01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þess hefur mjög gætt í þeim umr., sem hér hafa fram farið af hálfu þeirra hv. þm. Str. og 6. landsk., að þeir blanda saman alveg ólíkum atriðum; annars vegar því frv., sem lagt var upphaflega fyrir Nd. og varðaði einungis brunatryggingar í Reykjavík, og hins vegar framtíð Brunabótafélags Íslands. Hér er um gersamlega óskyld mál að ræða. Hv. þm. Str. sagði raunar, að Reykjavík hefði brotizt út úr Brunabótafélagi Íslands. Þetta er alger misskilningur. Sérstök lagaákvæði um brunatryggingar í Reykjavík voru sett löngu áður en Brunabótafélag Íslands varð til, og varð Brunabótafélag Íslands þó til eða lög sett um það fyrst töluvert áður en hv. þm. virðast gera ráð fyrir.

Það var strax 1874, sem sérákvæði voru sett um brunatryggingar í Reykjavík, og ætíð síðan hafa sérstök ákvæði gilt um brunatryggingar hér. Þegar fyrst voru sett l. um Brunabótafélag Íslands, en það var gert 1907 og síðan endurnýjað með l. 1915, og segja má, að félagið í núverandi mynd hafi þá fyrst byrjað að starfa, þá, í bæði þessi skipti og ætíð síðan, hafa brunatryggingar í Reykjavík verið teknar undan starfsemi Brunabótafélags Íslands af sjálfum löggjafanum, vegna þess að sérlög giltu um brunatryggingar hér. Aldrei fyrr en nú hefur verið talin ástæða til að blanda þessum tveimur atriðum saman, og það er auðskilið, af hverju aðstaðan var hér önnur. Annars vegar var það vegna þess, að þéttbýli var hér meira og að sumu leyti meiri hætta á stórfelldum skaða, a. m. k. meðan bærinn var fyrst og fremst timburhúsabær, en hins vegar einnig, og þess hefur gætt í vaxandi mæli á seinni árum, voru aðstæður hér til brunavarna miklu betri en nokkurs staðar annars á landinu.

Þess vegna hafa ætíð frá fyrstu tíð verið sérákvæði um brunatryggingar hér í Reykjavík og þeim ákvæðum alltaf verið haldið lausum við fyrirmælin um Brunabótafélag Íslands. Það er ekki fyrr en við 2. umr. málsins í Nd., að skotið er fleyg inn í þetta mál, ekki af velvilja til að greiða fyrir sjálfu frv., heldur til þess að hindra framgang þess og þvæla málið, og það kemur bezt fram í afstöðu hv. þm. Str. Hv. 6. landsk. sagði að vísu, að það væru sjálfstæðismenn, sem vildu halda landsbyggðinni fyrir utan þetta frv., og hv. þm. Str. fór um það mörgum orðum, hversu fráleitt væri að vilja hindra landsbyggðina í því að njóta sama frelsis í þessum efnum og Reykjavík hefði notið. En það er eftirtektarvert, að hv. þm. Str. hefur sjálfur borið fram brtt. á þskj. 607 varðandi þetta mál, þar sem hann tekur landsbyggðina algerlega út úr málinu, þar sem hann vill svipta landsbyggðina því frelsi, sem hann var svo fagurlega að tala um hér áðan að hún þyrfti að hafa, og þetta sannar einungis það, sem vitað var og raunar sást strax á till. framsóknarmanna í Nd., að þeir hafa ekki áhuga fyrir því að blanda Brunabótafélagi Íslands og landsbyggðinni inn í þetta mál af áhuga fyrir velgengni þessara aðila út af fyrir síg, heldur til þess að hindra samþykkt frv. um brunatryggingar í Reykjavík. Það var ljóst, eins og ég segi, strax af till. Framsfl. í Nd. Það voru flokksbræður hv. 6. landsk., sem þar báru fram þær till., sem nú móta frv. En þetta verður enn þá berara af þeim brtt., sem hér liggja fyrir frá hv. þm. Str. og að því er ég fæ bezt séð takmarka frv. einungis við Reykjavík og taka út úr því ákvæðið um Brunabótafélag Íslands og frelsi landsbyggðarinnar í þessum efnum. Það er sem sagt ekki málefnaleg afstaða Framsfl., sem ræður því, að hv. þm. Str. tekur upp þessa baráttu hér, heldur einungis viljinn til þess að reyna að hindra samþykkt þess frv., sem 14 bæjarfulltrúar af 15 í bæjarstjórn Reykjavíkur hafa lagt til að við hér samþykktum.

