30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

51. mál, gengisskráning

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseli. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er fram borið til staðfestingar á brbl., sem hæstv. ríkisstj. gaf út þann 20. apríl s.l. Í þeim brbl. er gerð dálitil breyting á ákvæðum gengislaganna, nr. 22 frá 1950, um uppbætur á sparifé. Í þeim lögum var ákveðið, að 10 millj. kr. af stóreignaskatti skyldi varið til þess að bæta verðfall, sem orðið hefur á sparifé einstaklinga átímabilinu frá árslokum 1941 til júnímánaðarloka 1946, þ.e.a.s. á fé, sem staðið hefði inni í láns- eða viðskiptastofnunum yfir það tímabil.

Samkv. 2. málsgr. laganna var það skilyrði sett, að innstæðan hefði staðið óslitið frá árslokum 1941 til júníloka 1946 til ávöxtunar í nefndum láns- eða viðskiptastofnunum. Samt var ákveðið, að réttur til bóta félli ekki niður, þótt sparifé hefði verið flutt úr einum sparifjárreikningi í annan í sömu stofnun eða á milli stofnana. Landsbanka Íslands var samkv. lögunum falin framkvæmd úthlutunar á þessum uppbótum.

Nú er frá því sagt, að það hefur komið í ljós, þegar farið var að vinna að framkvæmd laganna, að það hafi verið miklum erfiðleikum bundið að fullnægja þessu skilyrði laganna, að innstæðan hefði staðið óhreyfð allan tímann, þ.e.a.s., það er talið mjög erfitt að rekja þannig feril þessa sparifjár og finna, hvort það hafi staðið inni allan tímann í einhverjum stofnunum, sem til greina koma. Því er það, að ríkisstj. hefur gefið út þessi brbl., en aðalbreyt., sem þar er gerð, er sú, að þetta skilyrði er fellt niður, að það sé sannað, að innstæðan hafi staðið óslitið allt tímabilið inni í einhverri slíkri stofnun, heldur segir í brbl., að bætur skuli miða við heildarinnstæðufjárhæð eins og hún var í árslok 1941 og í lok júnímánaðar 1946, og skal miðað við lægri innstæðufjárhæðina. Þetta er aðalbreytingin, sem gerð er.

Auk þess er ákveðið í brbl., að bætur skuli ekki greiða á heildarinnstæðufjárhæðir manna, sem lægri eru en 200 kr. Hefur ekki þótt ástæða til þess að taka lægri upphæðir með, en það mundi að sjálfsögðu auka töluvert starfið við þetta, ef ætti að taka slíkar smáupphæðir með við úthlutunina, en skiptir sennilega ekki miklu máli fyrir innstæðueigendur.

Þá er loks sú breyting gerð með brbl., að það skilyrði, að innstæðufjárhæðin hafi verið talin fram til skatts, er ekki látið ná til innstæðufjár ófjárráða sparifjáreigenda, sem voru yngri en 16 ára í lok júnímánaðar 1946, en að öðru leyti er skilyrðinu haldið um það, að fjárhæðin hafi verið talin fram til skatts, eins og er í l. upphaflega.

Fjhn. hefur athugað þetta frv., borið það saman við eldri l. og mælir með því, að það verði samþ., getur að athuguðu máli á það fallizt, að rétt sé að gera þessar breyt. á lögunum.