07.10.1953
Efri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

14. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem hér er lagt fram, er um staðfestingu á brbl., sem gefin voru út við alþingiskosningarnar í sumar, og efni þess er að tryggja, að sem minnstur ruglingur verði á listabókstöfum þeim, sem listar frambjóðenda við alþingiskosningar eru merktir. Ákvæði laganna, eins og þau voru, miðuðu að því, að í hlutbundnum kosningum væri sem föstust skipun á þessum bókstafsmerkingum, og var í því skyni tekið upp, að flokkarnir skyldu merktir eftir stafrófsröð. Nú í sumar buðu hins vegar tveir flokkar til viðbótar fram við alþingiskosningar umfram það, sem áður hafði verið, og mundi það hafa leitt til þess, ef ekki hefði verið að gert, að nokkur ruglingur hefði komizt á þá skipan, sem um þetta hafði staðið nokkur ár í framkvæmd. Það þótti því eðlilegast og í beztu samræmi við tilgang löggjafans að setja um þetta þá reglu, sem brbl. ákváðu, sem sagt, að þegar úrskurðað er, hverjir landslistar verða í kjöri, merkir landskjörstjórnin landslista hinna eldri flokka sama bókstaf og þeir höfðu síðast og landslista nýrra flokka í áframhaldandi stafrófsröð eftir þeirri röð, er heiti þeirra stjórnmálaflokka verða í, er þeim er raðað í stafrófsröð. Í samræmi við þetta eru svo önnur ákvæði í lögum, sem leiða til sams konar merkingar á slíkum listum í einstökum kjördæmum.

Ég hygg, að þetta litla frv. eða ákvæði þess horfi heldur til bóta. Það má segja, að það skipti ekki miklu máli, en það miðar að því að koma í veg fyrir rugling, sem allir hljóta að hafa áhuga fyrir að geti ekki átt sér stað. Ég vonast því til, að frv. nái fram að ganga og verði samþ. á þinginu, þannig að þessi skipan komist á, því að hún er betri til frambúðar en sú, sem áður var. —. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allshn.