30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

23. mál, uppsögn varnarsamnings

Flm,. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það hafa legið fyrir Sþ. tvær till. í sambandi við þessi mál, út af hernáminu. Hvorug þeirra till. er fullkomlega afgreidd enn þá. Ég hafði ásamt samflokksmönnum mínum í þessari d. flutt þetta frv. allsnemma á þinginu, og forseti hafði að minni ósk látið það bíða. Ég hafði gjarnan viljað sjá, hvernig reiða mundi af þeim þáltill., sem þó gengu skemmra en þetta frv. okkar. Það er nú þegar auðséð, að fara mun fyrir þeim svipað og fór fyrir sams konar frv. og þessu í fyrra, þannig að ég þóttist vita, að ekki mundi liggja mikið á að láta það fá sömu meðferð, meðan allt er hér enn óbreytt. Ég flutti þá og við fleiri sósíalistar frv. sama efnis og þetta. Það var fellt við 1. umr. og fellt frá n. á síðasta þingi. Ég vil hins vegar reyna að fara nokkrum orðum, þótt ekki verði mörgum, um þetta mál, eins og mér finnst það standa nú, því að ekki er því að neita, að margt hefur breytzt frá því, að við vorum að ræða þessi mál fyrir ári, svo að ég ekki tali um þær breytingar, sem orðið hafa á þeim fimm árum, sem liðin eru nú í dag frá því að hv. Alþ. samþ. að ganga í Atlantshafsbandalagið, og ég býst við, hvort sem hv. þm., sem því fylgdu þá, fást til þess að viðurkenna það eða ekki, að þá muni þó ekki vera fjarri, að margir þeirra séu farnir að sjá, að þeir höfðu stígið þar örlagaríkt spor, sem nauðsynlegt er fyrir okkur að reyna að átta okkur á, hvert mundi leiða, ef við hyrfum ekki brott af þeirri braut, sem þá var farið inn á.

Ég býst við, að það muni allmargir af hv. þm. nú viðurkenna með sjálfum sér, að þær viðvaranir, sem við sósíalistar og aðrir, sem stóðu gegn Atlantshafsbandalaginu, og þeir, sem síðar stóðu á móti hernáminu 1951, þá létum í ljós, séu meir og meir að koma fram, enda er auðséð, að ekki aðeins þeim, sem hafa verið andvígir Atlantshafssamningnum og hernáminu, blöskrar nú yfirgangur Ameríkananna í okkar landi, heldur líka mörgum þeim, sem áður voru með þessum samningum. Það hefur þegar sýnt sig í þeirri viðleitni, sem fram hefur komið m. a. af hálfu hæstv. ríkisstj. að reyna að taka upp nokkra samninga við Bandaríkin um þessi mál. Hins vegar er vitað, hvernig þeir samningar ganga, þar sem ekki er farið inn á þá leið að segja fyrst samningnum upp af þeirra hálfu, sem þá máske mundu endurnýja hann, til þess að standa a. m. k. sæmilega að vígi í þeim viðræðum, sem fram færu við Bandaríkin.