Ef þeir, hv. þm. Str. og hans félagar í þessu máli, telja sig geta fengið vilja sínum framgengt í þessu, að brjóta vilja fulltrúa Reykjavíkur á bak aftur, þá vilja þeir sleppa frelsinu fyrir annað landsfólk. En þeir vilja ganga inn á það að gefa landsfólkinu þetta frelsi, ef þeir geti þar með gengið á svig við eða hindrað þær óskir, sem bæjarstjórn Reykjavíkur með svo yfirgnæfandi meiri hluta hefur samþykkt.

Ég skal ekkert fara hér út í það að ræða verðleika Brunabótafélags Íslands. Ég læt það mál afskiptalaust. Ég vil þó aðeins minna á, að í l. um Brunabótafélag Íslands stendur: „Brunabótafélag Íslands er gagnkvæmt ábyrgðarfélag vátryggjenda, eftir því sem lög þessi ákveða.“ Þetta er ákveðið í 1. gr., að það er gagnkvæmt ábyrgðarfélag vátryggjenda, og í 17. gr. segir, að ef arður þess fer fram úr því marki, sem þar er sett, sem raunar er allóákveðið og á valdi stjórnenda félagsins, þá eigi að endurgreiða arðinn til vátryggjendanna sjálfra. Ef menn telja, að Brunabótafélagið hafi ekki gegnt skyldu sinni eins og vera ber, þá er það verkefni út af fyrir sig annaðhvort að leggja niður eða leysa upp þetta gagnkvæma ábyrgðarfélag vátryggjenda eða fá þær umbætur á rekstri þess, sem taldar eru nauðsynlegar. Það kann að vera rétt að gera það; ég skal ekki um það segja. Rök þau, sem hv. 6. landsk. þm. færði fram, kynnu að benda til þess, að þar hafi ekki að öllu leyti verið haldið á eins og skyldi. Ég hef ekki heyrt svar Brunabótafélagsins við því, en vissulega er nauðsynlegt að heyra það, áður en dómur er kveðinn upp í málinn, en það er atriði út af fyrir sig. Það er atriði, sem verður að kveða á um, ef menn vilja taka til endurskoðunar eða breytingar lögin um Brunabótafélag Íslands, en varðar ekki á neinn hátt það sérmál Reykjavíkur, sem hefur verið sérmál hennar, brunatryggingar þar, allt frá því áður en við fengum stjórnarskrá setta fyrir Ísland, og væri þess vegna algert nýmæli í sögu Alþ., ef nú ætti að fara að blanda saman við þetta því gersamlega óskylda máli, sem gæti leitt til þess, ef frv. væri ekki breytt aftur í samræmi við till. hv. meiri hl. n., að gersamlega fölsk mynd af þingviljanum kæmi út. Það má vel vera, að ýmsir, sem alls ekki vilja fallast á að leysa upp Brunabótafélag Íslands, mundu engu að siður greiða atkvæði með frv., vegna þess að þeir telji frv. svo mikils vert fyrir Reykjavík, að þeir vilji ekki láta stöðva það þrátt fyrir þennan fleyg, sem inn í það hefur komið. Alveg eins og það er sannað, að hv. þm. Str. og hans félagar vilja gjarnan sleppa Brunabótafélagi Íslands, bara ef þeir geta komið vilja sínum fram í Reykjavík, þannig höfum við enga hugmynd um það, hver afstaða þeirra yrði til þess, einstakra framsóknarmanna, ef þeir ættu að kveða sérstaklega á á þinglegan hátt um framtíð Brunabótafélags Íslands. Þess vegna er sá eini rétti þinglegi máti í þessu að fella burt það gersamlega óskylda atriði, sem skotið var inn í málið í Nd. til þess að reyna að hindra sanngjarna ósk Reykvíkinga, en síðan flytji áhugamenn um tilveru eða upplausn Brunabótafélags Íslands till., eins og komið hefur fram, um endurskoðun á starfrækslu félagsins eða um að gefa sveitarfélögunum eftir hæfilegan tíma frelsi í þessum efnum. Og það er ekkert launungarmál, að það er í undirbúningi flutningur slíks sérstaks frv., þannig að frjáls og ófalsaður þingvilji geti komið fram í því máli, en ekki verði blandað saman við gersamlega óskylt mál.