07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2173)

111. mál, menntun kennara

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hafði nú kvatt sér hljóðs, en það varð að samkomulagi við hann, að ég mælti hér með minni till. fyrst, til þess að hann gæti þá um leið svarað því, sem fram kæmi, ef þess væri þörf, svo að hann þyrfti ekki að taka eins oft til máls í málinu.

Ég er sammála hv. frsm. um það, að mér finnst vera allóviðeigandi, að inn sé sett í l., að húsmæðrakennaraskóli skuli starfa á Íslandi. Það er svo sjálfsagt mál, að Alþ. Íslendinga er ekki að fyrirskipa, að hvorki húsmæðrakennaraskóli né annar skuli starfa utan takmarka Íslands, að það á ekki að þurfa að taka það fram í löggjöfinni. Eins og löggjöfin er nú, þá stendur í 38. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Húsmæðrakennaraskóli skal starfa í Reykjavík eða nágrenni hennar. Hann skal hafa aðstöðu til þess búrekstrar, er nauðsynlegur er vegna námsins.“

Þessari gr. er fullnægt með því, að nokkur hluti húsmæðrakennaraskólans starfar að Laugarvatni að sumri til, og mér finnst, að það sé alveg brýn nauðsyn til að taka allmikið tillit til þess, að vegalengdin á milli þessara tveggja deilda skólans sé ekki gerð erfiðari eða óhagstæðari með nýrri ákvörðun, ef það á að ákveða annan stað en Reykjavík, eins og virðist vera ætlunin hér með þessu frv., og kæmi þá vel til greina, hvort ekki ætti að setja skólann allan niður á Laugarvatni, þar sem einn hluti skólans starfar nú, enda er talið óhjákvæmilegt, að hann haldi þeirri starfrækslu áfram, nema ríkið ætli sér að kosta allmiklu fé upp á að setja slíka starfrækslu niður annars staðar til þess að fullnægja 38. gr. eins og hún er í l. Ég hygg líka, að engum detti í hug að ætla að leggja þá deild húsmæðrakennaraskólans niður, svo mjög sem það nám er sterkur þáttur í húsmæðrakennarafræðslunni, sem þar er numið árlega.

Ég hef því borið fram brtt. við frv. á þskj. 700, að gr. orðist svo: „Húsmæðrakennaraskóli skal starfa í Reykjavík eða á þeim stað öðrum, er fræðslumálastjórninni kann að þykja hentugri fyrir skólareksturinn.“ Er það beinlínis gert með það fyrir augum, að ef skólinn af einhverjum ástæðum þarf að flytjast frá Reykjavík, sem ég teldi nú miður, þá sé hugsað um það, hvort ekki sé eðlilegast að flytja skólann beint að Laugarvatni, þar sem ein deild skólans er þegar fyrir, enda væntanlega ekki lögð niður.

Ég hef einnig borið fram brtt. við 2. gr. frv., þ. e., að 39. gr. l. falli niður, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ef hús verður reist yfir skólann, skal þar vera heimavist fyrir nemendur, er búa sig undir kennarastörf við húsmæðraskóla, svo og aðra nemendur, er heimili eiga utan Reykjavíkur.“ Ég álít, að þessi gr. eigi að falla niður úr l. Ég álít, að það beri enga brýna nauðsyn til þess að vera að koma upp heimavist við skóla hvorki í Reykjavík né í öðrum kaupstöðum landsins. Allt öðru máli er að gegna við skóla, sem er í sveit. Ég hef átt þess kost að sjá t. d. heimavistina við menntaskólann á Akureyri. Mig furðar ekkert á því, þó að það sé hægt að draga allmikið af fólki frá atvinnuvegunum, þegar nemendum er gefinn kostur á því að lesa í öðrum eins skóla og nú er á Akureyri og búa þar með öðrum eins glæsibrag og þeim er búinn þar og það svo að segja alveg þeim að kostnaðarlausu. Það er einn þátturinn í fræðslukerfinu, sem kostar þjóðina tugmilljónir, að draga svo og svo mikið af fólki frá atvinnuvegunum með því að bjóða slík fríðindi. Þeir menn, sem vilja yfirleitt mennta sig til þess að verða kennarar, eins og hér er gert ráð fyrir, eiga sannarlega að geta sjálfir fórnað því þann tíma, sem þeir þurfa að læra, að sjá sér fyrir húsnæði, og ætti ríkið ekki að þurfa að byggja yfir þá. En ef þessi gr. er felld niður, þá er miklu auðveldara að leysa þennan vanda, sem nú steðjar að skólanum í Reykjavík. Þá er þessi stóra fjárhæð, sem talað er um að þurfi að byggja fyrir hér yfir skólann í Reykjavík, orðin miklu minni. Ég t. d. tel, að það sé engin fjarstæða, ef skólinn getur ekki haft húsnæði í háskólanum, sem mér skilst að ekki sé hægt nema takmarkaðan tíma, að þá mætti búa honum sæmilegan stað í sambandi við húsmæðraskólann í Reykjavík, ef ekki ætti að hugsa fyrir heimavist, og þá sé ekki heldur ástæða til þess að hafa heimavist í húsmæðraskólanum í Reykjavík, heldur taka það skólahús undir þessa tvo skóla.

