfélaga og segja: Hvaða kjör viljið þið bjóða okkur öllum í einu? — Ef þau mættu það nú í dag og gætu þar með sagt við Brunabótafélag Íslands: Ef þið ekki bjóðið okkur jafngóð kjör, okkur öllum, eins og við gætum öll náð með því að bjóða til annarra tryggingarfélaga, — þá væri dæmið rétt upp sett. En við eigum nú engan rétt til samninga við Brunabótafélag Íslands um vátryggingariðgjöldin. Það félag skattar okkur á hverjum tíma og segir: Þetta skulu ykkar iðgjöld vera. — Og þó að sá skattur sé þannig nú, að við verðum að borga fjórföld og fimmföld iðgjöld á við það, sem húseigendur í Reykjavík verða að greiða, þá verðum við að una því, vegna þess að lög binda okkur til þess. Þannig er aðstaðan.

Ég vil svo að lokum segja það í sambandi við þessa athugasemd hv. 5. landsk. þm., að ég hefði gaman af því, að hann vildi skýra þessa afstöðu sína, sem hann hefur gert litla tilraun til að skýra hér á hv. Alþingi, fyrir kjósendum sinum í Hafnarfirði, hvernig hann í rauninni vill réttlæta það að vilja lögbinda þá til þess að hlíta fjórum sinnum óhagstæðari brunatryggingarkjörum hjá Brunabótafélagi Íslands heldur en allar líkur benda til að hann gæti aflað sínum umbjóðendum þar með frjálsu útboði á tryggingunum, jafnvel þó að það þyrfti að þýða það, að Brunabótafélag Íslands missti af tryggingunum. Ég verð einnig að segja það, að ég tel það mikið vantraust hjá þessum hv. þm. á getu og aðstöðu bæjar- og sveitarfélaga úti á landi til þess að koma brunavörnum sínum í lag og til þess að geta búið eðlilega að þeim málum, hver hjá sér, að treysta því ekki, að þau geti komizt eitthvað nær því að búa að sams konar tryggingarkjörum eins og Reykjavík býr við nú eða á kost á að búa við nú, — að halda að það þurfi alltaf að vera jafnmikið bil þarna á milli eins og nú er. Það er engin ástæða ábyggilega til þess að búast við því, enda er það löngu vitað mál og upplýst frá ýmsum tryggingarfélögum, að þau mundu bjóða niður tryggingarkjörin í kaupstöðum úti á landi til mikilla muna frá því, sem nú er, ef þau ættu kost á því að bjóða þar í tryggingarnar í einu lagi.

Með ræðu hv. 5. landsk. þm. hefur að vísu komið hér fram ein rödd, sem telur ekki eðlilegt að veita bæjar- og sveitarfélögum úti á landi þann sama rétt og Reykjavík hefur haft til þess að bjóða út sínar brunatryggingar. Það hefur að vísu komið hér fram ein rödd, sem mælir gegn þessu í sjálfu sér, en það er líka eina röddin, og ég sé ekki, að hún geti breytt miklu hér í sambandi við þær rökfærslur, sem hér hafa komið fram frá hálfu þessa þm., um afstöðu hv. þingmanna til þessa máls, því að hér er, eins og ég hef bent á áður, alveg tvímælalaust um að ræða jafnréttismál byggðarinnar úti á landi við Reykjavík. Hér er aðeins óskað eftir því að fá sömu aðstöðu og Reykjavík hefur haft. Það er ekki óskað eftir því að taka neitt af Reykjavík eða standa á neinn hátt gegn því, sem Reykjavík er að fara fram á sér til handa, heldur einvörðungu að óska eftir því að mega bjóða tryggingarnar út á frjálsum grundvelli og þar með gefa Brunabótafélagi Íslands, einu ríkasta og öflugasta tryggingarfélaginu, sem er nú starfandi hér í þessu landi, jafnan kost á því eins og öðrum tryggingarfélögum að sýna, hvað það getur, og bjóða tryggingarnar sem lægstar.