09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til l. umr., er frv. til l. um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Það felur í sér, að bæjar- og sveitarstjórnum utan Reykjavíkur sé heimilt að semja við eitt vátryggingarfélag eða fleiri um brunatryggingar á þeim húseignum í umdæmi sínu, sem tryggingarskyldar eru samkvæmt 2. gr. frv. M. ö. o., það upphefur þann einkarétt, sem Brunabótafélag Íslands hefur nú á tryggingum á fasteignum á öllu landinu utan Reykjavíkur.

Með l. um Brunabótafélag Íslands er félaginu gefinn einkaréttur á brunatryggingum á öllum húsum í kaupstöðum, kauptúnum og sveitum landsins. Aðeins er Reykjavík undanskilin, sem hefur haft frjálsar hendur um allar tryggingar og boðið þær út og tekið hagstæðustu tilboðum. Þessi einkaréttur Brunabótafélagsins hefur sætt nokkurri gagnrýni, einkum hin síðari ár, og er það út af fyrir sig ekki svo óeðlilegt. Kaupstaðir landsins og kauptún hafa flest komið sér upp öflugum brunavörnum, þó að þær séu ekki alls staðar jafnfullkomnar, en með auknum brunavörnum og fjölgandi steinhúsum í bæjum og sveitum landsins koma kröfur fram um lækkuð iðgjöld vegna minnkandi áhættu tryggingarfélaganna og vegna aukins kostnaðar þessara staða við auknar brunavarnir.

Að áliti þeirra, sem skyldaðir hafa verið til að tryggja í Brunabótafélagi Íslands, hefur félagið ekki mætt þessum kröfum svo, að tryggingartakar gerðu sig ánægða með. Bæði hafa iðgjöldin þótt vera of há á móti iðgjöldum t. d. í Reykjavík og stjórn og framkvæmdir félagsins að sumu leyti minna of mikið á einkaleyfishafann í viðskiptum sínum við þá aðila, sem ekki áttu í annað hús að venda með tryggingar sínar.

Það skal þó tekið fram, að á seinni árum hefur félagið nokkuð reynt að koma til móts við óskir manna um lækkuð iðgjöld og með aðrar fyrirgreiðslur, t. d. með lánum til brunavarnaáhalda o. fl. Er með þessu stefnt í réttar áttir og báðum til hagsbóta, það sem það nær.

Greinargerð forstjóra Brunabótafélags Íslands, sem prentuð er sem fylgiskjal með nál. meiri hl. allshn. þessarar hv. d., ber það einnig með sér, að ekki er rétt að líta á hvert mál frá einni hlið. Það eru fleiri hliðar en ein á hverju máli. Það kemur t. d. glöggt í ljós af þessari skýrslu, að mismunur á iðgjöldum Brunabótafélagsins er ekki líkt því eins mikill og haldið hefur verið fram í umr. um þetta mál hér t. d. í þessari hv. d., og er þá skylt að hafa það, sem sannara reynist. Ég ætla ekki að fara út í nánari samanburð á þessu, en vísa til umsagnar forstjóra Brunabótafélagsins í þessu efni.

Ég vænti þess, að hæstv. forseti álíti það ekki vera útúrdúr í umtali um þetta frv., þó að ég minnist aðeins á annað frv. í leiðinni, sem borið var fram í Nd. á sínum tíma og hefur verið hér til umr., enda er í grg. fyrir frv. því, sem ég nú mæli fyrir, einmitt minnzt á þetta frv., sem borið var fram í Nd. og hefur einnig verið hér til meðferðar í þessari hv. deild.

Eins og ég gat um, hefur Reykjavík haft sérstöðu að því er snertir tryggingarmálin, boðið tryggingarnar út og tekið hagkvæmustu tilboðunum, enda sætt mjög lágum iðgjaldagreiðslum miðað við annars staðar á landinu. En í þessu sambandi ber að athuga það, að Reykjavíkurbær hefur öflugustu brunavarnir hér á landi, sem vitanlega kosta mikið fé, sem greiðist úr bæjarsjóði, og er það skylt því fé, sem fer beint til iðgjalda. Má gjarnan taka tillit til þessa, þegar talað er um brunabótaiðgjöldin.

Allir þm. Reykv. í Nd. báru fram frv. um brunatryggingar í Reykjavík, sem fer í þá átt að heimila bæjarstjórn Reykjavíkur að taka í eigin hendur brunatryggingar allra húseigna í lögsagnarumdæminu eða semja við eitt vátryggingarfélag eða fleiri um tryggingarnar eða endurtryggingar. Með þessu frv. hyggst bærinn taka í eigin hendur rekstur trygginganna inn á við, þ. e. að annast innheimtu iðgjalda o. fl. og þá einnig að hafa nokkuð af tryggingunum í eigin áhættu og með því öðlast nokkuð af þeim ágóða, sem á tryggingunum væntanlega verður, og skal ágóðanum varið til sjóðsmyndunar og eflingar brunavarna.