Reynslan hefur sýnt okkur nú, að hússtjórnarskólarnir úti á landi eru að verða tómir, og það er m. a. meginástæðan fyrir því, að þetta frv. er borið fram, að í hinum ágæta stað, Akureyri, hefur verið byggður af Akureyrarbúum sjálfum með aðstoð ríkisins skóli, sem hefur verið undanfarin ár svo illa sóttur, að þeir telja, að það sé ómögulegt að reka skólann. Og þetta er ekki eini staðurinn. Svona er að verða á Staðarfelli, og svona er það að verða víða, og það var þess vegna, sem l. um húsmæðraskólana var breytt, að í þeim skyldi aðeins halda 4 mánaða námskeið í staðinn fyrir 9 mánaða til þess að vita, hvort fólk vildi þá ekki heldur sækja skólana, ef það þyrfti ekki að eyða nema 4 mánuðum í skólavist í staðinn fyrir 9. Ég er líka alveg viss um, að ef ríkið þarf að taka að sér þennan skóla á Akureyri og flytja húsmæðrakennaraskólann þangað, þá er það ekkert lítið fjárhagslegt atriði. Skólinn er ekki eign ríkisins. Það á aðeins í þeim skóla ákveðna fjárhæð, sem það hefur lagt til hans. Skólinn er að fullu og öllu undir stjórn skólanefndar þar, og það er bærinn sjálfur, sem er eigandi skólans, eins og héruðin eiga þá aðra skóla, sem ríkissjóður hefur styrkt, og ríkissjóður getur sjálfsagt ekki tekið þá nema með samningum eða eignatöku, og ég efa, að það verði nokkurn hlut ódýrara en fara þá leið, sem ég þegar hef bent hér á. En ef það væri hugsað, að skólinn ætti t. d. að flytja ákveðið til Akureyrar, fyndist mér eðlilegast, að þeir menn, sem vilja stefna að því, bæru fram brtt., þar sem sagt væri, að skólinn skyldi flytjast þangað, og sæju, hvort hv. Ed. mundi þá fallast á það. Ég segi fyrir mig, að ég sakna þess, að slíkur skóli, sem hér er, sé fluttur úr höfuðborg landsins. og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hæstv. menntmrh., sem er þm. Reykvíkinga, og hef heldur enga ástæðu til þess að halda það, að hann vilji leggja því lið, að slíkt megi verða.

Ég skal ekki ræða mikið um það, að verði skólinn fluttur héðan úr Reykjavík, a. m. k. ef um mikla vegalengd væri að ræða, hlýtur það að verða til þess, að skólinn mundi bíða við það stórkostlegan hnekki, vegna þess að allir kennslukraftar mundu ekki fylgja honum og yrði að sjá fyrir nýjum kennslukröftum. Við skulum hugsa okkur, að ef skólastjórinn hefði hér, eins og er um marga skólastjóra, stóra fjölskyldu og ætti hér hús og heimili, þá ætlaðist víst enginn til þess, að hann yrði neyddur til á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, að verða annaðhvort að segja af sér stöðunni eða flytjast með skólanum til annars staðar. Slíkt mundi vera alveg einsdæmi í löggjöf landsins, — eða liggja hér fyrir nokkrir samningar við skólastjóra um það, að svo skuli að farið, eða er það með hennar ráði, að þessi breyting sé gerð? Ég hygg ekki. Og ef svo er ekki, minnist ég ekki þess, að hv. Alþ. hafi tekið jafnóþyrmilegum tökum á embættismönnum almennt eins og hér hlyti að verða gert ef skólinn yrði fluttur svo langt í burtu, að viðkomandi yrði einnig að flytja heimili sitt til þess að geta annazt skólastjórn, sem yrði auðvitað að gera, ef skólinn yrði nú staðsettur á Akureyri. Þó er þetta fyrir mér aukaatriði. Hitt vil ég fullyrða og legg á það áherzlu, að það er hægt að leysa málið ódýrar fyrir ríkissjóð með þeirri leið, sem ég hef bent á, að fella 39. gr. niður og byggja skólann þá upp í sambandi við þá deild, sem fyrir er á Laugarvatni, heldur en að flytja hann til Norðurlandsins eða einhverra annarra staða. sem liggja svo fjarri sumarskólanum, að skólinn mundi tvímælalaust líða allt of mikið við þá ráðstöfun, ef svo skyldi fara, að hv. Alþ. féllist á að samþ. frv. þannig.