12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Emil Jónsson:

Herra forseti. Í þeim umr., sem hér fóru fram fyrir stuttu um brunatryggingar í Rvík og brtt. hv. 11. landsk., sem talaði hér síðast, sem hann bar fram við það frv. og fór í þá átt að gefa öllum kaupstöðum og kauptúnum á landinu trygginguna frjálsa hjá hverjum sem þeir vildu, var því haldið fram, að þessi till. helgaðist af því, að iðgjöld Brunabótafélags Íslands væru svo hlutfallslega miklu hærri en iðgjöldin í Rvík, að við það væri ekki lengur unandi. Nú hafa komið fram í skýrslu frá Brunabótafélagi Íslands upplýsingar, sem algerlega afsanna þetta, eins og hv. frsm. meiri hl. allshn., hv. þm. Siglf., las hér upp áðan, þar sem hann sýndi fram á það, að tjónin hjá Brunabótafélagi Íslands utan Rvíkur hafa á tilteknu árabili verið meira en helmingi hærri en tjón þau, sem orðið hafa í Rvík á sama tíma, og iðgjaldið hjá Brunabótafélagi Íslands, meðaliðgjaldið á þessu tímabili, hefur verið tæplega helmingi hærra en meðaliðgjaldið í Rvík. Það er þannig komið á daginn, að samanborið við brunatjónin er tryggingariðgjald Brunabótafélags Íslands sízt hærra en iðgjöldin eru hér í Rvík.

Þessi till. hv. 11. landsk. þm., sem fór fram á að taka tryggingarnar nú í einu vetfangi og að óathuguðu máli af Brunabótafélagi Íslands og gefa þær frjálsar, ber í sér hættu. Og það er þess vegna, sem bæði ég og aðrir erum því andvígir, að hún verði samþykkt eða einhver tilsvarandi ákvæði. Hún ber í sér þá hættu, að ef í þetta verður hlaupið að óathuguðu og óyfirveguðu máli, þá geti tryggingarnar skipzt á svo marga aðila, að tryggingariðgjöldin hjá hverjum einstökum hækki frá því, sem þau þyrftu að vera, ef þau væru í einni heild. Þetta er mín ástæða fyrir því, að ég hef verið á móti till. hv. þm., og þetta hygg ég að einnig sé ástæða margra þeirra, sem á móti tilsvarandi aðgerðum eru.

Nú hefur komið fram hér frv. um brunatryggingar utan Rvíkur, sem hér liggur fyrir til umr. og gerir ráð fyrir að vísu, að þetta frelsi fáist, en að lög Brunabótafélags Íslands verði í millitíðinni endurskoðuð og athugaðir möguleikar, að mér skilst, til þess að samtrygging geti náðst og að sveitarfélögin og bæjarfélögin úti um land geti fengið aðstöðu til þess að hagnýta sér þá kosti eða þá ábatavon, eða hvað maður vill kalla það, að geta haft samflot um tryggingarnar. Til þess að geta gert þetta er nauðsynlegt að hafa einhvern aðdraganda að framkvæmd málsins. Þess vegna er í frv. sett það ákvæði, að heimildin taki ekki gildi fyrr en frá 15. okt. 1955.

