02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég var að lesa þessa till. frá meiri hl., sem þm. Seyðf. hafði hér framsögu fyrir áðan, og mér finnst, að í hana vanti vissa hluti, sem verði í henni að vera, ef hún eigi að vera samþ., og það var nú til þess að benda á það, sem ég kvaddi mér hljóðs. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórnin getur því aðeins tekið tryggingarnar í eigin hendur, að fjárhagslegur grundvöllur þeirra sé tryggur og iðgjöldin séu sambærileg iðgjöldum viðurkenndra tryggingarfélaga, sem hagkvæmust tilboð gefa“ o. s. frv.

Hver á að dæma um það, hvort fjárhagslegur grundvöllur þeirra sé tryggur? Það er eftir till. bæjarstjórnin sjálf. Það er bæjarstjórn, sem er kannske svo stödd, að hún er að byrja að fá framlög frá ríkinu, hún hefur kannske togararekstur og er komin á hausinn með hann og ríkið verður að fara að ábyrgjast fyrir hana, eða hún rekur einhver önnur fyrirtæki, sem eru ekki vel stæð. Hún á sjálf að dæma um það, hvort hún er fær um að taka að sér tryggingar fyrir öllum húsum í kaupstaðnum og ábyrgjast mönnum að borga þau út, ef þau brenna. Þetta getur ekki staðizt. Ef þeir ætla sér að fara þessa leið, flutningsmennirnir, sem ég er ekki neitt að tala á móti í þessu sambandi, ég læt það liggja á milli hluta, þá verður að setja þarna inn í hlutlausan aðila, sem dæma á um það, líklega menn, sem ríkisstj. skipar til að dæma um það, hvort bærinn sé þannig staddur fjárhagslega, að honum sé fært að taka á sig ábyrgð á öllu brunatjóni, sem verður í bænum, með þeim endurtryggingum, sem hann á völ á. En að láta bæjarstjórnina sjálfa dæma um það, það er hreinn glæpur gagnvart mönnunum, sem í bænum búa og eiga að tryggja hjá honum hús sín. Það kemur ekki til neinna mála frá mínu sjónarmiði séð.

Nú segið þið kannske, sem till. flytjið, að það sé nú ekki nein hætta á þessu, bærinn sé hér alltaf dómbær um hlutina, og það sé ekki hætta á því, að honum fari að missýnast hvað þetta snertir. Nú skal ég ekkert segja um það. Ég er ekkert viss um, að það sé alltaf, og það getur oft verið álitamál um það. En hvað bæjarstjórn Reykjavíkur snertir, þá liggur það fyrir, að hún hefur sagt við þann mæta mann, Þorstein Þorsteinsson hagstofustjóra: Þú ert alls ekki fær um það, sem þér er sagt að gera. — Eftir lögum átti Þorsteinn hagstofustjóri að reikna út vísitölu byggingarkostnaðar í Reykjavík og hefur alltaf gert það. Honum hefur verið falið af Alþingi og stjórnarráðinu að gera það. En 1948 komst bæjarstjórn Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu, að þetta sé rammvitlaust gert af honum, og hættir að fylgja þeirri vísitölu, sem Þorsteinn reiknar út, og birtir sjálf sína vísitölu til að fylgja í bænum og fær stjórnarráðið til að staðfesta hana, að það megi fylgja henni, en ekki hinni löglega fundnu. Hvað haldið þið að þeir geri, þegar þeir eiga sjálfir að fara að meta það, hvort þeir séu færir til þess að geta borgað út allar brunatryggingar eða ekki, og ættu að dæma um sjálfir? Ég treysti þeim ekki til þess. Það er hver blindur í sjálfs sín sök. Og ekki nóg með þetta, bæjarstjórnin hefur líka komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir eiðsvörnu menn, sem meta brunatryggingar í Reykjavík, hafi bara gert það illa, að það sé ekkert samræmi í því frá ári til árs, og það verður að endurmeta það allt saman aftur. Þeir hafa fengið ríkisstj. til þess að viðurkenna það og láta fara fram nýtt brunabótamat, af því að þessir eiðsvörnu menn, sem höfðu gert það áður, væru ekki verki sínu vaxnir. Bæjarstjórnin er þarna hæstaréttardómari; hún vill dæma sjálf um þessa hluti. Haldið þið þá, að hún muni ekki dæma sjálf um það, hvort fjárhagur sinn sé svo góður, að hún sé fær um að taka við öllum tryggingum í bæjarfélaginu til brunabóta? Ég er nú hræddur um það, að hún muni dæma um það sjálf.

Mér finnst þess vegna vanta inn í þessa till., og ég vildi nú bara mælast til þess, að forseti biði með málið þangað til á morgun eða mánudaginn og lofaði mönnum að koma inn í þetta brtt. með viti, því að það þarf þarna annan dómara en bæjarstjórnina. Aftur á móti er það bæjarstjórnin, sem á að ráða því, hvað mikið hún vilji leggja til hliðar af þeim ágóða, sem hún fær, í framtíðarsjóð til að annast tryggingarnar. Það tel ég hana eiga að dæma um. En hitt er hún ekki dómbær um, hvernig fjárhagur hennar sjálfrar er til þess að taka að sér tryggingarnar eða ekki. Það verða að vera hlutlausir menn, sem dæma um það.