12.04.1954
Neðri deild: 90. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég hirði nú ekki að pexa mikið við hv. 11. landsk. (LJós) um þetta efni, því að þetta er mest endurtekningar á því, sem áður hefur verið sagt og þarf ekki mörgum orðum að að eyða.

Hann sagði, að ég hefði ekki gert tilraun til að hrekja það, að iðgjöldin hjá Brunabótafélaginu væru ekki hærri en í Reykjavík að tiltölu við tjón. Þetta þarf ég ekki að gera í sjálfu sér, því að í nál. á þskj. 771, sem fylgdi þessu frv. í hv. Ed., er þetta gert svo rækilega, að það þarf engu við að bæta þessu nál. er prentuð sem fylgiskjal skýrsla Brunabótafélags Íslands, og í þeirri skýrslu segir á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árunum 1944–1953 greiðir vátryggingarfélag það, sem hefur brunatryggingar húseigna Reykjavík, 7.2 millj. kr. í bætur, en Brunabótafélag Íslands greiðir á sama tímabili 16.9 millj. Nú eru vátryggingarverðmætin mjög áþekk í Reykjavík og utan Reykjavíkur, eða 2.9 milljarðar í Reykjavík, en 2.5 milljarðar utan Reykjavíkur. Sést á þessu, hve tryggingar utan Reykjavíkur eru miklu áhættumeiri .“

Svo segir enn í þessari skýrslu: „Meðaliðgjald í Reykjavík er 1.24‰ en utan Reykjavíkur 2.61‰.“

Með öðrum orðum: „Hlutföllin milli brunatryggingariðgjaldanna eru mjög nálægt því að vera þau sömu og hlutföllin milli tjónanna, en eins og ég tók fram í minni ræðu hér um daginn og eins og raunar allir vita, þá er það, sem verður að leggja fyrst og fremst til grundvallar við ákvörðun iðgjaldanna, hvað tjónin á hverjum stað eru mikil eða hvað tjónin eru í heild á hinu sameinaða áhættusvæði.

Nú getur það líka komið fyrir, eins og segir í þessari sömu skýrslu Brunabótafélagsins, sem prentuð er á þessu sama fylgiskjali, að það séu einstakir staðir, þar sem tjónabæturnar verða miklu meiri en hér segir hlutfallslega. Þar er nefndur einn staður, þar sem tjónin á einu ári voru 20-föld iðgjöldin. Hvernig hefði farið fyrir þeim stað, ef hann hefði verið tekinn út úr samhengi og vátryggður sérstaklega? Ætli hann hefði ekki orðið að hækka sín brunabótaiðgjöld með þessum sköðum, sem þar urðu? Ég hygg það. En að hægt er að halda iðgjöldunum á svona stöðum niðri eins og gert hefur verið, helgast náttúrlega af því, að skaðarnir eru minni annars staðar, þannig að útkoman í heild verður sú, sem segir í skýrslu félagsins og ég las hér upp áðan. En sú tjónaupphæð í heild verður auðvitað sú tala, sem iðgjöldin á hverjum tíma verða að miðast við. Í skýrslunni kemur það fram, að tjónabæturnar í heild utan Reykjavíkur hafa numið um það bil helmingi hærri upphæð en brunatjónið í Reykjavík af svipuðu verðmæti, og þess vegna er ekki óeðlilegt, að brunabótaiðgjöldin séu þess vegna hjá Brunabótafélagi Íslands nokkru hærri en þau eru í Reykjavík.

Það dæmi, sem hv. þm. nefndi áðan og hann hefur raunar áður nefnt við umr. hér um daginn, um hlutföllin á milli greiðslnanna í Reykjavík eftir hinu nýja tilboði og svo ýmissa iðgjalda úti um land, er alveg út í hött, því að þessi iðgjöld samkvæmt hinu nýja tilboði eiga ekki að mæta öllum kostnaði tryggingarfélagsins. Þar er gert ráð fyrir, að Reykjavíkurbær taki að sér verulegan hluta starfseminnar, eins og innköllun brunabótafjárins og annað þess háttar. Eins og segir í skýrslu Brunabótafélagsins, er það að bera þetta saman eins og að bera saman innkaupsverð hjá einni verzlun og smásöluverð hjá annarri. Þessar tölur eru alls ekki sambærilegar. Hins vegar hef ég nefnt dæmi fyrir því hér áður í umr., að á sumum húseignum eru iðgjöldin þegar hjá Brunabótafélagi Íslands lægri en þau eru nú í Reykjavík á sams konar fasteignum. Það er líka til.

