12.04.1954
Efri deild: 85. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2216)

18. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. minni hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans greinagóðu ræðu og þær upplýsingar, sem hann gaf í sambandi við fyrirspurnir mínar um STEF, sem þó gátu ekki verið fullkomin svör, vegna þess að það fáheyrða fyrirbrigði skeður, að félag, sem er löggilt af ríkisvaldinu, neitar um sjálfsagðar upplýsingar.

Af ræðu hæstv. dómsmrh. fannst mér mega ráða það, að jafnvel hann væri ekki búinn að gera upp við sig, hvað rétt væri að gera í þessu máli. Ég get ekki skilið það öðruvísi en sem meðmæli með því, að rökstudda dagskráin, sem ég leyfði mér að bera fram, verði samþ. Í sambandi við það vil ég taka fram, að hún var einmitt umorðuð þannig, þegar ég kom fram með þessa nýju till., að stjórnin gæti að athuguðu máli, ef hún teldi þörf til þess að tryggja íslenzka höfunda í Ameríku, gefið sjálf út bráðabirgðalög, til þess að svo gæti orðið. Hitt virðist mér liggja í augum uppi, að á meðan allt er þannig á huldu með málið, fari d. ekki að óþörfu að gera blaðaútgefendum, bókaútgefendum og tímaritaútgefendum þann stóraukna kostnað, sem hlýtur að leiða af samþykkt frv. eins og það liggur fyrir, vegna þess að um leið og það er samþ. sem l. og þau staðfest, þá eru þau búin að fá gildi gagnvart öllum þjóðum, sem eru í Bernarsambandinu, en einmitt núna höfum við fyrirvara um þetta efni.

Ég verð því mjög að endurtaka tilmæli mín til d. um, að hún samþ. þá rökstuddu dagskrá, sem ég hef borið fram, og ég fullvissa um, að rétt okkar ágæta tónskálds, Páls Ísólfssonar, og annarra er vandalaust að tryggja með því að fara fram á það við Bandaríkjastjórn, að sá samningur, sem gerður verði, verði látinn taka gildi frá fyrri tíma heldur en hann verður endanlega undirritaður.

Ég skal svo ekki tefja tímann með því að fjölyrða um þetta.