16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2143)

129. mál, atvinna við siglingar

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki miklu við álit minni hl. sjútvn. að bæta, en hv. meiri hl. n. hefur nú, að fengnum umsögnum fimm aðila, Skipaútgerðar ríkisins, Eimskipafélags Íslands, skipadeildar S. Í. S., Vélstjórafélags Íslands og Félags ísl. rafvirkja, lagt til, að frv. mitt á þskj. 318 verði fellt. Ég tel þó rétt að láta það koma fram, að ekki hafa verið hrakin með umsögnum þessara aðila meginákvæði frv. um, að nauðsyn beri til, að maður með sérþekkingu annist öll störf um viðhald eða gæzlu raflagna á skipum í millilandasiglingum yfir 1000 tonn, ekki síður en á sér stað um þennan iðnað í landi. Hins vegar greinir mig og Félag ísl. rafvirkja annars vegar og skipafélögin og vélstjórafélagið hins vegar á um það, hvort sjö mánaða nám vélstjóraskólans, sem er þó að mínu áliti einungis ætlað til þess, að vélstjórar geti annað þessum störfum þar, sem rafvirkjar verða ekki ráðnir til starfa, á öllum skipum undir 1000 tonnum, eða fjögurra ára nám rafvirkja sé betri undirstaða undir þetta starf á skipunum. Ég held því enn fram, að þetta starf við rafmagnskerfi skipanna sé nú þegar orðið svo viðamikið, að full þörf sé á fulllærðum rafvirkja til þess að annast það. En ég mótmæli jafnframt því, sem fram kemur í áliti vélstjórafélagsins, að ég með því sé á nokkurn hátt að kasta rýrð að starfi og námi okkar ágætu vélstjóra. Hér er að mínu áliti einungis um framþróun og nýskipun mála að ræða, samfara því að aukin tækni er — öllum til mikillar ánægju — tekin í notkun á okkar glæsilega skipaflota.

Þessi framþróun verður ekki flúin með því að vísa frv. á þskj. 318 frá. Þeir dagar munu koma, að ákvæði frv. verða tekin upp í íslenzk lög í einhverri mynd. Það mun reynslan leiða í ljós, jafnvel þó að ýmsa skorti í dag framsýni til að sjá nauðsyn þess.

Ég vil þó að lokum þakka hv. sjútvn. fyrir rösklega afgreiðslu málsins og tel það sannarlega eftirbreytnivert fyrir aðrar nefndir þingsins. Ég legg hins vegar til, að farið verði að áliti minni hl. nefndarinnar, hæstv. 5. landsk., og frv. verði samþykkt.