Ég ætla hins vegar ekki að eyða fleiri orðum að þeim þætti þessa máls, sem snertir þá óánægju og það, hvernig menn hafa séð, hver hætta vofði yfir. Það hefur svo oft verið rætt áður nú á þinginu. Hitt vildi ég aðeins minnast örfáum orðum á, að þeir þrír samningar, sem gerðir hafa verið og örlagaríkastir hafa orðið, Keflavíkursamningurinn Marshallsamningurinn, Atlantshafssamningurinn og hernámið, hafa allir saman, meira að segja af hálfu þeirra, sem hafa samþykkt þá, verið meira eða minna þvingaðir upp á Íslendinga. Keflavíkursamningurinn var gerður þannig, að Ameríkanar, sem höfðu her hér í landinu, hótuðu að halda þeim her hér í landinu annars. Marshallsamningurinn var gerður þannig, að þáverandi utanrrh. lýsti því yfir, ekki sízt í sambandi við samninginn, sem þá var gerður við Vestur-Þýzkaland, að yfir Íslandi hefði vofað „boycott“ eða eins konar viðskiptaleg einangrun af hálfu Vestur-Evrópuríkjanna, ef sá samningur hefði ekki verið gerður. Og þegar samningurinn var gerður um hernámið, rétt eftir að Kóreustríðið hafði byrjað, var látið líta svo út sem þeir tryðu því, aðalforustumenn stjórnarflokkanna hér, að árás á landið væri yfirvofandi og þess vegna væri alveg óhjákvæmilegt að gripa nú þegar til þess ráðs að kalla amerískan her inn í landið. Í öllum þessum efnum er orðin stórkostleg breyting síðan. Ég býst við, að það sé enginn maður, sem af alvöru mundi halda því fram nú, að það hafi vofað yfir Íslandi á undanförnum árum eða vofi yfir því nú árás af hálfu landa í Evrópu, Sovétríkjanna eða annarra. Hvað Kóreu snertir er nú þegar komið þar á vopnahlé, sem vonandi reynist friður eins og það vopnahlé, sem samið var 1945 og reynzt hefur friður enn sem komið er. Það er þess vegna alveg greinilegt í þessum málum, að þeim, sem hafa fallizt á þessa samninga, hefur ýmist verið hótað eða þeir verið blekktir, svo framarlega sem þeir þora nú sjálfir að horfast í augu við staðreyndirnar, eins og þær blasa við bæði hér heima og erlendis. Það er þess vegna áreiðanlega tími til þess kominn að snúa af þeirri braut, sem gengið var inn á þá, meira eða minna — af því að ég vil ekki ætla þeim mönnum annað en gott í því sambandi, — undir hótunum eða blekkingum. Það er tími til kominn að snúa nú við af þessari braut, ekki sízt þegar við lítum á heiminn og lítum á þau ríki, sem Ísland fyrst og fremst hefur verið ofurselt, Bandaríki Norður-Ameríku, eins og þau standa í dag. Aldrei hefur litið hættulegar út í veröldinni en núna einmitt þessa dagana, sem við ræðum þetta mál hér á Alþingi. Bandaríkin, sem meiri hluti hér á Alþ. leit svo á að væru alveg sérstakur vörður friðarins í heiminum og Ísland ætlaði að bjarga sér sem friðsömu ríki með því að ganga í hernaðarbandalag við, standa í dag sem það ríki, sem raunverulega ógnar ekki aðeins tilveru alls mannkynsins, heldur bókstaflega því, að þessi jörð haldi áfram að vera til. Hugvit mannanna er búið að leysa úr læðingi slík gífurleg öfl, sem hægt væri að nota mannkyninu til blessunar, en geta orðið, meðan meira eða minna óðir auðmenn fara með völd í ríkustu löndum veraldarinnar, mannkyninu ekki aðeins til bölvunar, heldur beinlínis til tortímingar.

Ég býst við, að það hafi komið á flesta menn hér heima eins og annars staðar við þau tíðindi, sem borizt hafa nú upp á síðkastið af þeim tilraunum, sem auðvald Bandaríkjanna nú gerir með vetnissprengjurnar. Ég býst við, að mönnum sé fleiri og fleiri að verða ljóst, að það er tími til kominn að grípa í taumana gagnvart auðmannastétt Bandaríkjanna og láta þessa stétt vita, að þjóðirnar, sem hingað til hafa gengið til fylgis við hana, fylgi henni ekki lengur. Og ég álít það skyldu okkar Íslendinga að okkar leyti að láta okkar rödd heyrast. Þetta frv., sem við þess vegna flytjum hér, þm. Sósfl. í þessari hv. d., um uppsögn á hernámssamningnum og því að endurskoða hann ekki, heldur láta hann algerlega hverfa úr sögunni, þýðir raunverulega að breyta þeirri utanríkispólitík, sem Ísland hefur rekið núna síðustu árin, að taka upp aftur stefnu sjálfstæðis og friðhelgi fyrir okkar land, taka upp aftur stuðning við þau öfl í heiminum, sem vinna að friði og frelsi, taka upp aftur þá stefnu, að Ísland vilji vera í vináttu við allar þjóðir. Það er þessi breyting á utanríkispólitík Íslands, sem felst í þessu frv. okkar. Og ég skal fara aðeins örfáum orðum um nokkur atriði, sem mér þykir hlýða að undirstrika frekar en ég hef gert við fyrri umræður um þetta mál nú eins og sakir standa.

