08.10.1953
Neðri deild: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum taka undir þau ummæli hæstv. menntmrh., að æskilegt væri, að sú n., sem þetta mál fær til athugunar, hugleiði, hvort ekki sé ástæða til þess að endurskoða með einhverjum hætti aðstöðu Íslands innan Bernarsambandsins eða jafnvel það, hvort rétt sé, að Íslendingar séu fullgildur aðili að þeim samtökum, sem nefnd hafa verið Bernarsamband.

Það er eitt aðalatriði þeirra samtaka, að sá réttur, sem veittur er höfundum eigin þjóðar, skuli einnig sjálfkrafa flytjast til höfunda annarrar þjóðar. Ef t. d. ríkisútvarpið gerir samning varðandi höfundarétt að rituðu máli eða tónverkum, þá skulu þeir taxtar, sem um verður samið við hina innlendu aðila, sjálfkrafa einnig gilda gagnvart erlendum aðilum, sem verk eru notuð eftir, ritverk eða tónverk. Það má segja, að mjög eðlilegt sé, að hinar stærri þjóðir geri slíkt samkomulag með sér innbyrðis til verndar á gagnkvæmum réttindum höfunda, en það er mikil spurning, hvort smáþjóð eins og Íslendingar hefur efni á því að undirgangast slíkar skyldur. Það er mjög erfitt að mörgu leyti að halda uppi sjálfstæðu og fjölskrúðugu menningarlífi í þvílíku dvergríki og Ísland er, meðal jafnsmárrar þjóðar og íslenzka þjóðin er. Það er því ekki nema fullkomlega eðlilegt sjónarmið, að íslenzka ríkisvaldið t. d. áskilji sér rétt til þess að gera betur við eigin höfunda, við innienda eigendur höfundaréttar heldur en við erlenda eigendur slíks réttar. Slíkan mismun er ekki hægt að gera, meðan Íslendingar eru skilyrðislaust aðilar að Bernarsambandinu. En ég teldi mjög æskilegt. ef hægt væri að koma slíkri skipun á að þótt vel yrði gert við íslenzka eigendur höfundaréttar, þá þyrfti það ekki sjálfkrafa að flytjast yfir á erlenda eigendur höfundaréttar. Mér þætti ekki ósennilegt, að unnt væri að koma slíku til leiðar með samkomulagi innan Bernarsambandsins, og vildi skjóta þeirri hugmynd fram hér til athugunar, að það yrði reynt. Mér þykir ekki ósennilegt, að hinar stærri þjóðir, sem eru aðilar að þessum samtökum, meti og skilji þá algeru sérstöðu Íslendinga, sem felst í fámenni þeirra, og krefjist þannig ekki sér til handa þess sama réttar sem Íslendingar kynnu að vilja veita eigin höfundum.

Ég vil ekki gera það að till. minni, að Íslendingar gangi úr Bernarsambandinu, heldur vil hins vegar skjóta fram þeirri hugmynd, að athugað verði, hvort ekki væri unnt að fá fyrir Íslendinga einhverja þess konar sérstöðu innan Bernarsambandsins og þá jafnframt í sambandi við þann samning, sem hér er um að ræða, að Íslendingar geti gert vel við höfunda sína, án þess að það bakaði þeim þungbærar greiðslur gagnvart erlendum aðilum.