12.04.1954
Efri deild: 85. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

160. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir á þskj. 657, er um breyt. á l. um skipun prestakalla. Frv. er um það, að prestssetrið í Höskuldsstaðaprestakalli skuli flytjast frá Höskuldsstöðum Höfðakaupstað.

Frv. er flutt af hv. þm. A-Húnv. (JPálm), að beiðni viðkomandi prests. Þarna hagar svo til, að presturinn situr á Höskuldsstöðum, sem eru næstum á enda prestakallsins, en nálega 2/3 af meðlimum prestakallsins eða fólksfjöldanum er í Höfðakaupstað. Af þessu leiðir, að ferðakostnaður prestsins verður miklu meiri við að sitja á Höskuldsstöðum, því að þar sem fólksfjöldinn er mestur saman kominn, er vitanlega mest fyrir prestinn að gera. Hann hefur því farið fram á það, að prestssetrið yrði flutt í Höfðakaupstað, og því er þetta frv. hér komið fram. Það liggja fyrir umsagnir um þessa tilfærslu frá viðkomandi sóknarnefndum og einnig frá prófasti, og leitað hefur verið álits biskups, og allir þessir aðilar hafa tjáð sig samþykka þessu ásamt hæstv. kirkjumrh., og er frv. einnig flutt í samráði við hann.

Frv. tók smávægilegum breytingum í hv. Nd., og segir t. d. í 2. gr.: „Lög þessi koma til framkvæmda, þegar notuð hefur verið heimild sú, og felst í bráðabirgðaákvæði laganna um prestsseturshús í Höfðakaupstað.“ En í bráðabirgðaákvæðinu segir, með leyfi hæstv. forseta: „Kirkjumálaráðherra er heimilt að láta reisa eða kaupa prestsseturshús í Höfðakaupstað, enda fylgi því a. m. k. 5 ha. ræktunarland, og að því loknu að leigja eða selja jörðina Höskuldsstaði.“ — Með þessu er gert ráð fyrir, að flutningur prestsins fari ekki fram fyrr en þetta hvort tveggja er fyrir hendi, bæði með leigu eða sölu á Höskuldsstöðum og einnig að hús hafi verið fengið fyrir prestinn í Höfðakaupstað ásamt minnst 5 ha. ræktunarlandi, eins og stendur í bráðabirgðaákvæðinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta; þetta virðist liggja nokkuð beint fyrir. Frv. er komið fram vegna beiðni sóknarfólks í þessum þremur sóknum; einnig er það vilji prestsins; sömuleiðis hefur verið leitað álits og umsagnar þeirra aðila, sem lögum samkvæmt hafa með þessi mál að gera.