07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2181)

111. mál, menntun kennara

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hér hafa fallið orð á þá leið, að menntmn. hafi óskað eftir því, að málinu væri frestað og það tekið út af dagskrá. Ég get ekki kannazt við, að það sé öll menntmn., sem þess hefur óskað. Ég tók það einmitt skýrt fram áðan, að ég teldi enga ástæðu til þess, en skaut því að öðru leyti til formanns nefndarinnar.

Það kann að vera, að hinir nm. séu því sammála, sem hv. form. n. fór fram á, en þá er það aðeins meiri hl. n., en ekki n. öll.

Annars verð ég að segja það, að mér þykir furðu sæta, hvað hv. þm. hér í deildinni virðist það hafa verið stór bomba, eins konar atómbomba, það sem hæstv. menntmrh. sagði. Ég verð alveg að staðfesta það, sem hann sagði nú áðan, að ég hygg, að öllum þm. í hv. Nd. hafi verið kunnugt, hvað fyrir aðalflm. þessa máls vakti, Jónasi Rafnar, þm. Ak. Ég hlustaði að vísu ekki á umr. í Nd., en ég býst við, að hann hafi beinlínis nefnt það í umr. í Nd., að þarna á Akureyri væri hús, sem ekki væri notað, og það mundi vera heppilegt að flytja skólann þess vegna til Akureyrar. Og meira að segja hygg ég, að þetta hafi engin opinberun verið hér í kvöld, sem hæstv. dómsmrh. sagði. Mig grunar fastlega, að þm. hér í hv. Ed. hafi vitað fullvel, að þetta var hugsun flm.

Bollaleggingar hv. þm. Barð. um, hver ósköp þyrfti að gera fyrir alls konar skóla í landinu, ef greinin um húsmæðrakennaraskólann stæði, um það, að það ætti að koma þar upp heimavist á sínum tíma, sé ég ekki að fái staðizt hér eða komi málinu við. Eins og ég benti á áðan, þá er hér um algera sérstöðu að ræða um þennan skóla, a. m. k. frá sjónarmiði sumra manna, sem sé þá, að það sé nauðsynlegt vegna kennslunnar sjálfrar einmitt með þennan skóla, að kennslan fari fram í heimavist. Það dettur engum lifandi manni í hug um ýmsa skóla, að slíkt sé nauðsynlegt vegna kennslunnar, t. d. ýmsa skóla hér í Reykjavík, og það er náttúrlega allt annað t. d. húsmæðraskólar úti um land eða húsmæðrakennaraskólinn. Það er á sinn hátt eins og kennaraskólinn og svo aftur barnaskólar og héraðsskólar að hinu leytinu. Það gildir alls ekki það sama um þetta allt.

Hvað snertir kennaralið húsmæðraskólans, sem nú er, þá vildi ég sízt af öllu verða til þess að brjóta nokkurn rétt á því. En hér er a. m. k. alls ekki um það að ræða, sem virtist vaka fyrir hv. þm. Barð., að leggja niður embætti og svipta það fólk embætti. Það er aðeins verið að flytja til starfssvið þess. Ég hygg, að það hafi oft verið gert, og ég gæti nú jafnvel án þess að glugga mikið í bækur bent á dæmi þess, að t. d. embættisbústaður hafi verið fluttur og gilt fyrir þann embættismann, sem hlut átti að máli, og það man ég, að heill biskup var einu sinni fluttur frá Skálholti og hingað til Reykjavíkur og ekki skoðað sem nein frávikning frá embætti, en sá biskup, sem fyrir þessu varð í fyrstu, fékk að vísu leyfi til að búa sem prívatmaður í Skálholti eftir sem áður, en biskupsstólinn var lagður þar niður og fluttur til Reykjavíkur, aðsetur biskupsins í raun og veru, svo að ég held, að þetta fái ekki staðizt.

Það er ekkert við því að segja, ef hv. form. menntmn. hefur meiri hl. n. með sér í því að óska eftir, að málið sé tekið út af dagskrá og því frestað, en ef n. á að gera allt það, sem hæstv. forseti d. ætlar henni að gera í þessu máli, þá er það vitanlega það sama og að drepa málið á þessu þingi, og þá er í sjálfu sér hreinlegra að gera það. Ég er hræddur um, að það verði meira verk en svo, að nm. geti innt það af hendi nú í þingönnunum síðustu dagana, að taka öll þau atriði til rannsóknar, sem hæstv. forseti ætlast til.