Maður skyldi nú halda, að þetta frv. hefði náð ágreiningslítið fram að ganga, en svo var ekki. Snúizt var á móti þessu frv. með nokkuð mikilli hörku í báðum d., en það, sem fyrir kom í Nd., viðvíkjandi þessu frv., var það, að borin var fram brtt. við frv., sem fól í sér, að einkaleyfi Brunabótafélags Íslands á tryggingum skyldi verða fyrirvaralaust upphafið. Þessi till. var samþ. í Nd., en felld úr frv. í þessari hv. deild.

Orsök þess, að sjálfstæðismenn stóðu að því að fella þessa brtt. úr frv., er sú, að þrátt fyrir það að hún að nokkru leyti stefndi í þá átt hvað Brunabótafélag Íslands snertir, sem er mörgum nærri og mikið hefur verið talað um, að æskilegt væri að losa um þetta einkaleyfi félagsins, einkanlega í kaupstöðum og stærri kauptúnum landsins, þá var aðferðin, sem viðhöfð var, að áliti okkar sjálfstæðismanna, eins og fram er tekið í grg. við frv. þetta, sem nú er hér til umr., óþingleg í mesta máta og unnið af miklu ábyrgðarleysi, þar sem átti að leggja Brunabótafélag Íslands niður fyrirvaralaust og rannsóknarlaust að öllu leyti. Einnig var þarna blandað saman tveim óskyldum málum og frv. Reykjavíkurbæjar þar með sett í hættu.

Í framhaldi af þessu flytja þeir hv. þm. Hafnf. (IngF) og hv. þm. Vestm. (JJós) frv. til l. um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Þetta frv. hefur verið til athugunar í allshn., sem ekki gat orðið sammála um afgreiðslu þess. Þetta frv. fer í þá átt, eins og ég gat um í upphafi, að losa bæjar- og sveitarfélög undan einokun Brunabótafélagsins með tryggingarnar, en fer nokkuð öðruvísi að heldur en brtt., sem ég gat um áðan, við frv. Reykjavíkurþingmannanna fóru.

Á þeim fundi, sem allshn. hélt um málið, lagði meiri hl. n. til, að frv. yrði sent forstjóra Brunabótafélags Íslands til umsagnar. Þetta var gert, en minni hl. allshn., eða Hermann Jónasson, eftir því sem segir í nál. minni hl., taldi, að þar sem fyrirhugað sé að slíta þingi fyrir páska, sé hætta á, að málið dagi uppi, verði það fyrir töfum. Hann vill því afgreiða málið nú þegar og leggur til, að það verði samþ. með nokkrum breytingum. Aftur er það hv. þm. N-M. (PZ), sem þótti eðlilegt að fá umsögn Brunabótafélagsins, og mætti þá athuga það frekar á milli 2. og 3. umr. Vildi hann afgr. það nú og gera við það brtt.

Meiri hl. lagði til, að frv. yrði sent Brunabótafélaginu til umsagnar og því settur viss tími til að svara. Nú liggur þetta álit forstjórans fyrir og er prentað, eins og ég minntist á áðan, sem fylgiskjal með nál. meiri hl. n. á þskj. 771, en því miður er svo stutt síðan það var prentað, að hv. þm. hefur ekki gefizt kostur á að kynna sér það rækilega, en þar eru mjög mikilsvarðandi upplýsingar að ýmsu leyti, og sýna þær, að varhugavert er í mesta máta að samþ. brtt. um fyrirvaralausa niðurfellingu þeirra sérréttinda, sem Brunabótafélagið hefur haft undanfarið.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, fer í þá átt, að Brunabótafélagið skuli sleppa einkarétti sínum, en þó ekki fyrr en 15. okt. 1955, eins og segir í frv. sjálfu. Með þessu álitu flm. að þeir gæfu félaginu tækifæri til þess að athuga sinn gang og koma með framtíðartill. um skipulag félagsins, í stað þess að ákveðið yrði með l. að leggja það niður nú þegar. Meiri hl. leggur til, að frv. þetta, sem hér liggur fyrir, sé samþ., en með nokkrum breytingum þó.

Fyrsta breytingin, sem n. leggur til, er við 1. gr., að á eftir orðunum „Reykjavíkur er heimilt“ í 1. málsgr. komi: frá 15. okt. 1955. Þetta er m. ö. o. tekið úr 5. gr. frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 622 og fært þarna með þessari brtt. í 1. málsgr. Þetta er engin efnisbreyting, heldur aðeins tilfærsla á ákvæðinu um gildistökuna hvað Brunabótafélag Íslands snertir.

