30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2197)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með stofnun Bernarsambandsins 1886 gengust flest ríki Evrópu undir þá skyldu að veita gagnkvæma vernd bókmenntum og listaverkum. Meginákvæði Bernarsáttmálans eru þau, að höfundar í öllum sambandslöndum njóti þeirrar réttarverndar innan hvers sambandsríkis, sem höfundum hvers ríkis um sig er veittur að lögum.

Fyrst þegar Bernarsáttmálinn var gerður, var réttur höfundar til að þýða eða láta þýða ritverk sín á önnur tungumál bundinn við tíu ár. En síðan hefur verið hert á þessu ákvæði með tilliti til þess, að þýðingarréttur sé aðeins einn þáttur höfundaréttar. Nú er það meginregla samkv. Bernarsáttmálanum, að réttur höfundar á verki sínu helzt til æviloka og 50 ár eftir andlát hans. Allan þann tíma hefur höfundur einkarétt á því að þýða eða leyfa þýðingu á verki, sem hefur verið birt í fyrsta sinn í einhverju sambandslandanna eða er óbirt. Frá þessari meginreglu Bernarsáttmálans er þó leyfð undantekning um þýðingar. Í inngöngubeiðni sinni getur aðildarríki tekið það fram, að það áskilji sér rétt til þess, a. m. k. fyrst um sinn, að takmarka vernd gegn óheimilum þýðingum við tíu ár frá útkomu frumrits.

Ísland gekk í Bernarsambandið samkv. lögum frá 1947, en notfærði sér þá heimild, sem veitt er til undanþágu frá aðalreglunni, og áskildi sér rétt til þess að veita aðeins vernd gegn þýðingum í tíu ár frá fyrstu birtingu ritverks, enda er það í samræmi við ákvæði gildandi laga um rithöfundarétt og prentrétt.

Ýmis ríki, þ. á m. stórveldi, svo sem Bandaríkin og Rússland, hafa aldrei gengið í Bernarsambandið. Af því leiddi, að Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna beitti sér fyrir því, að gerður yrði nýr milliríkjasamningur um vernd höfundaréttar með það fyrir augum að ná til þeirra ríkja um samtök á þessu sviði, sem ekki hafa gengið í Bernarsambandið. Þessi nýi milliríkjasamningur um höfundarétt var undirritaður í Genf 6. sept. 1952.

Gildi hins nýja milliríkjasamnings liggur í því, að með honum er stofnað til gagnkvæmrar verndar höfundaréttar í fleiri löndum en Bernarsambandið nær til. Með ályktun, sem samþ. var í Sþ. fyrir nokkrum dögum, er ákveðið, að Ísland gerist aðili að hinum nýja allsherjarsamningi um höfundarétt. Þá er óhjákvæmilegt að gera jafnframt breytingu á gildandi lögum um höfundarétt, svo að þau samrýmist ákvæðum milliríkjasamningsins. Hið skemmsta, sem hægt væri að ganga í þessu efni, til þess að Ísland geti gerzt aðili að hinum nýja milliríkjasamningi, er að lengja tímann, er rit, sem ekki eru orðin almannaeign, njóta verndar gegn þýðingum, úr tíu árum í a. m. k. 25 ár frá fyrstu birtingu þess ritverks, sem verndarinnar nýtur. En í frv. því, sem hér liggur fyrir og flutt er af hæstv. ríkisstj., er lagt til að stíga skrefið að fullu og láta höfund njóta sömu verndar gagnvart þýðingum og hann nýtur með frumrit samkv. lögum um rithöfundarétt og prentrétt, þ. e., að eignaréttur að sömdu máli helzt alla ævi höfundar og 50 ár eftir hann látinn. Um leið og þessi breyting er gerð, samrýmast lögin um rithöfundarétt og prentrétt bæði hinum nýja milliríkjasamningi um höfundarétt og meginreglu Bernarsáttmálans um þetta efni.

Þetta sjónarmið hæstv. ríkisstj., sem flutt hefur þetta frv., mun vera byggt á því, að hæpið sé, að Íslendingum muni haldast uppi til langframa að fylgja ekki meginreglu Bernarsáttmálans í þessu efni, því að gert er ráð fyrir, að heimildin til undantekningar verði ekki varanleg, — sú heimild, sem Ísland hefur notfært sér til þessa. Þýðingarrétturinn er og einn þáttur höfundaréttar og því eðlilegt, að hann sé látinn njóta fullrar verndar að íslenzkum lögum.

Menntmn., sem hefur athugað þetta mál, fellst á þetta sjónarmið og mælir með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.