Ég held, að þegar allt er krufið til mergjar, bæði áhættan, sem Brunabótafélag Íslands verður að tryggja og er miklu meiri utan Reykjavíkur en í Reykjavík, þegar enn er tekið tillit til endurgreiðslna þeirra, sem Brunabótafélag Íslands hefur látið af hendi til ýmissa sveitarfélaga, og þegar loks er tekið tillit til þess, að brunavarnir í Reykjavík eru miklu fullkomnari en þær eru víða úti um land, þá sé ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að hlutfallið í brunabótaiðgjöldunum sé miklu hagstæðara fyrir kaupstaðina en það er nú. Þeir eiga allir kost á því, kaupstaðir og sveitarfélög, að semja um lækkanir hjá Brunabótafélagi Íslands, ef þeir taka upp bættar brunavarnir, og Brunabótafélag Íslands hefur hjálpað til þess, að það væri gert, og ég vænti, að á þann hátt verði unnt fyrst og fremst að koma gjöldunum niður.

Ég tel svo ekki neina ástæðu til að fara um þetta atriði fleiri orðum, en aðeins nokkur orð langar mig til að segja við hv. 1. þm. Árn. (JörB), út af hans — ja, ég vil segja allt að því merkilegu afstöðu til þessa máls.

Hann var að reyna að halda því fram, að það mundi nú takast á tímabilinu frá 9. okt., að Alþ. á að koma saman, og til 15. okt. sama ár, sem hann vill láta þessi ákvæði ganga í gildi, að ganga svo frá lögunum og ljúka afgreiðslu málsins hér á þingi, að það mætti leggja til grundvallar fyrir þessu frv. Ég held, að hann gerist nú þarna ákaflega bjartsýnn og ég vil ekki segja mæli þar móti betri vitund. Ég leyfi mér að efast um, að hann trúi því sjálfur, að þetta sé hægt. Vil ég þar til nefna, hvernig gekk að koma í gegn frv. um brunatryggingar í Reykjavík, sem hér var borið fram, að ég ætla, nokkuð snemma í marzmánuði, en við það frv. eru svo bornar fram algerlega óskyldar brtt. af hv. 11. landsk. o fl., sem urðu til þess, að málið dregst svo á langinn, að það er ekki hægt að ljúka því fyrir 1. apríl, þegar tryggingar bæjarins renna út. Ég leyfi mér að láta í ljós þá skoðun, að mér þætti það ekki ólíklegt að minnsta kosti, að það mundi taka meira en þessa viku, sem væri til stefnu frá setningu Alþ. og til 15. okt., að ljúka málinu.

Hitt atriðið, um gildistökutímann, þar sem hv. þm. sagði, að ég held, að það vantaði fordæmi fyrir því og hann sinni löngu þingsögu myndi ekki eftir því, að eitthvert efnisatriði laga væri ákveðið að taka gildi síðar en lögin sjálf taka gildi. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm.? Nei. Það er nefnilega ekki allt efni laganna. Það segir í lögunum í 6. gr., að lögin taki gildi þegar í stað. Síðan vil ég gera ráð fyrir, að nefndin taki til starfa og undirbúi málið og síðan verði því hraðað eins og hægt er. En þó að því verði hraðað eins og hægt er, þá efast ég samt um, að það verði búið að ljúka því fyrir næsta fjárhagsár Brunabótafélags Íslands, sem byrjar 15. okt. Ég tel þess vegna vafasamt og næstum því að segja ómögulegt að ljúka afgreiðslu þess fyrir þann tíma. En að þetta sé óalgengt í lögum, að aðalatriði málsins sé frestað eða séu sett einhver tímatakmörk, það held ég að væri hægt að leggja mörg dæmi um fyrir hv. þm. Ég vil t. d. spyrja hann, hvernig það hafi verið, þegar bannlögin voru afgreidd á sínum tíma? Mér er sagt að þau hafi verið afgreidd 1909, en hvenær tóku þau gildi og hvenær komu þau til framkvæmda? Hv. þm. gæti kannske upplýst mig um það? Mig minnir, að það hafi verið lengra tímabil en þetta, sem þar bar á milli. (Gripið fram í.) Já, ég get það líka, ef hv. þm. óskar þess. Þau tóku gildi 1912, eða þrem árum síðar en þau voru samþ. (Gripið fram í.) Ekki 1912. Eftir 1912. En að fullu komu þau ekki til framkvæmda fyrr en 1915. Það var svo aftur önnur saga. En hitt er annað mál, að þetta mun ekki vera neitt einsdæmi. Það munu finnast mörg dæmi í lögum fyrir því, að það séu sett ákveðin tímatakmörk fyrir ýmsum þáttum málsins, og ekkert nýtt í því, að það sé gert hér.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en ég vildi vona, að málinu yrði ekki stefnt í tvísýnu með því að samþ. þessa brtt. hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Dal. um að færa gildistökuákvæðið eitt ár fram, því að þá er till. orðin nákvæmlega eins og till. hv. 11. landsk. var hér áður. Hún miðaðist við, að þetta væri gert strax eða að það væri strax gefin frjáls vátrygging bæjanna, sem þó náttúrlega hefði ekki getað komið til framkvæmda fyrr en 15. okt. 1954, vegna þess að öll bæjarfélög og tryggjendur víðs vegar um land eru bundin til þess tíma, svo að þetta er nákvæmlega sama tímatakmarkið, og hv. 11. landsk. gerði ráð fyrir í sinni till.