02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég gat þess í framsöguræðu minni fyrir þessu máli við 2. umr., að meiri hl. allshn. væri að athuga að taka upp brtt. þá, sem hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) kom fram með í Nd. við frv., en tók aftur til þess að tefja ekki málið þar. Það hefur nú orðið að samkomulagi með okkur þremur þm., sem myndum meiri hl. í þessu máli, að bera fram till., sem að efninu til er samhljóða henni, og ég hef borið málið undir borgarstj. í Reykjavík, sem er þessu samþykkur. Með leyfi hæstv. forseta, vildi ég mega lesa upp þessa brtt.:

„Á eftir 1. gr. komi ný gr., er verði 2. gr. (og breytist greinatalan samkvæmt því): Bæjarstjórnin getur því aðeins tekið tryggingarnar í eigin hendur, að fjárhagslegur grundvöllur þeirra sé tryggur og iðgjöldin séu sambærileg iðgjöldum viðurkenndra tryggingarfélaga, sem hagkvæmust tilboð gefa, að viðbættu gjaldi, sem ákveðið er að leggja í sérstakan tryggingarsjóð, sbr. 1. gr. — Útboð samkv. 1. málsgr. 1. gr. skulu fara fram eigi sjaldnar en á 5 ára fresti.“

Eins og sést á þessum till., er komið fram með þær til þess að tryggja húseigendum, að ágóði af tryggingunum fari ekki til annars en brunavarna og að hann, ef hann verður einhver, sem maður vonar, verði ekki notaður sem almennur eyðslueyrir bæjarfélagsins. Ég vonast því til, að allir hv. dm. geti fallizt á þessa brtt.

Ég sé, að það er komin fram brtt. frá hv. 2 landsk. þm. (BrB), þar sem hann leggur til, að aftan við 1. gr. bætist ákvæði, sem segir, að þó skuli aldrei minna en helmingi af þeim iðgjaldatekjum, sem verða, varið til lækkunar. Ég álít, að það sé ekki praktískt að samþ. þessa till., sérstaklega gæti ég hugsað mér, að fyrstu árin væri rétt að auka sjóðinn nokkuð mikið með tilliti til seinni tíma, og er þá þess að gæta, að þessi sjóður er raunverulega eign húseigenda til þess að létta af þeim iðgjöldum síðar. — Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.