Fyrsta og höfuðástæðan er sú að tryggja sjálfstæði og friðhelgi okkar lands. Með hernámssamningnum var sjálfstæði okkar lands skert. Það var traðkað undir fótum. Erlendum her var boðið inn í landið, og við höfum síðan horft upp á það, hvernig sá erlendi her hefur verið að breiða sig meira og meira út um okkar land. Með því hernámi landsins var einnig friðhelgi okkar lands stofnað í voða. Landið var gert fyrir fram að vígvelli í styrjöld, fyrir fram að árásarstöð fyrir Bandaríkin á Evrópu. Þetta mál höfum við rætt hvað eftir annað og lagt höfuðáherzluna á í sambandi við þetta mál, og ég ætla þess vegna ekki að fara um það fleiri orðum. Ég veit, að hv. þm. er það ljós okkar afstaða, og ég býst við, að mörgum þeirra hafi líka upp á síðkastið orðið ljósara, hvernig það, sem við höfum áður sagt um þetta efni, hefur reynzt satt.

Í öðru lagi væri með þeirri utanríkisstefnu, sem tekin væri upp, ef þetta frv. væri samþykkt, farið inn á nánara samstarf og nánari vináttubönd við Norðurlönd. Við vitum, að þau Norðurlönd, sem eins og Ísland höfðu gengið í Atlantshafsbandalagið, Danmörk og Noregur, hafa neitað að láta herstöðvar í þeim löndum í té. Og við vitum, að það er að fjarlægja okkur Norðurlöndum, að við Íslendingar höfum orðið til þess að láta herstöðvar í té í okkar landi. Það hefur á fleiri sviðum í utanríkispólitíkinni orðið til þess, að Ísland hefur hangið aftan í þeirri röngu og skaðsamlegu pólitík, sem Bandaríkin hafa fylgt, á sama tíma sem Norðurlönd — líka Atlantshafsríkin á Norðurlöndum eins og Danmörk og Noregur — hafa verið að baka upp skynsamari stefnu í þessum málum. Danmörk og Noregur hafa ekki aðeins neitað að veita herstöðvar í sínum löndum, þau hafa líka stigið það spor til eflingar friðar og vináttu milli þjóðanna í heiminum að viðurkenna alþýðulýðveldið Kína og taka upp stjórnmálasamband við það, sem íslenzka ríkið hefur ekki enn þá gert, auðsjáanlega undir áhrifum Bandaríkjanna. Ég álít, að eins og okkur Íslendingum hefur alltaf verið nauðsynlegt að leggja áherzlu á okkar vináttu við Norðurlönd, þá sé okkur líka rétt í þessum efnum að feta í þeirra fótspor hvað þessi mál snertir.

Þá vil ég í þriðja lagi undirstrika, að það sé tími til kominn, að við breytum okkar utanríkisstefnu í afstöðunni til Sovétríkjanna og sósíalistísku landanna í heiminum yfirleitt. Þegar hernámssamningurinn var samþykktur hér, — og var reyndar farið að brydda á því líka mjög alvarlega í sambandi við umræðurnar um Atlantshafssamninginn, — þá kom það greinilega fram, ekki sízt af hálfu þess manns, sem var forsrh., þegar Atlantshafssamningurinn var gerður, að inngangan í Atlantshafsbandalagið og þá sérstaklega hernámssamningurinn var skoðað sem yfirlýstur fjandskapur við Sovétríkin og við önnur sósíalistísk lönd, sem innganga Íslands í eins konar hernaðarbandalag á móti kommúnismanum í heiminum, eins og það var orðað af þessum þm., sem nú er hér ekki lengur, Stefáni Jóh. Stefánssyni, og þar með var raunverulega verið að gefa það óvenju skorinort í skyn, að Ísland væri að gerast aðili að baráttu á móti sósíalismanum og hans framgangi í veröldinni, aðili að hernaðarbandalagi, sem auðvaldið í heiminum hefur verið að skapa gegn sósíalismanum. Ég álit, að það sé nú ljóst orðið þeim, sem ekki hefur verið það ljóst þá, að það að ætla að fara inn í samsvarandi ævintýri og Hitler með sínu andkommúnistíska bandalagi á sínum tíma er óðs manns æði, það er sjálfsmorðspólitík, og það er sérstaklega sjálfsmorðspólitík fyrir land eins og Ísland, sem hefur ekkert við slíkt að vinna, en öllu að tapa, land, sem samkvæmt allri sinni sögu, allri sinni afstöðu, öllum sínum hagsmunum og allri sinni menningu ætti að skoða það alveg sérstaklega sem sitt verkefni að þora að standa þannig í heiminum, að það bæri friðarorð á milli þeirra stóru.

