08.10.1953
Neðri deild: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2194)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er undirbúið í menntmrn., að tilhlutan hæstv. fyrrv. menntmrh., Björns Ólafssonar, og er í samræmi við álitsgerð, sem þeir próf. Ólafur Jóhannesson, Kristján Guðlaugsson hrl. og Jóhannes Elíasson stjórnarráðsfulltrúi höfðu samið, og er til þess, að auðveldara verði að taka þátt í alþjóðasamtökum til verndar rithöfundarétti.

Það má auðvitað deila um — og er nokkuð deilt um — hvort við eigum að taka þátt í þessum samtökum, en við gerðum það fyrir nokkrum árum, er við gerðumst aðilar að svo kölluðu Bernarsamkomulagi, og síðan hafa verið gerðir víðtækir alþjóðlegir samningar um þessi mál, sem m. a. Bandaríki Norður-Ameríku og fleiri ríki eru aðilar að en voru að Bernarsamkomulaginu. Ef við eigum að njóta verndar í þessum löndum, þarf að gerast aðili að þessu nýja samkomulagi eða þá gera sérsamninga við þau helztu, sem þarna koma til greina, og til undirbúnings slíkum aðgerðum er sú lagabreyt., sem hér er ráðgerð.

Ég tel, að ef menn halda fast við það að vera í Bernarsambandinu, þá sé einnig rétt að fallast á þá breyt., sem felst í þessu frv. og till. til þál., sem hefur í sambandi við þetta verið borin fram í hv. Sþ. Hins vegar er það kunnugt, að nokkurs ágreinings hefur gætt um það, hvort Ísland ætti yfirleitt að taka þátt í þessum samtökum, og væri ef til vill rétt fyrir þn., sem fær málið til meðferðar, að íhuga það í heild við afgreiðslu málsins.

Ég legg til, að málið gangi til 2. umr. og hv. menntmn.