04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

160. mál, skipun prestakalla

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 416, er, eins og fram er tekið í grg., flutt eftir beiðni prestsins á Höskuldsstöðum, sem óskar eftir því að færa sig til Skagastrandar, þ. e. í Höfðakaupstað. Frv. er flutt í samráði við hæstv. kirkjumálaráðh., og rn. hefur fengið öll þau gögn í hendur, sem óskað er eftir í slíkum tilfellum, sem er umsögn frá öllum viðkomandi sóknarnefndum, frá prófasti og frá biskupi.

Nú stendur svo á þarna, að í þessu prestakalli eru þrjár sóknir og um leið þrír hreppar, sem þó var áður einn hreppur, hinn forni Vindhælishreppur, sem nú hefur verið skipt í þrjá. Og dæmið stendur þannig, að í Höfðakaupstað eða Höfðasókn eru um það bil 2/3 af öllu fólki í prestakallinu, sem er alls um 900 manns, sem sagt, að í hinum tveimur sóknunum, Höskuldsstaðasókn og Hofssókn, er samtals um þriðjungur af safnaðarfólkinu.

Nú stendur svo á, að Höskuldsstaðir, prestssetrið, er næstum á enda prestakallsins, og presturinn, sem þarna þjónar, verður auðvitað að fara flestar sínar ferðir þangað, sem fólksfjöldinn er mestur, sem er í Höfðakaupstað. Þess vegna telur hann sér það miklum mun hagkvæmara að hafa sinn bústað þar en á Höskuldsstöðum. Og þar sem viðkomandi prestur er einhleypur maður og hefur ekki stundað búskap að neinu verulegu leyti, þá raskar það ekki því, að það þurfi þess vegna jarðarafnot til mikilla muna. Hins vegar óskar hann eftir að fá landsafnot eða ræktað land, ef hann flytur til Höfðakaupstaðar, sem er auðvelt að veita, því að þar eru nægileg ræktunarlönd.

Varðandi það, hvernig með þetta skuli fara, ef þetta frv. verður samþ. hér á hv. Alþ., þá hef ég sett hér inn í bráðabirgðaákvæði, eins og hv. þm. geta séð, að kirkjumálaráðh. hafi heimild til hvors tveggja, annaðhvort að leigja hús eða kaupa hús handa prestinum í Höfðakaupstað, og eins hins, að leigja Höskuldsstaði eða selja þá. Fyrir ríkissjóð mundi það vera náttúrlega ódýrast og sennilega ekki hafa neinn kostnað í för með sér, ef jörðin væri seld og keypt hús í staðinn, því að eins og sakir standa er hægt að fá nægileg hús keypt í Höfðakaupstað og það sómasamleg hús handa prestinum.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta litla mál frekar, en vænti þess, að því verði vel tekið, og óska, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.