Það hefur orðið sú breyting á á síðasta ári, frá því að okkar till. í þessum efnum var felld fyrir ári, að Ísland hefur tekið upp aftur viðskipti við Sovétríkin, sem slitin voru eftir að Marshallsamningurinn var gerður af hálfu ríkisstj. hér 1947–48. Nú er svo komið, að þessi ríki, sem svo að segja var verið að lýsa stríði á hendur fyrir 4–5 árum, eru nú orðin líklega mesta viðskiptaland okkar, eða mesta markaðsland okkar. Nú þegar hefur færzt í nokkru betra horf um þau diplomatísku sambönd við það land, sem átti að rjúfa svo að segja á þeim tíma. Ég álít, að það sé tími til kominn, að íslenzka ríkisstj., hvernig sem hún annars er, hvort sem hún er borgaraleg eða verkalýðsstjórn, temji sér þann hátt að líta á alþýðustjórnir í heiminum sem hverjar aðrar ríkisstj., hafa við þær samsvarandi eðlileg sambönd, iðka við lönd sósíalismans samsvarandi eðlileg viðskipta- og menningarsambönd eins og önnur lönd heimsins, hætta að líta þannig á, að þetta séu ríki, sem við Íslendingar ásamt Bandaríkjamönnum eigum að búa okkur undir að þurrka burt af jörðinni. Þau verða ekki þurrkuð burt. Sósíalisminn er kominn í heiminn til þess að vera þar, og hann verður þar. Hann verður ekki þurrkaður burt frekar en aðilunum tókst að þurrka auðvaldsskipulagið burt á sínum tíma. Það er gangur þróunarinnar, sem ekki þýðir að berjast á móti, en hins vegar er bezt og eðlilegast að fái sína friðsamlegu framrás í veröldinni.

Þá álít ég í fjórða lagi, að við Íslendingar þurfum að breyta okkar utanríkispólitík hvað það snertir að taka meira tillit til þeirra breytinga, sem eru að verða á pólitík landanna í Vestur-Evrópu. Það er auðséð mál, að sérstaklega á 2–3 síðustu árum hafa ekki aðeins verkalýðsstéttirnar í Vestur-Evrópu, heldur líka meira og meira borgarastéttirnar þar risið upp á móti þeim yfirgangi, sem Bandaríkjaauðvaldið meira og meira hefur sýnt þeim. Þetta hefur fyrst sýnt sig á viðskiptasviðinu og sýnir sig þar nú svo að segja með hverjum deginum og hverjum mánuðinum sem líður greinilegar í því, hvernig þessi Vestur-Evrópulönd taka nú upp vaxandi viðskipti við sósíalistíska heiminn. Og þetta er að sýna sig líka í því, hvernig England, Frakkland og hvernig Vestur-Evrópuríkin meira og meira eru að taka upp sjálfstæða utanríkispólitík líka í hermálunum gagnvart Bandaríkjunum. Það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að láta ekki slíta okkur út úr Evrópu, að fylgjast með í því, sem þar gerist, ekki aðeins í Austur-, heldur líka Vestur-Evrópu, og sjá til þess, að því pestarbæli hernaðarlega og þjóðfélagslega séð, sem Bandaríkin meira og meira eru að verða og eru nú að einangrast í heiminum, takist ekki að draga okkur undir sín áhrif, þannig að það pestarbæli, sem þegar er byrjað á Keflavíkurflugvelli, breiðist út um allt Ísland. Það er nauðsynlegt, að við Íslendingar, hvaða skoðun sem við annars höfum á stjórnmálum, reynum að sjá til þess, að Ísland verði ekki slitið út úr öllu því samhengi, sem það hefur haft við Evrópu frá upphafi vega, og svo að segja keyrt í kaf með Bandaríkjunum í þeirri spillingu, í þeirri andlegu hnignun og því brjálæði, sem er að færast yfir það land.

