27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég hirði nú ekki að fara í neinar miklar deilur, hvorki við hv. 11. landsk. né aðra, út af þessu máli. Ég læt mér aðeins nægja að benda á, að mér virðist að sumu leyti, að hér standi hlutirnir skringilega á höfði, þar sem hv. 11. landsk. hefur gerzt forsvarsmaður hinnar frjálsu samkeppni, en borgarstjórinn í Reykjavík, hv. 7. þm. Reykv., hefur tekið að sér hitt hlutverkið, að mæla fyrir hinum opinbera rekstri. En það er út af fyrir sig mál, sem ég vil ekki blanda mér í, enda ekki höfuðkjarninn frá mínu sjónarmiði.

Aðalkjarni málsins, sem hv. 11. landsk. gat ekki hnekkt, er það, að hann hefur ekki fært fram nokkrar minnstu líkur fyrir því, að hann mundi geta fengið lægri brunatryggingu af fasteignum í kaupstöðum og sveitarfélögum landsins, þó að skyldutryggingum Brunabótafélagsins væri sleppt. Ég hef hins vegar bent á það og skýrði frá því í ræðu minni áðan, að við í Hafnarfirði hefðum fengið með bættum brunavörnum, sem gerðar voru með aðstoð Brunabótafélags Íslands, fækkuð iðgjöldin í sumum flokkum niður í svipað og nú gilti í Reykjavík. Ég tók skýrt fram, að það var eins og nú gilti í Reykjavík. Mér var ekki kunnugt um og ég veit ekki heldur um það, hvaða tilboð um nýjar tryggingar þar hafa nú borizt, en ég sagði, og ég stend við það, að þau tryggingariðgjöld, sem við fengum á húsum, alsteyptum, sem nú er sú tegund húsa, sem mest er byggt af, eru í sama flokki eða sams konar iðgjald og í Reykjavík er greitt. Iðgjaldagreiðslurnar bæði hjá Brunabótafélagi Íslands og hjá öðrum tryggjendum hér í Reykjavík og þeim, sem annast til dæmis lausafjártryggingar, hljóta náttúrlega í eðli sínu að miðast fyrst og fremst við þá áhættu, sem tryggingarstarfseminni er samfara.

Brunavarnirnar eru í Reykjavík í fullkomnustu lagi. Það er ein sérstaða Reykjavíkur. Í öðru lagi er það sérstaða Reykjavíkur, að þar eru tryggingarupphæðirnar hæstar, dreifingin á áhættunni kannske þar af leiðandi mest og kostnaðurinn við innheimtu og afgreiðslu hlutfallslega minni en annars staðar, þar sem um minni fjárhæðir er að ræða, en kannske lítið minni vinnu við reksturinn. Allt þetta verður til þess, að það er ekki óeðlilegt, að Reykjavík geti fengið að nokkru leyti lægri brunabótaiðgjöld en aðrir kaupstaðir eða sveitarfélög geta fengið handa sínum fasteignaeigendum. Hitt er svo aftur annað mál, að ef sveitarfélögin koma sínum brunavörnum í það lag, sem þær geta bezt orðið á viðkomandi stað, með viðráðanlegum kostnaði vitaskuld, þá tel ég, að þau geti komizt svo nálægt Reykjavík með beinum samningum við Brunabótafélag Íslands, að ég tel ekki líklegt, að það fáist betri kjarasamningar með því að bjóða tryggingarnar út hverjum sem hafa vill, gefa þær frjálsar, fá kannske 5–6-faldan stjórnarkostnað á tryggingarstarfsemina og ýmislegan fleiri aukakostnað, sem gerir það að verkum, að það hlýtur að liggja í hlutarins eðli, að tryggingariðgjöldin þurfa við það að hækka.

Hv. þm. lét liggja að því, að ég bæri hag Brunabótafélagsins alveg sérstaklega fyrir augum. Það er fjarri því. Ég ber fyrst og fremst hag þeirra manna fyrir brjósti, sem eiga að fá tryggingar á sínar fasteignir, og það er mín óbifanleg skoðun, að á þennan hátt, eins og málum er skipað, verði bezt fyrir því séð. Hv. þm. skoraði á mig að ræða um þetta við kjósendur í Hafnarfirði. Ég hef gert það. Ég hef gert það margsinnis, og niðurstaðan af þeim umr. hefur orðið sú, að það hefur verið talið heppilegt að fara þá leiðina, sem ég benti á, en ekki skora á Alþ. að breyta fögunum, eins og nokkrir menn létu sér detta í hug að væri kannske eðlilegt að gera.

Hvað viðvíkur iðgjaldagreiðslunni í Kópavogshreppi, sem hv. þm. benti á að væri fjórföld á við það, sem gilti í Reykjavík, þá skal ég ekkert um það segja; ég þekki það ekki. En ég gæti ímyndað mér, að þar væri ýmislegt, sem á skorti, til þess að brunavarnirnar væru þar í því lagi, sem þær þyrftu að vera. T. d. skulum við nefna eitt aðalatriðið eins og vatnsleiðslur og annað þess háttar, sem er nauðsynjaatriði til að slökkva eld. Það er hugsanlegt, að það sé það, sem einhverju getur valdið, og eitthvað fleira, sem ég þekki ekki. En ég trúi því ekki, að ef áhættan í Kópavogi er sama eða svipuð og í Reykjavík, þá fáist ekki Brunabótafélag Íslands til að tryggja með svipuðu iðgjaldi og reynist mögulegt að gera í Reykjavík.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta frekari orðum. Ég ætlaði mér ekki að fara í neinar deilur. Ég vildi bara skýra frá minni afstöðu til málsins og hvers vegna ég tel það óheppilegt, geti jafnvel verið skaðlegt, ef að óathuguðu máli verður farið í það að gefa þessar tryggingar frjálsar, svo að fimm eða sex félög komi til með að hafa fimm eða sex umboðsmenn á stöðum kringum land og fimm- eða sexfaldan kostnað við innheimtu og afgreiðslu þessara mála á borð við það, sem nú er. Ég er þess vegna í prinsipinu hlynntur þeirri till., sem fram hefur komið, var útbýtt hér í gær og hv. 2. þm. Eyf. lýsti hér áðan, að þessi mál verði athuguð, en að það verði ekki hlaupið í að breyta þessu að svo algerlega óathuguðu máli eins og hér hefur verið samþ. að gera með samþykkt till. hv. 11. landsk. þm. í gær.