26.02.1954
Neðri deild: 54. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

155. mál, landamerki o. fl.

Flm. (Björn F. Björnsson):

Herra forseti. Mál út af merkjum landa hafa verið, svo sem alkunna er, um aldir og eru enn í dag mjög tíð fyrir dómstólum í landi hér. Til þess liggja ýmsar orsakir og sumar næsta eðlilegar, en eigi þykir mér ástæða til þess að rekja þær hér í sambandi við það málefni, sem liggur fyrir til umræðu.

Um meðferð landamerkjamála hefur gilt sérstök löggjöf, nú lög nr. 41 frá 1919 og lög nr. 40 frá 1927, og er hún í ýmsu tilliti frábrugðin hinni venjulegu meðferð einkamála. Þessi afbrigðilega tilhögun er byggð á séreðli þessa málaflokks. Úrslit í merkjamálum eru t. d. tíðast svo tengd staðháttum, örnefnum, landsnytjum o. fl. af slíku tagi, að löggjafanum hefur þótt nauðsynlegt að kveða svo á, að merkjadómendur (en landmerkjadómur er skipaður 3 dómendum) skuli ganga á vettvang og athuga um staðfræðileg efni máls, svo sem framast er kostur. Telur löggjafinn þannig, að ekki sé ætlandi, að án merkjagöngu takist nægilega vel til um niðurstöðu efnisdóms, og er það auðvitað alveg rétt. Hins vegar hefur löggjafinn ekki gert sérstaklega ráð fyrir því, — og er það að vonum á þeirri tíð, sem lögin voru sett, — að æðra dómi væri kleift að ganga á vettvang og kynnast, eins og merkjadómur í héraði, málefninu af eigin raun. Þess vegna hefur æðri dómur verið bundinn af sérstakri lagareglu í þessum málum, sem takmarkar vald hans þannig, að honum er annað tveggja heimilt, í fyrra lagi að staðfesta merkjadóm að fullu, eins og hann kann að liggja fyrir hverju sinni, eða að öðrum kosti fella merkjadóminn úr gildi og vísa honum frá til upptöku að nýju í héraði. Hið þriðja leyfist æðra dómi ekki, nefnilega að breyta merkjadómi svo sem æðra dómi kynni að þykja réttast og lúka þar með málinu án frekari aðgerða eða heimsendingar í hérað. Hér er því mjög á annan veg farið um vald æðra dóms og afstöðu til dómsefnis en venja er til. Í þessum málum er æðri dómur, hæstiréttur, svo kallaður kassasjónsdómstóll. Geti hann ekki fallizt þegar á niðurstöðu merkjadóms, er honum einn kostur sá að ómerkja dóminn, hversu smávægilegt sem það kann að vera, sem áfátt er, og málinu er vísað heim í hérað til meðferðar að nýju. Að binda þannig hendur æðri dóms var eðlilegt og réttmætt á fyrri tímum, þá er hæstiréttur Dana var efsta dómstig vort, og yfirrétti landsins í Rvík hlaut að vera erfitt um vik til vettvangsgöngu, en uppdrátta af þrætulandi jafnan vant. Hvor tveggja dómurinn hlaut að hafa takmarkaða yfirsýn um kjarna málsins, hið staðfræðilega dómsefni.

Nú horfir aftur á móti öðruvísi við. Hæstiréttur hefur oftsinnis gengið á vettvang í merkjamálum og öll aðstaða til ferðalaga svo breytt, að fá eða næstum engin mál ættu þau fyrir að koma og merkjadómur hefur færi til merkjagöngu í, að hæstiréttur geti ekki komizt á staðinn, ef honum þykir þess þörf. Þannig er algerlega úr sögunni undirstaða þessa sérstaka ákvæðis um meðferð merkjadóma fyrir hæstarétti.