Nú hefur komið hér fram brtt. frá minni hl. hv. allshn., frá þeim hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Dal., um það, að þetta tímatakmark verði fært fram um eitt ár, til 15. okt. 1954, en ég vil leyfa mér að benda á það, að ef þessi brtt. verður samþ., þá nær ekki sú hlið frv., sem að endurskoðun laga Brunabótafélagsins snýr, tilgangi sínum. Í frv. er gert ráð fyrir, að það verði kosin fimm manna nefnd til að endurskoða lög um Brunabótafélag Íslands og önnur lagafyrirmæli um brunamál utan Rvíkur. N. kýs sér formann, segir í gr., og skal ljúka störfum það snemma, að unnt verði að leggja frv. um þetta efni fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Hv. 1. þm. Árn., sem talaði hér síðast, er náttúrlega þingvanur maður og miklu þingvanari en ég sjálfsagt og á lengri setu að baki, en hann var að lýsa eftir því, að hér hefðu áður verið samþ. lög í svipuðu formi og þetta. Ég tel mig ekkert sjá óvenjulegt við það, þó að eitt ákvæði frv. sé tímabundið. Lögin taka gildi strax, eftir því sem í frv. segir. Í 6. gr. frv. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ En eitt ákvæði laganna tekur ekki gildi fyrr en 15. okt. 1955, þ. e. a. s. heimild kaupstaðanna og sveitarfélaganna til þess að taka tryggingarnar frjálsar. En mér finnst þetta eðlilegt vegna þess, að það hlýtur að verða nokkur aðdragandi að því, að málið geti komizt þetta horf. Nú er n. sett samkv. ákvæðum 5. gr. frv., og hún tekur til starfa, skulum við segja, nú þegar, vinnur sitt starf í sumar og leggur niðurstöðuna af sínu starfi fyrir næsta þing, 9. okt. n. k., og ég hef enga trú á því, að Alþingi verði búið að ganga frá þeim málum fyrir 15. okt. En þannig hagar til, að tryggingaár Brunabótafélags Íslands er frá 15. okt. til 15. okt. Iðgjaldagreiðslan 1953, að ég ætla, mun gilda frá 15. okt. 1953 til 15. okt. 1954, og á sama hátt gildir sú iðgjaldagreiðsla, sem fellur í gjalddaga 15. okt. 1954, til 15. okt. 1955, þannig að frv. er miðað við fyrsta lausan gjalddaga hjá Brunabótafélagi Íslands, eftir að þessi væntanlegu lög Alþingis taka gildi. Ég sé ekki, að á þessu sé hægt að hafa annan hátt, nema því aðeins að búið verði að ganga frá lögum um endurskoðunina fyrir 15. okt. 1954 og það sé ég ekki hvernig á að takast, ef þingið kemur ekki saman fyrr en 9. okt., nema þá kannske ef flm. ætlast til þess, að farið verði yfir í einhverja stutta nauðungartryggingu, eins og varð að gera hér í Rvík, þar sem ekki var búið að afgr. lögin þegar tryggingartímabilið rann út og ekki var hægt að fá lögin afgreidd nægilega fljótt til þess, að málið væri sett á varanlegan grundvöll nógu snemma, svo að bæjarstjórn Rvíkur neyddist til þess að taka upp stutta tryggingu, aðeins til þess að firra vandræðum.

Mér finnst, að þetta ákvæði frv. sé mjög eðlilegt og ekkert við því að segja, því að það er rangt að rugla þessu saman, heimild til einstakra framkvæmda við gildistöku laganna. Lögin taka gildi strax, eins og segir í 6. gr., og n., sem lögin gera ráð fyrir, tekur væntanlega það fljótt til starfa, að hún geti lokið afgreiðslu síns máls áður en næsta þing kemur saman og þingið svo tekið málið fyrir þá til úrlausnar, þegar n. hefur lagt fram niðurstöðuna af sínu starfi.

Ég var því andvígur, þegar frv. um brunatryggingar í Reykjavík var hér til umræðu, að samþ. till. hv. 11. landsk., og ég hef sannfærzt um það enn betur síðan, að það mundi hafa verið vanhugsað flan að hlaupa út í að gera það að óathuguðu máli algerlega og mundi ef til vill hafa getað leitt af sér hækkun iðgjalda í staðinn fyrir meinta lækkun.

Ég tel eftir atvikum, að málum sé sæmilega vel skipað, ef þetta frv. verður samþ. eins og það liggur fyrir og með óbreyttri tíðarákvörðun á heimildinni til þess að losna við Brunabótafélagið, eins og í frv. segir, 15. okt. 1955. Ég tel, að tíminn til 15. okt. 1954 mundi verða of skammur til að undirbúa málin nægilega vel, og vildi þess vegna leggja til, að sú brtt., sem fer fram á þá dagsetningu, verði felld, en haldið við það, sem frv. segir. Það er margt í þessum málum, sem þarf að athuga. Iðgjöldin ein gefa engan veginn nægilegar upplýsingar um það, hvað heppilegast er að gera í þessu sambandi. Það þarf miklu fleira að taka til athugunar, og það er nauðsynlegt að taka til þess nokkuð góðan tíma og samninga, jafnvel á milli sveitarfélaga, til þess að þau geti þá innbyrðis haft nokkuð mörg samflot um sína tryggingu, því að það tel ég allra líklegast til góðs árangurs, til viðbótar við bættar brunavarnir, að eins mörg sveitarfélög og bæjarfélög og mögulegt er geti komið sér saman um að tryggja hjá sama aðila. Það er aðalatriði málsins.