2. brtt. er við 3. gr. og er þannig, að orðin „í hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélagi“ í síðari málsgr. falli niður. Síðari málsgr. er það í frv., að breyta skal árlega vátryggingarverði húsa til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar í hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélagi. — Nú eru byggingarkostnaðarvísitölur ekki reiknaðar út í öllum bæjarfélögum landsins, og þykir þess vegna rétt að fella niður: „í hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélagi“ — og gr. verði aðeins: Breyta skal árlega vátryggingarverði húsa til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar.

Þá kemur aðalbrtt., sem meiri hl. leggur til að verði samþ. Það er það, að í stað 5. gr., sem er um gildistöku l., komi tvær nýjar gr., og fyrri gr. hljóði svo og verði 5. gr.:

Sameinað Alþingi kýs hlutfallskosningu 5 manna nefnd til þess að endurskoða lög um Brunabótafélag Íslands og önnur lagafyrirmæli um brunamál utan Reykjavíkur. Nefndin kýs sér formann og skal í starfi sínu hafa samráð við forstjóra Brunabótafélags Íslands. Nefndin skal ljúka störfum það snemma, að unnt verði að leggja frv. um þetta efni fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Með þessari breytingu hyggst meiri hl. koma því til leiðar, að endurskoðun fari fram á starfsháttum Brunabótafélags Íslands og til þess að framkvæma þessa athugun verði kosin 5 manna n., sem Sþ. kýs. Þetta ætti að hafa það í för með sér, að ef þessi n. vinnur þetta verk fram að þeim tíma, sem ákveðið er í þessari brtt., þá ætti að liggja fyrir ákveðið og rökstutt álit frá henni um þetta mál, sem hv. Alþ. gæti þá tekið til athugunar, þegar það kemur saman á næsta hausti.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að samkvæmt l. um Brunabótafélag Íslands er félagið gagnkvæmt tryggingarfélag. Það er eign allra þeirra, sem í því tryggja. Það er orðið sterkt. Það á orðið töluvert mikla sjóði, og virðist vera alveg sjálfsagt, að þessi athugun fari fram og till. gerðar um það, hvernig félagið skuli starfa í framtíðinni. Þá getur margt komið til greina um framtíðarstarfsemi þess, hvort það á að starfa að frjálsri samkeppni eða hvort það á að halda þeim einkarétti, sem það hefur hingað til haft, sem væri þá grundvöllur til þess að tala um, þegar þessi athugun hefði farið fram. En ef brtt. sú, sem lögð var fram í Nd., hefði verið samþ., þá var ekkert tóm til þess að gera þessa athugun, heldur Brunabótafélagið svipt þessum einkarétti sínum fyrirvaralaust að öllu leyti. En þegar tekið er tillit til þess, að félagið er eign allra þeirra, sem tryggja í því, og á orðið gilda sjóði, þá væri það vitanlega mjög ábyrgðarlítil afgreiðsla að svipta það sínum rétti, að sem sagt eigendurnir taki þennan rétt af sínu félagi athugasemdalaust og athugunarlaust. Þess vegna er þetta mjög mikilsverð breyting, sem meiri hl. væntir, að hv. dm. geti fallizt á, þ. e., að lögin taki ekki gildi fyrr en 15. okt. 1955, svo að tóm gefist til að gera tillögur um framtíðarstarfsemi Brunabótafélagsins.

Minni hl. hefur borið fram nokkrar brtt. á þskj. 726, og mér virðist þær vera þannig, að n. öll hefði getað fallizt á þær, ef tilraun hefði verið gerð til þess. Mér finnst þær vera þannig að efni til og meira að segja stefna að nokkru leyti í sömu átt og brtt. meiri hl. En ég veit ekki, hvernig minni hl. lítur á a-lið 3. brtt. meiri hl., um skipun nefndar til að endurskoða lög Brunabótafélagsins, vegna þess að brtt. hefur ekki verið rædd í nefndinni. En að öðru leyti virðist mér breytingarnar fara saman og að því leyti til geti orðið samkomulag um að samþ. þetta frv., því að ég vænti þess, að hv. dm. fallist á, að þessi aðferð, sem hér er höfð með flutningi þessa frv., sé ólíkt þinglegri og heppilegri í alla staði en samþykkt brtt. við frv. þm. Reykjavíkur, sem samþ. var í Nd., en felld svo úr frv. hér í þessari hv. deild.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vil endurtaka það, að meiri hl. leggur eindregið til, að frv. þetta sé samþ. með þessum brtt., sem prentaðar eru á þskj. 771 og ég hef nú þegar lýst.