13.04.1954
Efri deild: 88. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

155. mál, landamerki o. fl.

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefur áfrýjun landamerkjamála þegar frá því að landamerkjalögin 1882 voru sett verið með öðrum hætti en áfrýjun annarra einkamála. Við áfrýjun venjulegra einkamála kveður hæstiréttur upp endanlegan dómmálinu. En þó að hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu í landamerkjamálum, að undirréttardómurinn sé skakkur, og jafnvel þó að glöggt sé, hvernig niðurstaða hans eigi að vera, þá hefur hann ekki vald til þess að kveða upp efnisdóm, heldur verður þá að heimvísa málinu til uppkvaðningar nýs dóms í héraði. Að vísu er það þannig, að hæstiréttur gefur venjulega í forsendum sínum leiðbeiningar um, hvernig sá dómur eigi að vera, en allt um það getur hann ekki breytt sjálfstætt undirréttardóminum.

Þetta ákvæði hefur sjálfsagt í fyrstu verið tekið upp í l. vegna þess, að löggjafanum hefur þótt, að það væri nauðsynlegt, að dómendurnir, sem kvæðu upp dóma í málunum, hefðu staðarþekkingu. En auk þess mun það að nokkru leyti hafa haft áhrif við lagasetninguna frá 1882, að verið var þá að draga málaflokka undan hæstarétti Dana, því að landsyfirdómurinn var gerður að æðsta dómstól í landamerkjamálum. Af þessu hefur að sjálfsögðu oft leitt aukinn kostnað, sem ekki hefði komið til greina, ef hæstiréttur hefði verið bær um að kveða upp efnisdóma í þessum málum eins og öðrum málum öðruvísi en undirréttardóminn.

Nú eru aðstæður viðvíkjandi þessu mjög mikið breyttar, sérstaklega vegna miklu nákvæmari kortagerðar og ljósmynda, þannig að engin ástæða er til þess, að ekki gildi sama regla um uppkvaðningu hæstaréttardóma í þessum málum eins og öðrum. Þetta hefur valdið því, að tveir af undirdómurum landsins, sem eiga sæti í hv. Nd., hafa borið fram frv. þess efnis, að meðferð merkjamála fyrir hæstarétti skuli lúta hinni venjulegu meðferð einkamála.

Frv. þetta hefur verið sent til umsagnar hæstaréttar og lagadeildar háskólans. Fjórir dómarar af fimm í hæstarétti leggja til, að þessi breyting verði lögfest, en einn bendir á það, að almenn endurskoðun einkamálalaganna sé nú í höndum þar til skipaðrar n., og telur, að það sé ekki brýn nauðsyn á að fá þessa breytingu í gegn fyrr en við almennari endurskoðun laganna. Lagadeild háskólans leggur til, að frv. verði samþ., og telur það til bóta.

Á fundi allshn., sem haldinn varnótt, þar sem allir nm. voru viðstaddir nema hv. 1. þm. N-M. (PZ), kom n. sér saman um að leggja til við d., að frv. verði samþ. Þó að það hefði kannske mátt segja, að það gæti beðið eftir afgreiðslu n. á einkamálalögunum, þá geta alltaf verið einhver mál gangandi í þessum efnum, sem breytingin gæti sparað kostnað við.

Ég vildi f. h. nefndarinnar leyfa mér að leggja til við hv. d., að hún samþ. frv.