01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. talaði hér með miklum hita, að því er mér virtist, og fullyrti, að ég og hv. þm. Str. hefðum blandað saman alls óskyldum málum, þegar við töluðum annars vegar um brunatryggingar í Reykjavík og hins vegar um brunatryggingar annars staðar á landinu. Ég held nú, að hæstv. ráðh. þyrfti lengi að tala og oft til þess að sannfæra menn um það, að brunatryggingar í Reykjavík og annars staðar á landinu séu alls óskyld mál. Hv. þm. Str. hefur tekið þessa fjarstæðu hæstv. ráðh. til meðferðar og hrakið hana, enda hrekur hún sig sjálf. Það má líka benda á það, eins og hv. þm. Str. raunar gerði, að Brunabótafélag Íslands telur ekki þetta svo óskylt mál, að það bauð einmitt í allar brunatryggingar í Reykjavík á þeim grundvelli, sem því er nú skapaður með þeim lögum, sem um það gilda og hæstv. ráðh. var að vitna í. Það telur sér algerlega frjálst og heimilt samkvæmt þeim lögum, og réttilega, að ég hygg, að bjóða í frjálsar tryggingar. Það hefur líka allmikið af frjálsum tryggingum, bæði hús, önnur en íbúðarhús, og innanstokksmuni. Ég hygg, að það hafi um ½ millj. kr. í tekjur af iðgjöldum af frjálsum tryggingum.

Hæstv. ráðh. sagði einnig að það hefði verið í hv. Nd. skotið fleyg inn í þetta frv. til þess að hindra framgang þess. Ég vil eindregið og ákveðið mótmæla þessu sem alveg staðleysu. Það er vitanlegt, og það veit hæstv. ráðh. vel, að þeir, sem stóðu að þeirri brtt., sem samþ. var inn í frv. í Nd., fylgdu frv. fram og tryggðu framgang þess, en hindruðu hann ekki, og sama mun verða hér. Ég lýsti því yfir í fyrri ræðu minni, að ég gæti einmitt ekki fylgt till. hv. minni hl. n. vegna þess, að það kynni að hindra framgang þessa máls. Ég vil, að þetta mál gangi fram og Reykjavíkurbær fái þær heimildir sem hann hefur óskað eftir með miklum meiri hluta í bæjarstj. Reykjavíkur, eins og hæstv. ráðh. benti á. Ég tel það eðlilegt, að hann fái þær heimildir. En ég tel líka jafneðlilegt, að önnur sveitarfélög á landinu fái sömu helmildir. Og hæstv. ráðh. veit það vel, að alveg eins og það liggja fyrir óskir bæjarstj. Reykjavíkur um þetta, þá liggja einnig fyrir óskir og kröfur annarra sveitarfélaga á landinu, margra kaupstaða um það, að þeir verði leystir undan þeirri skyldu að tryggja hjá Brunabótafélagi Íslands og verði veitt heimild til þess að bjóða út sínar tryggingar, og ég veit, að hæstv. ráðh. veit það líka vel, að það eru hans flokksbræður í bæjarstj. kaupstaðanna, sem hafa staðið að þeim samþykktum og kröfum, sem hafa verið gerðar um þetta, engu síður en aðrir. Slíkar samþykktir liggja fyrir, hygg ég, frá bæjarstj. flestra kaupstaða. Meðal annars hefur það komið fram í blöðum, að bæjarstj. Vestmannaeyja og bæjarráð hefur nýlega gert samþykktir um þetta og skorað á þm. kjördæmisins að beita sér fyrir lagasetningu, sem losaði brunatryggjendur í Vestmannaeyjum undan skyldutryggingum hjá Brunabótafélagi Íslands. Það liggur, eins og ég sagði, alveg ljóst fyrir, óskir sveitarfélaganna, kaupstaðanna, stærri bæjarfélaga í þessu efni, alveg jafngreinilega og óskir bæjarstj. Reykjavíkur, og með framgangi þessa frv. óbreytts eins og það liggur nú fyrir er það tryggt, að orðið verði við þessum óskum, ekki aðeins bæjarstjórnar Reykjavíkur, heldur annarra bæjarstj. á landinu. Rökin fyrir þessum óskum kaupstaðanna eru ljós og alveg óhrekjandi. Um hitt má miklu fremur deila, hvort það fyrirkomulag trygginganna, sem bæjarstj. Reykjavíkur óskar eftir, er hið eina rétta og sjálfsagða. Það er annað mál. En það er tryggt með framgangi þessa frv. óbreytts, að bæjarstj. Reykjavíkur fær vilja sinn í því efni.

Það er svo mikil fjarstæða, sem hér hefur verið haldið fram, að það sé verið að leysa upp Brunabótafélag Íslands með samþykkt þessa frv., að það þarf raunar ekki að hrekja, en ég vék að því í fyrri ræðu minni. En þessu er nú haldið framgreinargerð þeirrar þáltill., sem hér hefur verið lögð fram á hv. Alþ. til málamynda til þess að skjóta sér undan ábyrgð, sem hvílir á þeim hv. þm., sem að þeirri þáltill. standa. Ég tek þær fullyrðingar ekki alvarlega. Það er alveg ljóst, að Brunabótafélag Íslands getur starfað og tekið að sér á frjálsum grundvelli tryggingar, sem því er ekki boðið með lögum sínum að taka að sér, sbr. það, að það bauð í allar brunatryggingar í Reykjavík. Hitt er annað mál, að það þyrfti að gera og væri sjálfsagt að gera ýmsar breytingar á lögunum um Brunabótafélag Íslands. Það er annað mál, en það kemur ekki við þessu máli. En ef þetta mál á að ná fram að ganga, þá mun það verða í því formi, sem það nú er, vona ég, annars ekki.