Í fimmta lagi: Það er óhjákvæmilegt fyrir okkur Íslendinga vegna okkar sjálfra og vegna Evrópu að vísa ameríska hernum burt úr okkar landi og bægja frá okkur þeirri vaxandi ásælni ameríska auðvaldsins, sem birtist með hverjum deginum ljósar og ljósar. Þetta hefur verið rætt svo ýtarlega og komið svo oft fram, að ég ætla ekki að færa frekari sannanir að því, enda hef ég rætt það mál oft áður. En ég vildi um leið undirstrika hitt, af því, hve ég hef oft á undanförnum fimm, sex árum lýst þeirri hættu, sem af Bandaríkjamönnum og auðvaldi þeirra vofir yfir okkur, skilgreint þá ágengni, sem við höfum orðið fyrir af Bandaríkjunum undanfarinn áratug, að ég er þar með ekki að hvetja til neins fjandskapar við þjóð Bandaríkjanna, sízt af öllu við þá menn í Bandaríkjunum, sem þrátt fyrir það ofsóknarbrjálæði fasismanum skylt, sem þar veður uppi, standa sig eins og hetjur í baráttunni fyrir lýðfrelsi, í baráttunni gegn því alræði auðvaldsins, sem verið er að koma á í Bandaríkjunum. Ég vil taka það fram, að í þeirri frelsisbaráttu, sem við Íslendingar heyjum á móti ameríska auðvaldinu, eigum við meðal ameríska verkalýðsins, meðal bandaríska verkalýðsins, meðal allra frjálslyndra borgara og menntamanna í Bandaríkjunum bandamenn, sem skilja okkar afstöðu og taka sömu afstöðu og við um það, að amerískt auðvald eigi að hætta sínum yfirgangi gagnvart framandi þjóðum.

Svo framarlega sem þetta frv. okkar yrði samþ., þá mundi það vera fyrsta sporið í þá átt, að Ísland tæki aftur upp sitt hlutleysi. Það væri að vísu ekki gert að fullu fyrr en Atlantshafssamningnum væri sagt upp, en það væri fyrsta sporið í þá áttina. Það mál hefur verið rætt hér allmikið í þeim umræðum, sem fram hafa farið um hernámssamninginn á þessu þingi, hvort við Íslendingar ættum að stíga slíkt skref. Og því hefur sérstaklega verið haldið fram, ekki sízt af hálfu þeirra, sem talað hafa fyrir hönd Alþfl., að það væri nú máske óhætt fyrir okkur Íslendinga að fara inn á slíkt, svo framarlega sem t. d. Verkamannaflokkurinn brezki væri við völd og sú stefna yrði þar ofan á eða einhverjar aðrar þjóðir í borgaralegum ríkjum Vestur-Evrópu tækju upp slíka pólitík. Ég vil segja það alveg skýrt og afdráttarlaust, að ég álít, að Íslandi beri og Ísland eigi að þora að hafa forustu í þessum efnum, að þora að hafa vit fyrir öðrum þjóðum Vestur-Evrópu, þora að kveða upp úr um það, að þarna eigi að breyta um, þora að ganga eitt sér þá leið áður, sem það ætlast til að aðrar þjóðir Vestur-Evrópu gangi á eftir. Ég vil minna hv. þingmenn á, að okkar gamla stofnun, Alþingi Íslendinga, hefur áður þorað að taka afstöðu í málum, sem engar aðrar þjóðir hafa tekið. Og við eigum aldrei að vera hræddir við að stíga slík skref. Svo framarlega sem við erum sjálfir sannfærðir um, að við séum að gera rétt, þá eigum við að þora að gera það, jafnvel þótt aðrar þjóðir væru algerlega blindaðar í þessum efnum, þó að við stæðum algerlega einir. En við vitum ósköp vel, að við stöndum ekki einu sinni einir í Vestur-Evrópu. Það eru daglega að ljúkast upp augu fleiri og fleiri fyrir því, hver hætta hafi verið í því fólgin að ganga inn í Atlantshafsbandalagið og að fela Bandaríkjunum herstöðvar í Evrópu. Og ég býst við, að það líði ekki vika án þess, að þúsundir og aftur þúsundir af mönnum í Vestur-Evrópu segi, að Bandaríkin séu ekki ríki, sem hægt sé að vera í bandalagi við, að Bandaríkin séu ekki ríki, sem hægt sé að leyfa að hafa herstöðvar í sínu landi. Ég býst við, að það væri aðeins okkur Íslendingum til heiðurs, ef okkar Alþingi yrði á undan öðrum þingum að kveða upp úr í þessu efni. Við skulum ekki leggja það til grundvallar fyrir okkar stefnu í heiminum, hvernig eigi að fara fyrir Íslandi í stríði. Spurningin stendur ekki um það. Það er ekki undir stríð, sem við erum að búa okkur. Það, sem liggur fyrir okkur, er að sýna heiminum, hvernig hægt sé að lifa í friði. Það, sem þarf, til þess að hægt sé að sýna heiminum, hvernig eigi að lifa í friði, er að segja ameríska auðvaldinu: Hingað og ekki lengra, — segja ameríska auðvaldinu, að það verði að hætta við þá pólitík, sem það hefur rekið fram að þessu, hætta við að koma upp fleiri hundruðum herstöðva utan síns eigin lands út um allan heim, hætta við að stofna lífi og tilveru mannkynsins í voða með því stríði, sem það undirbýr, og jafnvel með þeim tilraunum, sem það gerir í því að undirbúa slíka styrjöld.

