03.12.1953
Efri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

8. mál, tollskrá o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. málsins, þá hef ég breyt. að gera við frv. um breyt. á tollskrá o.fl. Breyt. þessar er að finna á þskj. 226. Hin fyrsta lýtur að því, að B-liður 1. gr. skuli falla niður, og 2. brtt. er bein afleiðing af því. Í þessum lið, B-lið 1. gr., er heimilað að hækka verðtollinn um 45% eða, eins og það er orðað í gr., að innheimta verðtollinn með 45% álagi. Eins og verðlagsbreytingum er háttað, þá er það bersýnilegt, að verðtollurinn fylgist nokkurn veginn með hækkuðu verðlagi og gefur þess vegna því meiri tekjur sem verðlagið á þeim vörum, sem hann er lagður á, verður hærra. Einmitt gengislækkun íslenzku krónunnar varð þess vegna til þess að hækka verðtollinn stórkostlega, nokkurn veginn sem samsvaraði því, sem erlendur gjaldeyrir, sem vörurnar voru keyptar í, hækkaði í verði, eða um nálægt 72%. Því var það í rauninni alveg óeðlilegt að halda því álagi á verðtollinn, sem áður hafði verið, enda viðurkenndi hæstv. ríkisstj. það í orði með því að lækka álagið örlítið frá því, sem áður var. Ég ætla, að það hafi verið 65% áður. Nú eru til athugunar breytingar á tolla- og skattakerfi ríkissjóðs, og eftir því sem stjórnarblöðin hafa skýrt frá, þá má gera ráð fyrir því, að till. um heildarbreyt. á skatta- og tollalöggjöfinni verði lagðar fyrir þetta þing svo snemma, að þær nái afgreiðslu áður en þinginu lýkur. Ég álít því rétt að svo stöddu að fella nú niður þennan viðauka á verðtollinum og vænti þess, að sú nefnd, sem um þetta fjallar, leiti þá annarra tekjustofna til að bæta þetta upp. (Gripið fram í.) Já, mþn., eins og hæstv. dómsmrh. veit, var falið að gera heildarendurskoðun á tolla- og skattakerfi ríkissjóðs, bæði beinum sköttum og tollum.

3. brtt. á sama þskj. er sérstaks eðlis og gengur aðeins í þá átt að bæta örlítið úr því misrétti, sem tollaálagningin og tollskráin innifelur. Þar er lagt til, að aftan við e-lið 3. gr., — en þeir liðir, a–e, eru upptalning á þeim vörum, sem aðflutningsgjöld skulu felld niður á, — sé bætt einum lið, f-lið, og í honum séu lyf, sem teljast til nr. 57 og 58 í 30. kafla tollskrárinnar. Þetta munar engu fyrir ríkissjóðinn fjárhagslega, hvort aðflutningsgjöld eru heimt af þessum vörum. Aftur á móti kemur það fram í verðlagi lyfjanna. Það verður til þess að hækka þau, og munu þó flestir sammála um, að þau séu nógu dýr fyrir. Það sýnist alveg óeðlilegt að gera ríkissjóði að tekjustofni aðrar eins vörur og lyf, sem eru notuð að langmestu leyti beinlínis eftir læknisráði og til þess að lina þrautir manna og reyna að veita þeim lækningu. Hvað sem líður þess vegna þeim meginmun í skoðunum, sem ég þykist vita að sé milli mín og hv. meiri hl. og stjórnarflokkanna um 1. og 2. till., þá vænti ég, að sú litla till., sem greinir í 3. lið á þskj. 226, geti náð samþykki hv. dm. allra, því að þar er aðeins um að ræða — mér liggur við að segja sjálfsagða leiðréttingu, sem ekki getur haft nein áhrif á fjárhag ríkissjóðs.