12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Eins og getið er um í nál. allshn. viðvíkjandi þessu máli á þskj. 815, þá áskildum við okkur, hv. þm. Dal. (ÁB) og ég, rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja, ef fram kæmi. Við höfum leyft okkur að flytja brtt., sem er á þskj. 823 og verið var að útbýta, um gildistöku laganna, að lögin öðlist gildi 15. okt. 1954, í stað þess að í frv. er ákveðið, að þau skuli öðlast gildi 1955.

Úr því að þessi lagafyrirmæli eru sett nú og talin er þörf fyrir, að þau séu sett sakir þess, hvernig málefnið er vaxið, þá er það harla undarlegt, að gildistaka laganna skuli bíða nærri því til loka næsta árs. Manni virðist þess vegna, að það sé einkar ástæðulítið að setja svona lagaðar reglur, þar sem næsta þing verður háð á komandi hausti og meira en nægur tími væri þá til þess að koma slíkrí löggjöf í gegn á því þingi og láta taka gildi ekki síðar a. m. k. en hér er ráð fyrir gert í frv. Ég vil ekki mótmæla því, að ástæða sé til að athuga þau lagafyrirmæli, sem lúta að brunavörnum utan Reykjavíkur. Það er fjarri mér. En mér þykir einkennilegur háttur á hafður um þessi vinnubrögð. Hví má ekki ljúka þessum störfum það tímanlega, að í byrjun næsta þings sé hægt að setja löggjöfina og láta hana taka gildi við næstu áramót? Það virðist í alla staði eðlilegt, og nægur tími til athafna um endurskoðun laganna, lagasetningu, ef endurskoðun sýnir, að á henni sé þörf, og það væri á allan hátt viðfelldnara fyrir Alþ. sjálft að viðhafa þau vinnubrögð.

Ég ætla, að þetta séu alveg ný vinnubrögð hjá Alþ., að setja löggjöf, sem ekki á að taka gildi fyrr en eftir að talsvert mikið er liðið á annað ár frá því að lögin eru sett. Það á að kjósa nefnd samkvæmt 5. gr. frv., 5 manna nefnd til athugunar á þessum málum, og nefndin á að ljúka störfum, sem ég tel í alla, staði eðlilegt, fyrir næsta Alþ., svo að slíkri vinnu er ekki slegið á frest. En þessu takmarki er ofur auðvelt að ná, án þess að lög séu sett. Það þyrfti ekki annað en ályktun Alþ. um nefndarskipun og ákvarða henni þetta verkefni, og þá virðist mér sem tilganginum sé gersamlega náð, nákvæmlega eins miklum og góðum og verða má eftir ákvæðum þessa frv., en á allan hátt viðfelldnara finnst mér fyrir Alþ. sjálft að viðhafa þau vinnubrögð, en ekki taka nú upp nýjan hátt. Ég held, að ég muni það alveg rétt, að það finnist ekki fordæmi fyrir því í Alþ., að þessi háttur sé á hafður. Ég ímynda mér, að það sé gersamlega ágreiningslaust hér meðal þingsins um, að athugun á þessum málum fari fram, og ályktun frá Alþ. mundi þess vegna ná hindrunarlaust samþykki, og þá sýnist mér sem engu sé sleppt, en þetta við það unnið, að þingið fer hér ekki að taka upp ný vinnubrögð, fremur óviðfelldin, virðist mér. Mér væri þökk á, ef einhver hv. deildarmaður getur bent mér á hliðstætt dæmi þessu úr okkar þingsögu.

En þessu, sem ég er nú að tala um, mundi náð, a. m. k. hvað formið áhrærir og vinnubrögðin, ef brtt. okkar er samþ. Það er miklu viðfelldnara að hafa þann háttinn á, og er gersamlega útlátalaust fyrir Alþ. einmitt að viðhafa þau vinnubrögð. Ég vil því mega vænta, að þannig sé ekki ástatt um þetta mál hér meðal hv. þm., að þeir endilega þurfi nú að knýja þetta fram með hálfgerðum ósköpum, svo að þessu formi á frv. eins og er megi nú alls ekki hagga. Ég skil ekki eiginlega, hvað getur vakað fyrir hv. þm. með þessu. Með mínum bezta vilja botna ég ekkert í þessu. Það kann að vera einhver annarlegur skilningur, venjulegum mönnum óskiljanlegur, en þá væri mér þökk á, að ástæðurnar væru dregnar fram, svo að maður mætti þá öðlast skilning á þessari náðargáfu, sem þeim er gefin, sem hafa ráðið þessari lagasetningu.