07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2178)

111. mál, menntun kennara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér er það að vísu alger ráðgáta, af hverju nefndin hefur lagt til, að frv. yrði samþ., ef ekki hefur vakað fyrir henni, að breyting skyldi eiga sér stað, og kemur mér það því nokkuð furðulega fyrir sjónir, að menn skuli telja, að mín yfirlýsing hér hafi verið þeim óvænt og málið hafi tekið nýja stefnu við það, vegna þess að sá einn skilningur, sem í minni yfirlýsingu fólst, gefur frv. nokkurt gildi, annars er það alveg út í bláinn og tíma eytt til einskis hér í þinginu að vera að burðast með þetta mál. En ef hv. n. vill endurskoða málið, þá hef ég sízt á móti því, og tel ég þó, að hér sé um svo mikilsvert mál að ræða, að það sé eðlilegt, að það fái einhverja afgreiðslu á þinginu, þannig að atkv. gangi um þetta, áður en þingi lýkur, og vil beina því til hv. n., að hún dragi ekki sína athugun svo lengi, að málið dagi uppi af þeim sökum, vegna þess að það er langbezt að fá úr því skorið með atkvgr., hvort menn vilja, að þessi breyting verði, eða ekki, ekki sízt vegna þess, að yfirvofandi er og óhjákvæmilegt, áður en langt um liður, að einhverjar ráðstafanir verði gerðar um frambúðarhúsnæði fyrir þennan skóla.

Út af ummælum hv. þm. Eyf. (BSt), frsm., vil ég taka það fram, að ég hygg, að það sé nokkurn veginn algild regla, að lærisveinar í heimavist ríkisskóla borgi ekki húsaleigu, gagnstætt því, sem á sér stað við héraðsskóla. Ég efast mjög um, að þessi skilsmunur fái staðizt, og geri ráð fyrir, að það þurfi að taka þetta til endurskoðunar. Mér var þetta ekki ljóst, áður en ég varð menntmrh., en samkvæmt þeim skýrslum, sem ég hef fengið, er þetta svo. Ég sé, að jafngamalreyndur þm. og fjölfróður sem hv. 1. þm. Eyf. hefur verið óvitandi um þetta eins og ég, og þess vegna þótti mér rétt að láta þetta koma fram.