01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það hafa komið fram við þessar umr. mjög athyglisverðar upplýsingar frá hv. 6. landsk., og þessar upplýsingar, sem voru hér mjög greinilega dregnar fram í dagsljósið, eru þær, að við höfum að vísu Brunabótafélag Íslands, og þeir, sem eiga að tryggja úti um land, eru bundnir við að tryggja í því félagi án útboða. Nú hef ég ekki dregið það í efa, að Brunabótafélag Íslands hafi á þeim tíma, sem það var stofnað, og lengi á eftir gert sitt gagn. Það voru ekki til hér íslenzk vátryggingarfélög, og þess vegna gátu fasteignaeigendur ekki leitað eftir eðlilegum útboðum á tryggingum húsa. Þess vegna var, á þessu stigi, eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt að hafa Brunabótafélag Íslands til að tryggja húsin.

En nú liggja fyrir þær einkennilegu upplýsingar, að í Reykjavík, þar sem tryggingarnar hafa verið frjálsar og þar sem menn hafa verið losaðir við Brunabótafélagið, eru tryggingargjöld miklu lægri, og að hjá Brunabótafélaginu eru tryggingarnar úti um land þetta frá þrisvar sinnum til fimm sinnum hærri en í Reykjavík, fjórum sinnum hærri eru þau í Hafnarfirði, þrisvar til fjórum sinnum hærri hér suður á Hálsinum, þar sem nákvæmlega stendur eins á og í úthverfum Reykjavíkur, t. d. inn í Vogum, alveg álíka langt, vatnsveita á báðum stöðum, brunaliðið í Reykjavík, sem annast slökkviliðsstarfsemi, o. s. frv. Þetta er staðfesting á því, sem við höfum verið að halda fram, sem höfum viljað gefa tryggingarnar frjálsar: Það er einokun á tryggingunum utan Reykjavíkur, og niðurstaðan þessi. Og þessar upplýsingar segja miklu meira. Þær segja það, að þegar Reykjavík er tekin út úr einokun Brunabótafélags Íslands og þegar Brunabótafélagið á að fara að bjóða á móti öðrum félögum og leitar eftir tilboðum í endurtryggingar sérstaklega fyrir Reykjavík, þá kemur það út, að tilboðin eru fjórum sinnum lægri en á stöðum, sem eru hér nálægt Reykjavík. Þetta er vitanlega ekki vegna þess, að standi öðruvísi á um áhættu. Þetta er vegna þess, að þarna er leitað á fjöldamörgum stöðum eftir endurtryggingu á tryggingunum í Reykjavík, og það er allt annað tilboð í þessar endurtryggingar en félagið situr við eftir samningi, sem ég hygg, að a. m. k. hafi ekki verið breytt síðan fyrir nokkuð mörgum árum og þá ekki endurskoðaður um eitthvað einn eða tvo áratugi. Og nú á að fara þannig að, að í staðinn fyrir að taka þeirri reynslu, sem Reykjavík hefur fengið af því að vera frjáls með margfalt betri kjörum en þau bæjarfélög og sveitarfélög, sem eru bundin við einokun, þá á að snúa blaðinu við og búa til einokun á tryggingunum í Reykjavík, sem hefur reynzt verst. Það sannast, að þegar bærinn fer að tryggja, þá er það nú einu sinni svo, að það leitar í það aðgerðaleysi og leitar í þann svefn, sem kemur fram einmitt í þessum vinnubrögðum, sem alls staðar eiga sér stað að meira eða minna leyti eða a. m. k. hætt við að eigi sér stað að meira eða minna leyti, þar sem einokun er til lengdar.

Það er eiginlega það einkennilega, að eftir að Reykjavík er búin að vera frjáls og eina bæjarfélagið, sem hefur verið frjálst, situr við ágæt kjör, en önnur félög sitja við kjör, sem eru allt að fimm sinnum verri, þá ætlar Reykjavík að taka upp nýtt fyrirkomulag og fara að tryggja sjálf. En svo á að halda hinum félögunum öllum í sömu klípunni og þau hafa verið, með fimmfalt hærri iðgjöld. Ég held, að það væri full ástæða til þess að fara alveg öfugt að: leyfa öðrum bæjarfélögum að njóta þess frelsis, sem Reykjavík hefur notið með góðum árangri, í staðinn fyrir að láta bæjarfélögin úti um land vera hneppt í sömu einokunina og áður og setja Reykjavík þar svo líka, bara með öðrum hætti.

