01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. þm. Str. sagði, að það, sem hann ætlaði nú að segja, væri naumast þinghæft. Hann verður að dæma um það sjálfur, en efni málsins duldist ekki, að hann kom hér fram sem aðill ákveðins verzlunarfyrirtækis, Samvinnutrygginga, og gerðist talsmaður þess. Ég kem hér aftur á móti fram sem fulltrúi 14 bæjarfulltrúa í Reykjavík af 15 og hef engu að leyna í þessu sambandi.

Hv. þm. sagði eða lét skina í, að það væri verið að breyta til frá útboðinu. Þetta er algerlega rangt. Ég veit ekki betur, — og hv. þm. getur leiðrétt mig, ef það er misskilningur hjá mér, — heldur en að það hafi verið boðið út með tvennum hætti, annars vegar, að tryggt yrði á sama veg og verið hefur að undanförnu, hins vegar gert ráð fyrir þeim möguleika, að bærinn tæki að sér tryggingar allar og endurtryggt yrði. Er þetta ekki rétt? Hv. þm. mótmælir því ekki. Þess vegna er sú ráðstöfun, sem hér er gerð, í fullu samræmi við útboðið, og allir þeir, sem þátt tóku í því, hlutu að reikna með því, að sá möguleiki yrði valinn, og 14 bæjarfulltrúar af 15 taka ekki þá ákvörðun að velja endurtryggingarnar fyrr en þeir sjá, að það muni verða bænum hagkvæmara en hinn möguleikinn. Hitt veit ég mjög gerla, vegna þess að það var m. a. rætt um það við mig og ýmsa fleiri snemma á s. l. ári, löngu áður en útboðin voru gerð, að menn voru þá þegar farnir að bollaleggja, að tími væri til þess kominn, að bærinn tæki að sér tryggingarnar sjálfur, en léti ekki sama hátt vera á eins og áður. Það sýnir einmitt sanngirni bæjarstjórnarmeirihlutans, að hann skyldi þó ekki taka ákvörðun um þetta fyrr en útboð eru gerð á báðum grundvöllunum, þannig að ljóst liggur fyrir, hvað hagkvæmast er, og það er mjög eftirtektarvert, að eftir að hv. þm. Str. er nú búinn að afhjúpa sig, segja það, sem hann segir að ekki sé þinghæft, kemur fram sem allsnakinn umboðsmaður ákveðins tryggingarfélags hér í bænum, þá ætlar hann að bjarga sér með því að bera á einn bezta og samvizkusamasta starfsmann Reykjavíkurbæjar — ég vil segja bezta og samvizkusamasta fræðimann í sínum greinum hér á landi — dr. Björn Björnsson, að hann sé ekki hlutlaus aðili í þessum efnum. Þeir menn, sem á slíkum málflutningi þurfa að halda, eru sannarlega illa komnir, og það er sárgrætilegt og sýnir fram á, hversu hv. þm. Str. hefur hér illan málstað, að hann, jafnglöggur og skilríkur maður, þurfi að grípa til slíkra ráða, — alveg eins og hann lætur sem það sé hér einhver hætta á því, að endurtryggingarnar verði ekki boðnar út.

Hv. þm. segir, að það sé þó einhver munur, meðan tryggingarnar hafi verið boðnar út. Það hefur engin skylda verið til þess í l. fram að þessu að bjóða tryggingarnar út. Bæjarstjórnarmeirihlutinn hefði öll þau ár, sem hann hefur haft með þessi mál að gera, getað samið við hvert það félag, sem hann vildi, án útboðs, ef hann hefði kosið þær vinnuaðferðir. Hann hefur ekki gert það, og að sjálfsögðu efast ég ekki um það, að hann muni í framtíðinni bjóða út endurtryggingarnar alveg á sama hátt og hann hefur gert með sjálfar tryggingarnar, meðan samið var á þeim grundvelli. Bæjarstjórnarmeirihlutinn fer eftir útboðum, en hv. þm. Str. vill láta semja við sitt félag, hvað sem öllum staðreyndum líður. Í þessu liggur munurinn.