08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2208)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm,. meiri hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég viðurkenni að vísu, að það er rétt hjá 1. þm. N-M., að þetta má ef til vill telja óeðlilegt. En ég vil þá jafnframt taka fram, að ég álít, að við höfum tekið ákaflega mikið tillit í n. til hv. þm. Seyðf. í þessu máli um drátt á málinu, og það er hv. þm. kunnugt, og ég vil segja, að það hafi nálgazt það að hafa gengið úr hófi. Þess vegna er það, að ég óska, að þetta mál sé tekið fyrir, að það er beinlínis kominn fram sá þingvilji í sambandi við ályktanir, sem gerðar hafa verið hér á Alþ., og í samræmi við lög, sem hér hafa verið samþ., að mikill meiri hl. þm. vildi ganga í Bernarsambandið, og jafnframt hefur verið með miklum meiri hl., ef ekki samhljóða, samþ. þál. um það, að eðlilegt væri, að við gengjum í þetta samband. Ég tel þess vegna mjög varhugavert af n. og kannske sérstaklega mér sem form. að draga þetta mál lengur og sjá fram á, að ef til vil] fái ekki hv. d. tækifæri til þess að láta í ljós skoðun sina á þessu máli. Ég er alveg viss um, að þegar hv. 1. þm. N-M. skoðar hug sinn um þetta mál, þá viðurkennir hann það. Og ég veit, að það hefur verið alveg á takmörkunum, að n. hefði leyfi til að taka tillit sem þetta fyrir það, að einn maður hefur verið málinu andvígur, kannske með réttu, ég skal ekkert um það segja, en meðan hann hefur leitað upplýsinga og gert fyrirspurnir í hv. Sþ. um þetta mál. Ég get því ekki mælt með því, að frekari dráttur verði á því, að hv. d. fái að taka afstöðu til málsins, og það ætti engu að spilla í þessu máli, því að mér er kunnugt, að það eru ekki flóknar brtt., sem hv. þm. Seyðf. ætlar að koma fram með. Hann ætlar einfaldlega að leggja til, að málið verði fellt, og fyrir því getur hann alveg eins talað við 3. umr.