Í frv. á þskj. 396 er lagt til, að þessi sérstaka meðferð merkjamála fyrir hæstarétti verði niður felld og að um þau mál fari þar sem almenn einkamál, þannig að hæstiréttur hafi færi þess að breyta merkjadómi svo sem réttast þykir, eins og nú er um aðra dóma, sem til hæstaréttar ganga. Er þá haft fyrir augum, að hæstiréttur gangi á merki, ef hann telur sig ekki án merkjagöngu geta kveðið upp efnisdóm. Að vísu kann það að henda, að hæstiréttur teldi sig ekki geta farið á vettvang, er slíks væri að hans áliti þörf, og færi þá í þeim tilfellum — sjálfsagt mjög fáum — um málið eftir venjulegum reglum, er nauðsynlegra upplýsinga úr héraði er vant. Við þessa breytingu, ef að lögum yrði, vinnst margt. Oftlega hafa merkjamál horfið heim í hérað fyrir efni eða atvik, sem hæstiréttur hefði annars fært með hægu móti í réttara horf og þannig lokið endanlega máli, ef eigi hefði núgildandi lagaákvæði staðið í vegi. Það hefur komið fyrir, að sama merkjamálið hafi jafnvel þrisvar sinnum verið sent heim í hérað fyrir missmið, sem hæstiréttur taldi ekki á færi sínu að lagfæra öðruvísi en með heimsendingu.

Merkjamál eru æði tafsöm í meðförum yfirleitt og því langvinn og hafa þar af leiðandi mikinn kostnað allajafna í för með sér, og á þennan kostnað auka eigi svo litið heimsendingar máls í hérað að nýju, stundum af litlu tilefni, en jafnan af óhjákvæmilegri nauðsyn vegna úrelts lagaákvæðis.

Þá má og geta þess, að merkjamál eru tíðast sótt og varin af hinu mesta kappi og tilfinningahita meiri en jafnvel þekkist í öðrum málaflokkum. Er af þeirri sök eigi síður ástæða til þess að lúka þeim í héraði á sem skemmstum tíma sem unnt er og þannig, að eigi séu framar en í öðrum málum veruleg líkindi til þess, að þangað berist þau að nýju frá hæstarétti, nema bresti á um almenna meðferð í héraði eða atvik eru þess konar, sem í öllum málum geta verið valdandi heimsendingu máls.

Þau atriði, sem hér hafa lauslega verið rakin, benda flutningsmönnum þessa frv. til þess, að afnema beri þetta ákvæði í reglum laga um meðferð merkjamála í héraði og taka beri upp hina almennu meðferð einkamála að því er merkjamái varðar að þessu leyti. Er það von flm. þessa frv., að merkjamál eigi þá greiðari gang til skjótra úrslita með minni kostnaði, fyrirhöfn og ýmiss kyns óþægindum en ella, og sýnist þá vel farið.

Þá er í frv. lagt til, að nokkrum ákvæðum l., sem telja má úrelt nú, verði breytt til samræmis við gildandi fyrirmæli laga um meðferð einkamála í héraði, en ekki þykir mér ástæða til að ræða það nánar. Mér finnst það eðlilegt og sjálfsagt.

Breytingarnar samkv. frv. verða þá þessar: Að 14. gr. orðist þannig, að merkjamál sæti, að öðru leyti en því sem í lögunum greinir, þ. e. a. s. landamerkjalögunum, hinni venjulegu meðferð einkamála í héraði. Um fresti og annað þess háttar eru nú rækilegar reglur í lögum um meðferð einkamála í héraði frá 1936, og er engin ástæða til þess að halda í þessi gömlu ákvæði, sem ekki eru praktíseruð lengur. En mergur máls þessa frv. er sá, ef það nær að verða að lögum, að þá mun hæstiréttur þess umkominn að breyta landamerkjadómum eins og hann gerir, ef honum sýnist svo, um aðra dóma, og er þá héraðsdómur í flestum tilfellum laus við slík mál, þá er hann hefur kveðið upp sinn dóm. Við flm. teljum, að það vinnist töluvert með þessari lagabreytingu, og væntum þess, að hv. alþm. taki þessu frv. vel.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál á þessu stigi nánar, en vil fara þess á leit við hæstv. forseta, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.