30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2152)

23. mál, uppsögn varnarsamnings

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er vissulega stórmál til umræðu, og mætti raunar ætla, að þess sæjust einhver merki, að því er varðar áhuga hv. alþm., að hér væri um ekki minna mál að ræða heldur en friðun rjúpunnar ellegar um það, hvort ætti að friða lax á föstudögum, eða annað af því tagi. En það virðist nú vera öllu minni áhugi fyrir þessu máli, hvernig sem á því stendur.

Það hefur verið rætt svo mikið um þessi mál öll hér á þessu þingi, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara almennt um þau mörgum orðum. Afstaða okkar þjóðvarnarmanna til hers á Íslandi er skýr og ótvíræð. Við höldum því fram, að við eigum að losna við herliðið, því fyrr því betra. Og afstaða okkar til allra mála, sem það snerta, hlýtur að mótast af þeirri skoðun okkar, að við verðum að losna við herinn af íslenzkri grund.

Ég verð að láta í ljós furðu mína á því, að hæstv. utanrrh. skuli ekki láta sjá sig hér í d., þegar umr. fara fram um mál sem þetta. Við hann hefði ég sérstaklega viljað tala nokkur orð, m. a. um þá samningagerð, sem hefur verið hér á döfinni um tveggja mánaða tíma, en Alþ. hefur ekkert frétt af. Manni er sagt, að hæstv. utanrrh. sé nú á förum úr landi, og allar líkur benda til þess, að Alþ. verði slitið, þegar hann kemur heim aftur úr þeirri för, en það hefði vissulega verið ástæða til þess, að hann hefði skýrt Alþ. frá því, hvernig mál standa í þeirri samningagerð, sem nú fer fram um breytingar á hernámssamningnum eða framkvæmd hans, en það virðist svo sem ekki muni mikið úr því verða. Ég vil þó vænta þess, að hæstv. utanrrh. fari ekki svo af landi brott, að hann gefi Alþ. ekki einhverja skýrslu um það, hvernig þessi mál standa.

Eins og ég áður sagði, tel ég ekki ástæðu til þess að ræða almennt um herstöðvamálin. Það hefur verið gert mjög á þessu þingi. En ég vildi sérstaklega af þessu tilefni, því frv., sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., fá komið þeim skilaboðum til hæstv. utanrrh., að þess sé vænzt, að hann sé til staðar, þegar um stórkostleg utanríkismál er að ræða, eins og hér á sér stað, og að þess sé jafnframt vænzt, að hann sjái sér fært að gefa Alþ. skýrslu um það, hvað samningagerð þeirri líður, sem nú hefur verið á döfinni um hinn svonefnda varnarsamning nú í tvo mánuði.