Það kann að vera, að tryggingarnar verði boðnar út hér í Reykjavík, en eftir því, sem frv. liggur fyrir núna, hef ég ekki séð, að nein minnsta skylda sé fyrir bæjarstjórn Reykjavíkur að bjóða út. Það er hægt að semja við eitthvert félag án þess. Ég ætla ekkert að fara að draga það í efa, að það verði leitað eftir því að fá sæmileg kjör. En hugsazt gæti það nú samt, að matið á því, við hvern ætti að semja, yrði ekki alltaf óhlutdrægt, hvort sem þessi bæjarstjórn situr eða einhver önnur, það yrði ekki farið nákvæmlega og bókstaflega eftir því, hvar kjörin verði bezt fyrir borgarana að tryggja hús sín, heldur eftir einhverjum öðrum sjónarmiðum, en sú leið er opnuð með þessu móti.

Ég hef bent á þessar staðreyndir eða öllu heldur ég hef vakið athygli á þeim, því að það er næsta furðulegt, að mér virðist, ef það á að hafa þann hátt á, að bæjar- og sveitarfélögum utan Reykjavíkur verði neitað um þann rétt að bjóða út tryggingar. Það er að vísu sagt, að það mál sé ekki undirbúið. Það er vitað mál, að jafnaðarmennirnir hér á hv. Alþ. eru á móti því að rýmka þannig um. Nú lýsa hv. sjálfstæðismenn því yfir, að þetta eigi að koma seinna, því að það sé þáltill. um þetta. Það kann að vera, að það verði svo, en megi ekki gera það núna, vegna þess að jafnaðarmennirnir fylgja málinu núna, eins og það liggur fyrir, og eiga að fá það á eftir, að Brunabótafélagið verði svo lagt niður í þeirri aðstöðu, sem það er núna, þegar búið er að koma þessu í gegn.

Þetta er alveg skökk athugun hjá hv. fulltrúum jafnaðarmanna hér á Alþ. Ég held, að Brunabótafélagið hefði gott af því að taka þátt í þessari samkeppni og mundi sjálfsagt halda áfram að verða til sem félag, þó að það þyrfti að taka þátt í slíkri samkeppni. Það mundi sjálfsagt endurskoða sínar vinnuaðferðir um endurtryggingar og fleira, og það mundi bæta stórkostlega rekstur þess, ef það þyrfti að taka þátt í slíkri samkeppni.

Ég sé nú ekki satt að segja, að það sé stórt atriði í þessu máli eða veigamikil rök að halda því fram, eins og hv. þm. Seyðf. gerir og leggur mikið upp úr, að það sé verulegt atriði, að innheimtan verði ódýrari hjá bænum. Það er þess vegna gott og rétt að upplýsa það hér, að eitt af þeim félögum, sem bauð í tryggingarnar í Reykjavík, bauðst til þess að taka að sér alla innheimtu og allt reikningshald fyrir 3% af iðgjöldum, og það er fróðlegt að sjá það síðar, þegar reikningar bæjarins verða endurskoðaðir og kostnaður við innheimtuna, hvort sá kostnaður verður 3%.

Viðvíkjandi því atriði, sem hér kom fram um tryggingar bifreiða, er vitanlega lögboðið að tryggja bifreiðar. Og við höfum aldrei haldið því fram, enda kom það greinilega fram hjá hv. 6. landsk., — við höfum aldrei haldið því fram, ég og hv. 1. þm. N-M., að ekki ætti að vera skylt að tryggja hús, og aldrei dottið í hug að halda því fram, að það ætti ekki að vera einnig um bifreiðar. En það gildir þar sú aðferð, sem ég lýsti í fyrri ræðu minni og ekki varð hrakið af hv. þm. Seyðf., að þar gildir algerlega frjáls samkeppni, og hér er um gífurlegar fjárhæðir að ræða. Það má benda á það, að mikið af þessum bifreiðum, sem núna eru notaðar í langferðir um landið, eru tæki, sem kosta sum mikið á þriðja hundrað þúsund, og tryggingarnar eru í samræmi við það og í samræmi við þá áhættu. Hvers vegna ekki að lögbjóða það, að bærinn taki þessar tryggingar líka, ef hann þarf endilega að taka húsin? Hvers vegna ekki? Við erum þá komin hér inn á þá braut, sem er kannske miklu auðveldari að komast inn á heldar en að stöðva sig á.

Ég sé enga kosti við þetta frv. Hins vegar sé ég marga ókosti við það, að bærinn taki þessi mál að sér, og líklegt, að tryggingarnar verði innan stundar enn dýrari. Það sannast, að það kemst yfir þetta svipað rekstrarfyrirkomulag og hjá Brunabótafélagi Íslands, og dæmin um það hafa verið rakin greinilega. Ég álít, að það sé mikil hætta á, að það endurtaki sig allt saman í Reykjavík og að Reykjavík, sem hefur verið frjáls og er nú að taka upp nýjar aðferðir, sé að breyta stórum til hins verra.