Við Íslendingar höfum líka alveg sérstöðu til þess að geta sagt svona hlut án þess að þurfa að skammast okkar. Aðrar þjóðir Vestur-Evrópu hafa her, og þær eru vanar að hugsa út frá því, að þær séu sterkar eða voldugar hernaðarþjóðir, þurfi að taka tillit til síns metnaðar, þurfi að taka tillit til sins valds. Við erum þjóð, sem aldrei hefur verið í stríði við neina aðra þjóð. Við erum þjóð, sem ekki skömmumst okkar fyrir að segja það og viðurkenna það og jafnvel vera stoltir af því, að við séum veikir og varnarlausir. Við höfum þess vegna efni á að leggja annan mælikvarða á hlutina heldur en allar aðrar þjóðir heims. Við höfum efni á að segja: Hér erum við. Við þorum að standa uppi með okkar land, varnarlaust, hlutlaust, herlaust mitt í veröld grárri fyrir járnum. — Við sögðum þetta 17. júní 1944, þegar heimurinn var í stríði. Og það var rétt hjá okkur þá. Við stofnuðum okkar lýðveldi þá í trúnni á þetta. Við getum sagt það með sama réttinum og enn þá meiri rétti í dag. Það þarf einmitt það hugrekki, að einhverjar þjóðir í heiminum þori að segja þetta, til þess að þeir meðal mannkynsins, sem vilja frið, og þeirra trú eflist. Það mundi vera fordæmi, mundi hafa áhrif á fjöldann í veröldinni, ef okkar litla þjóð — með sína sérstöðu — þyrði að kveða upp úr í þessum efnum.

Við erum sjálfir sem þjóð og sem ríki smælinginn á meðal þjóða heimsins, og við eigum að þora að tala sem fulltrúar smælingjanna í heiminum, sem fulltrúar þeirra, sem eru varnarlausir. Við eigum að þora að krefjast þess að fá frið í okkar landi, að fá að hafa okkar land án nokkurs hers og fá þá kröfu virta. Og virðingin fyrir slíku er það eina, sem getur bjargað mannkyninu. Við eigum að þora að halda uppi málstað þess friðsama, vopnlausa manns, málstað smælingjanna í heiminum, ganga fram fyrir skjöldu og tilkynna alveg án tillits til þess, hvernig við höfum deilt innbyrðis um þessi mál áður, að eins og nú standa sakir, eins og heimurinn nú er, þá samþykki Alþingi Íslendinga að segja upp hernámssamningnum við Bandaríkin og láta herinn fara burt héðan, og stíga þar með fyrsta sporið til þess að skapa aftur friðhelgi fyrir okkar land gera okkar land aftur hlutlaust og láta rödd, Íslands hljóma þannig í heiminum, að það taki upp málstað friðarins fyrir alla þá smáu, friðarins fyrir allar þjóðir heimsins.

Ég held, að það væri ákaflega vel farið, ef við gætum komið okkur saman um að stíga slíkt skref nú, ekki sízt með hliðsjón af þeim ógnum, sem vetnissprengjan hefur leyst úr læðingi og vofa yfir mannkyninu. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, þrátt fyrir þá meðferð, sem frv. eins og þetta og þáltill. svipaðar því hafa fengið áður hér á þingi, að nú sé afstaða hv. þingmanna orðin breytt. Og í trausti þess vil ég leyfa mér að leggja til, að þessu frv. sé að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og kosin sé nefnd, varnarmálanefnd, til þess að fjalla um það.