02.03.1954
Neðri deild: 56. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

111. mál, menntun kennara

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Eins og frsm. gat um, skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Ég vil taka það fram, að ég er öðrum nm. alveg sammála um það, að rétt sé að hafa óbundið í lögunum, hvar húsmæðrakennaraskóli Íslands starfar, og ekki ástæða til að hafa það í lögunum rígbundið við Reykjavík. Sem stendur starfar þessi skóli í húsakynnum Háskóla Íslands, en áður en langt um líður er talið að hann verði þaðan að víkja. Þá kynni svo að fara, að skólinn hefði engin húsakynni hér í Reykjavík, en hins vegar gætu verið húsakynni utan Reykjavíkur, sem skólinn gæti fengið til afnota, og er auðvitað sjálfsagt að hafa það óbundið í lögunum, til þess að hægt væri að greiða úr húsnæðismálum hans, ef þannig kynni að fara.

Fyrirvari minn á hins vegar við annað. Nú er verið að undirbúa hér byggingu nýs kennaraskóla, og er verið að vinna að teikningum þess skóla með ýmsum deildum og væntanlega æfingaskóla í sambandi við hann. Eitt af þeim atriðum, sem þar koma til greina við undirbúning og byggingu hins væntanlega kennaraskóla, sem er aðkallandi mál, er, að húsmæðrakennaraskóli Íslands yrði ein deild þar eða á einn eða annan veg í sambandi við Kennaraskóla Íslands. Þetta verður að sjálfsögðu að hafa í huga, og taldi ég rétt, að slíkt kæmi fram hér í umr., til þess að afstaða n. yrði ekki skilin eða túlkuð á þá lund, að beinlínis væri ætlazt til þess með þessari lagabreytingu, að skólinn yrði fluttur frá Reykjavík. — Ég vil sem sagt undirstrika, að þessir möguleikar í sambandi víð væntanlega byggingu Kennaraskóla Íslands verði sérstaklega hafðir í huga varðandi húsmæðrakennaraskólann. Með þessum fyrirvara og grg. mun ég styðja frv. það, sem hér liggur fyrir.